Áður en fyrstu tíðir hefjast

Þegar stúlkur verða kynþroska fer líkami þeirra að framleiða kynhormóna. Hormónar eru efni í líkamanum sem stjórna ýmsu. Kynhormónar kvenna stjórna því hvenær eggin þroskast og hvenær blæðingar verða. Tíðir/blæðingar eru náttúrlegar og reglubundnar blæðingar sem hormónarnir koma af stað.

Það er merki um heilbrigði að fá tíðir/blæðingar. Það sannar að líkaminn starfar eins og hann á að gera.

Margar fjölskyldur halda upp á þessi tímamót. Sumir efna til veislu eða gefa gjafir. Kannski mamma geti stungið upp á einhverju sniðugu?

Stúlkur ættu einnig að ræða við móður sina eða einhverja sem þær treysta, um blæðingarnar og heyra um hennar reynslu og þiggja góð ráð af henni. Ef það er feimnismál að impra á þessum við móður sína, gæti eldri systir, frænka eða einhver önnur verið innan handar. Skólahjúkrunarfræðingurinn er líka til viðtals þegar á þarf að halda.

Hvar blæðir?

Blóðið rennur úr leggöngunum. Þegar blæðingar hefjast sést það oft í nærbuxunum eða blóð fer í salernispappírinn.

Eru blæðingar hættulegar?

Nei, blæðingar eru EKKI hættulegar. Þær eru eðlilegar og náttúrlegar. Þær vara 4-7 daga.

Það er eðlilegt að stúlkur hafi blæðingar og ekki ætti að reyna að stöðva þær. Notkun dömubinda kemur í veg fyrir að fötin óhreinkist af blóði.

Hvað þarf að vera við höndina við fyrstu blæðingar?

Gott er að vera búin að útvega sér pakka af dömubindum og geyma þau í herberginu eða í baðherberginu svo þau séu innan seilingar þegar á þarf að halda. Það er gott að vita af þeim svo ekki þurfi að grípa til pappírs eða baðmullar, sem er fremur óhentugt. Dömubindi eru betri en baðmull því blóðið kemst ekki í gegnum þau. Þegar blæðingar hefjast þarf bara að setja dömubindið innan í nærbuxurnar og bindið sýgur til sín blóðið.

Það er heldur ekki vitlaust að geyma bindi í skólatöskunni ef blæðingar skyldu hefjast á skólatíma. Til eru bindi sem eru pökkuð ein og sér í plastpoka og það er hægur vandi að geyma eitt slíkt í skólatöskunni. Ef blæðingar hefjast á skólatíma og bindið hefur gleymst heima, má alltaf fá úrlausn mála hjá skólahjúkrunarfræðingnum eða biðja kennara aðstoðar.

Hvað á að gera við notuð dömubindi?

Þegar skipta þarf um bindi og losa sig við notaða bindið er best að vefja salernispappír utan um það eða stinga því í plastpoka ef þeir fylgja bindunum. Notaða bindið er síðan sett í ruslakörfu á baðherberginu. Svona körfur er oftast að finna við hliðina á salerninu, annars er oft upphengdur plastpoki undir bindin. Ef ekki er unnt að losa sig við bindið inni á baðherberginu er hægt að lauma því innpökkuðu í buxnavasann og henda því svo í næstu ruslatunnu. Ekki fer vel á því að sturta bindunum niður í salernið því bindið sýgur í sig vatn og tútnar út og gæti því stíflað niðurfallsrörið.

Hvenær hefjast blæðingar?

Blæðingar hefjast oftast þegar stúlkan er milli 10 og 16 ára. Meðalaldurinn er 12,5 ár. Konur hafa blæðingar fram til 45-55 ára aldurs. Blæðingar vara 5-7 daga hjá flestum.

Blæðingar hætta á meðgöngutíma.

Hversu oft fá stúlkur blæðingar?

Blæðingar verða um það bil mánaðarlega. Þær vara í 4-7 daga og síðan líða um það bil 24 dagar fram að næstu blæðingum. En tíðni blæðinganna er þó einstaklingsbundin. Gott er að merkja við dagana í almanakinu til að komast að raun um það hve langt er milli blæðinga og þá er hægt að reikna út hvenær von er á þeim næstu. Fyrst um sinn er eðlilegt að blæðingar séu óreglulegar.

Hvað gerist við blæðingar?

Í líkama stúlkna eru nokkur líffæri sem eingöngu konur eru með. Eggjastokkar, eggjaleiðarar, leg og leggöng. Í eggjastokkunum verða eggin og hormónarnir til.

Eggjaleiðararnir senda eggið frá eggjastokkunum til legsins. Legið er vöðvi þar sem eggið getur fest sig ef það hefur náð að frjóvgast af sæðisfrumu.

Í neðsta hluta legsins er op og niður úr því liggja leggöngin. Þau eru 7-10 cm löng og opnast út á milli þvagrásarinnar og endaþarmsopsins. Leggöngin gegna mörgum hlutverkum. Fyrst og fremst eru þau annað af tveimur líffærum (hitt er snípurinn) sem gegna stærstu hlutverki í kynlífi kvenna. Við samfarir stingur karlmaður lim sínum inn í leggöngin. Þau eru einkar næm fyrir snertingu og veita konunni þannig fullnægingu í kynlífi. Snípurinn sem er við mót innri skapabarma fyrir ofan þvagrásina og leggangaopið, gegnir ekki minna hlutverki í kynlífi kvenna. Þar sem leggöngin eru opið á leginu, flytja þau tíðablóðið úr leginu og um þau fæðast börnin.

Þegar stúlkan kemst á réttan aldur verða hormónarnir sem fyrir voru í líkamanum, virkir.

Í eggjastokkunum verður til hormón sem kallast östrogen. Östrogen hefur áhrif á slímhúð legsin s svo að það vex og þroskast.

Eftir að östrogenið hefur verið virkt í 10-14 daga losnar egg úr eggjastokknum og hann fer þá að búa til annað hormón. Það hormón kallast prógesterón.

Nú hefur eggið færst úr eggjastokknum, eftir eggjaleiðaranum og niður í legið. Framleiðsla á prógesteroni hættir ef eggið rekst ekki á sæðisfrumu og hefur því ekki náð að frjóvgast. Þegar framleiðsla minnkar og hættir síðan losnar slímhúðin í leginu. Þegar slímhúðin losnar úr leginu koma blæðingarnar. Þetta ferli tekur um það bil 28 daga og svo hefst sama ferli aftur, þannig að sífellt er fersk og frjósöm slímhúð í leginu.

Heimild: Doktor.is

SHARE