Ætlaði að verða líksnyrtir eða svínabóndi Hofsósi – Hannaði nýja útlit Lite bjórsins

Júlía Hvanndal er 27 ára gömul og er grafískur hönnuður sem vinnur á markaðshúsinu Janúar. Janúar var stofnað í janúar síðastliðnum, en þá fóru fyrirtækin Fíton, Skapalón, Miðstræti, Kansas og Auglýsingamiðlun undir eina sæng. Hjá Janúar starfa grafískir hönnuðir, texta- og hugmyndasmiðir, birtinga- og markaðssérfræðingar, prentsmiðir, forritarar og vefhönnuðir.

Hefur komið víða við

Júlía fæddist í Danmörku, var barn í Vesturbænum, unglingur í Keflavík, flaug svo á vit ævintýranna í fæðingarlandi sínu Danmörku, þar sem hún dvaldi um skeið. „Ég bjó á Norrebro og á meðan ég var þar stóðu mótmæli vegna Ungdomshuset sem hæst, það ríkti því hálfgert stríðsástand á svæðinu. Ég upplifði það að fá táragas í augun og náði líka sögulegum myndum af fólki brjótast inn í banka. Semsagt mjög eftirminnilegir tímar.”

Vorið 2008 kom hún heim á ný og flaug inn á hönnunarbraut í Listaháskóla Íslands. Aðspurð hvort hún hafi alltaf ætlað að vera hönnuður eða ljósmyndari þá segist hún lengi vel hafa ætlað að vera líksnyrtir eða svínabóndi á Hofsósi.

Júlía segir námið í LHÍ hafa verið mjög gott og gagnlegt í marga staði.

Upplifði niðurrif og uppbyggingu

Þegar hún lítur til baka finnst henni kennsluaðferðirnar hafa haft góð áhrif á sig. Hún upplifði það að vera svolítið rifin niður en svo byggð upp aftur og kennt að vera með skýra sýn og standa með sér og sínum verkefnum. Sú reynsla kemur sér vel í dag, sem hönnuður á auglýsingastofu. Í náminu er mun meiri áhersla lögð á hönnun sem  listgrein frekar en markaðstól. Að loknu námi í hönnun lofa margir sjálfum sér að fara aldrei að vinna á auglýsingastofu – en annað kemur yfirleitt á daginn og starfa flestir grafískir hönnuðir við markaðs og auglýsingagerð af einhverju tagi og eru sterkari fyrir vikið.

Capture.PNG  GULL L

Fjölbreytileg verkefni

Júlía hóf störf á Fíton, sem nú er orðið að markaðshúsinu Janúar, haustið 2012 og er það fyrsta stóra hönnunarfyrirtækið sem Júlía starfar á. Fyrir þann tíma vann hún að eigin „freelance” verkefnum ásamt því að hafa stofnað auglýsingastofuna Undralandið með  þremur vinkonum sínum sem allar áttu það sameiginlegt að vera nýútskrifaðir hönnuðir.

Henni líður vel á Janúar og tekur þá sérstaklega fram hvað mikið er lagt úr samvinnu og trausti samstarfsfólks. Með fram fullu starfi þar er hún ennþá með verkefni á eigin vegum, þar á meðal er hún yfirhönnuður tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves og einnig kemur hún að stofnun gagnabanka um merkar konur fyrr og síðar, erlendis sem og á Íslandi. Það er verkefni sem vert er að skoða.

Á auglýsingastofu koma fjölbreytt verkefni inn á borð hönnuða. Herferðir eru fyrirferðamestu verkefnin, í þær er mikið lagt, bæði tími og fjármunir. Þá er gefið svigrúm fyrir rannsóknarvinnu og tími gefst til að kafa vel ofan í hugmyndavinnu. Júlíu finnst áþreifanlegt hvað gæði og árangur verða meiri þegar tíma er eytt í rannsóknir og hugmyndavinnu.

Önnur algeng verkefni eru til dæmis merki og ásýnd fyrirtækja eða vara, pakkningar, bókakápur og allir sem vinna á auglýsingastofum kannast vel við (kannski betur en þeir vilja) að fá skilaboðin „þurfum að redda þessu strax, helst í gær!”

Egils Lite verður Gull Lite

Júlía fékk á dögunum ansi skemmtilegt verkefni inn á borð til sín en það gekk út á að búa til nýtt útlit fyrir bjórinn Gull Lite frá Ölgerðinni. En Egils Lite fékk nafnabreytingu og útlitsbreytingu á dögunum. Samkvæmt fræðunum er þetta nokkuð djarft skref, sérstaklega þar sem vörumerkið er rótgróið og varan margverðlaunuð.

Júlía fékk nokkuð frjálsar hendur í hönnuninni. Áður en hönnunin hófst var lögð mikil áhersla á rannsóknarvinnu.

Í rannsóknarvinnunni skoðaði Júlía, ásamt teyminu sínu á Janúar, neytendahóp Lite bjórsins sem og í hvaða umhverfi hann er helst að birtast.  Hún segir unga karlmenn þá helst drekka bjórinn, bæði með mat og í partýum. Bjórinn er léttur og því er gott að drekka hann með td pizzum og þegar farið er út á lífið.

Júlíu tók eftir því að flestar lite umbúðir voru með ákveðna glansímynd. Margar hverjar eru í skærum litum og með háglans áferð „Ég vildi fara alveg í hina áttina og prufaði mig áfram með aðrar áferðir og liti,“ segir Júlía.  „Niðurstaðan varð að mattri áferð með einfaldri en ákveðnari grafík sem stóð úr hinum glans umbúðunum. Sem Lite einmitt gerir, hann stendur upp úr, margverðlaunaður. Fyrir utan Ölgerðarborðann sem er dökkrauður.”

Þessir litir eru taldir, samkvæmt fræðunum, vera tákn um klassa og gæði.

„Ég teiknaði Lite merkið upp út frá léttleika, í bland við sterka ásjónu enda er Lite er sterkt vörumerki. Mér finnst útkoman bera merki um gæði og vera létt í senn.“

Aðspurð hvort hún eigi sér draumaverkefni þá hlakkar hún til að fá tækifæri til að setja upp fallegar bækur, gera videoverk og svo er hún spennt fyrir því að prófa að vinna grafík með fatahönnuðum svo eitthvað sé nefnt.  Greinilegt er að Júlía er bara rétt að byrja og á sannarlega framtíðina fyrir sér sem hönnuður.

Capture.PNG LITE

 

 

SHARE