Fanney Dóra Sigurjónsdóttir er menntuð sem félagsráðgjafi en hefur alltaf haft ástríðu fyrir matargerð. Eftir að hafa starfað sem félagsráðgjafi um tíma ákvað hún að söðla um, elta draum sinn og prófa að starfa sem kokkur. Fyrst í Noregi en svo á veitingastað Jamie Oliver í Brighton – Jamie’s Italian – þar sem hún hefur starfað í tæp tvö ár.

Skaust á prufuvakt í Bretlandi

„Ég sá auglýst starf á staðnum hans í Brighton, þar sem ég hafði borðað nokkrum árum áður og líkað vel. Ég ákvað að sækja um, ég sæi aldrei eftir því. Fékk strax svar og var beðin um að koma á prufuvakt, þannig ég skaust frá Noregi til Bretlands í vaktafríinu mínu, og var komin með vinnuna strax eftir vaktina.“ Fanney átti aldrei von á því að fá starfið, hvað þá að þetta gengi svona hratt fyrir sig. Hún fór einfaldlega á prufuvaktina til að fá að fá að vera í Jamie Oliver eldhúsi í nokkrar klukkustundir. Dvölin varð hins vegar aðeins lengri, henni til mikillar ánægju.

Jamie Oliver hafði lengi verið í uppáhaldi hjá Fanneyju, enda kann hún að meta viðhorf hans til matargerðar. Það var því draumi líkast að landa starfi á veitingahúsi í hans eigu. „Ég hafði auðvitað bara verið að vinna sem félagsráðgjafi og var ekkert á leið í fullt starf í matreiðslu. En ég tók bara sénsinn og allt fór að rúlla,“ segir Fanney sem sýndi matargerð strax áhuga þegar hún var barn. „Matur hefur alltaf verið stór þáttur í fjölskylduviðburðum, svo áhuginn kom bara um leið og ég fór að hafa vit. Pabbi er frábær grillari sem gaman er að fylgjast með og mamma bakar alltaf um helgar. Ég man eftir því að þegar ég var að byrja að baka ein, þá setti mamma þá reglu að ég yrði að taka til eftir mig. Ég var algjör tætubuska í byrjun,“ segir Fanney hlæjandi.

 

Sjá einnig: Þriggja manna fjölskylda öll fengið krabbamein

Prófar sig áfram í íslenskri matargerð

Eftir mikið ævintýri hjá Jamie Oliver er Fanney nú á leið heim til Íslands. Henni finnst tími til kominn að prófa sig aðeins áfram í íslenskri matargerð og er komin með vinnu hjá Gísla Matthíasi Auðunssyni, eiganda Matar og drykkjar. „Ég verð með honum í Vestmannaeyjum á fjölskylduveitingastaðnum Slippnum, sem hann á þar. Ég verð með bísperrt eyru og augu að læra á íslenskt hráefni af þessum færa kokki. Eftir sumarið er svo ekkert ákveðið, en ég hef verið heppin með tækifæri hingað til svo eg hef litlar áhyggjur,“ segir Fanney full af tilhlökkun.
En það er líka fjölskyldan sem kallar á hana. „Ég hef verið erlendis í fjögur ár en núna finnst mér mikilvægt að koma heim, taka þátt í lífi fjölskyldu minnar og vina – svona þegar ég er ekki að vinna,“ segir hún kímin.

Fanney segir það hafa verið einstaklega lærdómsríkt á margan hátt að starfa fyrir Jamie Oliver. Um er að ræða stórt fyrirtæki en hver starfsmaður skiptir engu að síður máli og starfsfólkið er eins og ein stór fjölskylda. Hún hefur á þessum tíma eignast marga góða vini og lært margt nýtt, bæði um mat og sjálfa sig.

fanney

 

Sjá einnig: Hlaupadrottningin hleypur varla aftur

Aðspurð segir Fanney erfitt að velja eitthvað eitt sem stendur upp úr eftir þennan tíma, og þó. „Mómentið þegar ég fékk þá viðurkenningu að vera Rising Star Jamie’s Italian á öllu Suður-Bretlandi, það var frábær viðurkenning á öllu púlinu undanfarin ár.“

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans

SHARE