After Eight marengs – Þessa köku verður þú að prófa!

Tinna Björg er bökunarsnillingur með meiru en hún heldur úti matarblogginu tinnabjorg.com. Við birtum reglulega girnilegar uppskriftir frá Tinnu á Hún.is og hér er ein alveg ómótstæðileg. Þessi kaka verður svo sannarlega bökuð um helgina! Ef þú vilt fylgjast með því nýjasta frá Tinnu getur þú fylgt henni á Facebook síðu matarbloggsins sem nálgast má hér.

After Eight marengs
3 eggjahvítur
150 g púðursykur
80 g strásykur
4 bollar Rice Crispies
200 g After Eight
500 ml rjómi
250 g jarðarber
Þeytið eggjahvítur í skál þar til þær verða stífar og ekki lengur froðukenndar.
Bætið púðursykri og strásykri við og þeytið þar til blandan verður ljós og alveg stíf. Þegar maður heldur að marengsinn sé tilbúinn er gott að þeyta hann aðeins meira því ef hann er ekki nógu stífur getur hann farið að leka í ofninum og botnarnir verða flatir.
Blandið Rice Crispies varlega saman við.
Teiknið með blýanti hring á sitthvora bökunarpappírsörkina. Gott er að nota botninn úr 24 cm kökuformi til að teikna eftir en ég vil hafa marengsinn aðeins minni og þykkri svo ég teiknaði eftir skál sem hefur minna þvermál en kökuformið.
Skiptið marengsblöndunni jafnt á bökunarpappírsarkirnar og smyrjið þannig að blandan fylli upp í teiknuðu hringina.
Bakið í ofni við 150° í 40 mínútur.
Takið frá 8 plötur af After Eight og leggið til hliðar ásamt 25 ml af rjóma.
Þeytið 475 ml af rjóma. Skerið afganginn af After Eight í smáa bita og blandið saman við rjómann.
Setjið smá slettu af rjóma á kökudisk svo kakan festist við hann og renni ekki til.
Hvolfið öðrum marengsbotninum á diskinn og smyrjið helmingi rjómans ofan á.
Skerið jarðarberin í smáa bita og dreifið rúmlega helmingnum yfir tertuna.
Leggið hinn botninn ofan á og smyrjið með restinni af rjómanum.
Bræðið 6 After Eight plötur í potti við vægan hita með 25 ml af rjóma. Kælið þar til blandan verður volg og hellið yfir tertuna í mjórri bunu með skeið þannig að kakan verði röndótt.
Skerið 2 After Eight plötur horn í horn þannig að úr verða tveir þríhyrningar.
Raðið þríhyrningunum í kórónu ofan á tertuna og fyllið með jarðarberjum.
Dreifið restinni af jarðarberjunum yfir kökuna og skreytið með myntulaufum.
Myntan og jarðarberin eru himnesk blanda. Margir eiga eflaust aðalbláber í frystinum eftir sumarið og er tilvalið að bæta nokkrum á milli botnanna til að halda jarðarberjunum félagsskap. Kökur innihalda aldrei of mikið af berjum!
Verði ykkur að góðu!
Tinna Björg
SHARE