Áheitaganga Sigurðar Hallvarðssonar knattspyrnukappa til styrktar Ljósinu

 

Pistill Sigurðar:
Sigurður Helgi Hallvarðsson heiti ég og er heilakrabbameinssjúklingur.

Ég greindist með æxli apríl 2004 þannig að ég hafði fengið flog heima og var settur í rannsókn í kjölfarið. Flogalyf tóku svo við en ákveðið var að gera ekkert þar sem grunur var að þetta væri bara æxli af annarri gráðu. Stigin er fjögur og saklaus kallast þau ef þau eru á fysta stigi og jafnvel öðru stigi. Ný tæki komu til landsins í janúar 2005 og var mér skellt þar inn til að greina frekar. Þá fékk ég greininguna að grunur væri að um þriðja stig væri að ræða og fysti uppskurður var gerður í mars 2005. 1 æxli fjarlægt. Geislameðferð í kjölfarið.

2007 var annar uppskurður gerður en þá var komið annað æxli í aðgerðarholuna og það var tekið. Lyfjameðferð í kjölfarið.

2009 var þriðju uppskurðurinn og þá var æxli vaxið inn af því fyrsta en þarna 2005 lagði doksinn bara ekki í að fara svona innarlega í heilann og er ég mjög svo þakklátur fyrir það því þarna kom að því að heppnin var ekki með mér því núna lamaðist ég í kjölfarið vinstra megin í líkamanum og við tók stíf endurhæfing á Grensás og lyfjameðferð svona samhliða því.

2011 var fjórða aðgerðin gerð þá var eitt enn furðuverkið vaxið þar sem engin heilavefur var til að nærast á en samt gat það komið sér þarna fyrir. Jafnað mig fljótt og engin meðferð!

2012 fimmta aðgerðin og nú voru það tvö æxli sem voru búin að koma sér makindalega fyrir. Lyfjameðferð í kjölfarið!

2013 sjötta aðgerðin og doktorarnir ekki alveg sammála um hvort aðgerð ætti að vera gerð eður ei en ég vildi aðgerð svo það var gert. 4 æxli sem sáust á mynd og 3 af þeim voru fjarlægð en eitt var það innarlega að það var látið vera.

2013 mai fór ég í myndartöku og nú logaði heilinn af mér af mörgum illkvittnum æxlum sem sendu þau skiaboð um að ekkert væri hægt að gera og eftir ráðleggingar hjá Doksanum þá hafnaði ég lyfjameðferð en geislameðferð var ekki í boði þar sem heilinn hefði steikst allur með æxlaskömmunum.

Sumarið hefur verið gott, ekki mikið um verki eða önnur óþægindi nema að daparar hugsanir koma upp við og við en stór og mikil fjölskylda og enn stærri fótboltafjölskylda standa við bakið á mér þannig að ég ákveð að lifa lífinu þar til annað kemur í ljós en minn tími er lítill eftir hér jörð! En hann ætla ég að nota.

Ljósið hefur gert margt og mikið fyrir mig og í það fyrsta hefur það verið staður þar sem ég get alltaf litið við og alltaf einhver sem vill tala við mig og það er visst öryggi að hafa festu í lífinu og það hefur Ljósið verið fyrir mig og marga marga aðra.

Ég vil á einhvern hátt fá að endurgjalda Ljósinu þakklæti mitt og gera það sem í mínu valdi stendur til að starfsemin þar fái að ganga áfram og fleiri fái að njóta stuðningsins sem þau þarna öll bjóða upp á.

Ég stefni því að ganga frá Olísstöðinni í Norðlingaholtinu til Hveragerðis og tilbaka á einum sólarhring væntanlega daganna 27. – 28. ágúst en það verður staðfest síðar. Þeir sem vilja heita á mig geta hringt í ákveðið áheitarsímanúmer eða þá lagt inn ákveðna upphæð inn á reikning hjá Ljósinu en þær upplýsingar verða tilkynntar síðar. Þetta verður betur auglýst í fjölmiðlum er nær dregur.

Með fyrirfram þökk um stuðning – Siggi Hallvarðs.

Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum geta hringt í eftirfarandi símanúmer og upphæðin bætist við símareikninginn.
901 5011 – 1000kr 
901 5013 – 3000kr 
901 5015 – 5000kr

SHARE