Álagstímabil í samböndum: Þriðja árs krísa

Það er oft sagt að þriðja árið sé það erfiðasta í hjónabandinu, þó það hafi aldrei verið vísindalega sannað. Anna og Guðmundur, sem litu við hjá mér í vikunni sem leið, höfðu lent í þessari „þriðja árs þreytu“. Það lá reyndar vel á þeim.

„Við erum búin að búa sitt í hvoru lagi í hálft ár og núna viljum við reyna aftur“, sögðu þau. „Við hittumst fyrir fjórum árum og urðum strax rosalega ástfangin,“ sagði Anna. „Þegar við vorum búin að vera saman í eitt ár ákváðum við að gifta okkur. Fyrst gekk allt rosalega vel. Auðvitað komu upp einhver smá deilumál en það var ekkert sérstakt. Árið eftir giftinguna eignuðumst við Jónu Pálu. Mér fannst frábært að verða mamma, þó að fæðingin sjálf hafi verið erfið. En Jóna Pála var góð, fékk engar magakveisur, svaf vel og okkur hafði aldrei liðið betur. Þetta varð samt erfiðara hjá okkur eftir því sem á leið. Ekki batnaði ástandið þegar við fluttum í hálfkláraða íbúð. Guðmundur sá þá um allt, ég gat lítið hjálpað honum“.

Guðmundur hélt áfram: „Þetta var mjög erfiður tími hjá mér. Ég varð að sjá um allan flutninginn, ganga frá peningamálunum, gera íbúðina í stand og skila þeirri gömlu. Um leið hafði ég nóg að gera í vinnunni. Ég er trésmiður og við vorum komnir á eftir með skil á húsnæði sem við vorum að vinna í, þannig að það var mikil eftirvinna. Þegar ég kom heim úr vinnunni var ég dauðþreyttur og við fórum alltaf að rífast“.

„Já,“ sagði Anna, „við vorum farin að rífast um allt, oft algera smámuni. Ég þoldi ekki hvernig hann gekk um heimilið og hann var alltaf að rífast í mér út af peningamálunum. Svo vorum við með skítkast hvort út í annað. Þetta var óþolandi ástand. Þegar Guðmundur kom heim vildi hann hvíla sig áður en hann byrjaði að vinna í íbúðinni. Um helgar vildi hann bara slappa af heima en ég vildi fara meira út og hitta fólk. Og við gátuma aldrei talað um málið. Þetta kom líka niður á kynlífinu. Það var alltaf óþægilegur spenningur í kringum það. Að lokum þoldi ég ekki meira. Ég varð að komast út úr þessu“.

Guðmundur var á sama máli. Hann flutti í herbergi rétt hjá þeim mæðgum og hjálpaði til með Jónu Pálu. En svo fóru þau að fara út saman aftur. Þau töluðu um það sem hafði gengið á, töluðu tímunum saman og fundu að þau voru jafn ástfangin eins og áður. Þau höfðu bara ýtt frá sér tilfinningunum á erfiðu tímabil.

Eins og vill verða hjá mörgum ungum fjölskyldum voru Anna og Guðmundur ekki reiðubúin að takast á við vinnuálagið sem fylgir því að stofna fjölskyldu. Barn krefst umhyggju og umsjónar foreldra sinna allan sólahringinn. Margir átta sig ekki á því fyrr en á reynir. Svo þarf að borga alla reikningana, koma sér þaki yfir höfuðið, standa sig í vinnunni o.s.frv.! Og þau sem áður voru ein í heiminum, ung og ástfanginn og gátu gert það sem þau vildu, þegar þau vildu. Á þessu tímabili í lífinu er hætta á að þreyta hlaupi í sambandið, enda álagið mikið.

Parið er alltaf þreytt, rífst jafnvel um það hvort þeirra sé þreyttara! Þegar svona er ástatt verður kynlífið bara enn ein skyldukvöðin. Spurningin er, hvernig hægt sé að standast þetta álag? Parið verður að læra að taka frá tíma fyrir sig. Ekki til þess endilega að gera eitthvað stórt, heldur fyrst og fremst til þess að fá næði til að vera saman.

Ef við gleymum sambandinu okkar er hætta á að við lendum í því sama og Anna og Guðmundur. Þau lokuðu óþægindin innra með sér en það leiddi til óánægju og spennu í sambandinu og þau voru alltaf að deila og nöldra. En ef par er sammála um að deilur og erfiðleikar séu til þess að takast á við og leysa, og að það sé á ábyrgð beggja að leysa þær, þá getur þetta tímabil sem mörgum er svo erfitt, orðið til þess að styrkja sambúðina þegar fram í sækir.

 Grein áður birt á: doktor.is logo

SHARE