Andlegt heilbrigði um jólin

Hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð. Hátíðarmyndin er kyrr, svo kyrr að hún gæti gárast ef á hana væri andað. Hún er kölluð fram aftur og aftur af þrá eftir því sem var. Hún er kyrfilega sett inn í voldugan ramma og hún er einungis sett upp dagana fyrir jólin. Myndin er snýr fram er mynd einfaldleika og hátíðar sem jólin eiga vissulega að vera. Hugur þeirra fullorðnu hvílir oftar en ekki við „jötu“ bernsku jólanna sveipaður ljóma horfinna daga geymt í geymslu minninga um „dýrleg jól.“

Sætkenndur ilmur

Stofan lokuð frá Þorláksmessukvöldi til kl. 18.00 á aðfangadagskvöld. Pabbi og mamma með leyndardómsfullan svip. Sætkenndur ilmur fortíðar leggst að vitum – rauð epli, appelsínur í skál fágætt góðgæti. Sígrænt tréð í stofunni springur af stolti, ljósin tendruð og fjölskyldan horfir á – hugfangin, með ljósablik í augum. Helgur blær leggst á sálu og vitund alla. Setið við útvarp og hlýtt á aftansöng. Í minningunni er sem tíminn standi í stað með stríðnissvip – kirkjuklukkur hringja jólin inn – í loftinu er spenna og ilmur hátíðar hvert sem litið er. Meira að segja fuglar himins virtust þegja af lotningu einni.

Jólin ákveðinn draumur um líf og tilveru?

Á jólum leggjum við okkur fram við að gleðja okkar nánustu og við hvert og eitt okkar viljum eiga hlutdeild þótt ekki væri nema brot af þeirri gleði, þeirri birtu og hamingju sem hátíð ljóss og friðar á að veita okkur. Við erum tilbúin að leggja ýmislegt á okkur til að öðlast þetta ljós og þennan frið. Því jólin eiga að tengjast gleði og friði.

Kannski er jólahátíðin aðeins draumur um líf og tilveru sem við vildum að væri, en er ekki í raun? Og það sem meira er, að við fáum aðeins örskotsstund eitt augnablik að finna, að þreifa á þeirri veröld sem barnið í okkur varðveitir – sakleysið, að ekkert íllt sé til í þessum heimi, því á jólum eiga allir að vera góðir.

Hugur mannsins er margslungið fyrirbæri, fyrirbæri sem leitast við vekja til lífsins góðar minningar, og á sama hátt sefa eða slæva eða hrekja burtu slæmar minningar.

Það er ekki nýtt, ekki framandlegt hvað þá spennandi að finna til kvíða, angistar. Jólahátíðin aðeins skuggi sem fellur á ásjónu barns eða fullorðinnar manneskju. Sá kvíði getur verið af margvíslegum toga og orsökum. Andi liðinna jóla gleymir engum og ber í fangi sér gleðilegar eða slæmar minningar ef einhvern tíma þá á jólum.

Að leyfa sér að hlakka til

Hátíð ljóss og friðar aðeins skuggi er átti leið hjá, gaf sér ekki tíma til að líta við og kasta örlítilli birtu í hugarfylgsni manneskju sem þráir það eitt að vera barn á jólum, að gleðjast, að hlakka til eins og barn á jólum.

Á jólum gengur áfengisvandinn fram í sinni sorglegustu mynd. Hjá samsettum fjölskyldum fylgir kvíði hverjir verða saman á jólunum. Sá kvíði er einkum fyrst eftir skilnað. Oftar en ekki fellur það síðan í fastar skorður. Einstæðingar kvíða því að vera einir yfir hátíðirnar. Fráfall maka, missir barns, nákomins ættingja, að ekki sé talað um tímaleysi sem virðist hrjá nútímamanninn og eða fjárhagsáhyggjur. Ramminn utan um mynd jólanna hefur skekkst. Við verðum fyrir vonbrigðum vegna þess að „jata“ bernskujólanna er fúin, botninn farinn úr. Þar sem væntingarnar ganga ekki eftir verðum við fyrir vonbrigðum. En jólin eiga að tengjast gleði og friði.

Fullkomnunaráráttan í hámarki

Til þess að öðlast þessa gleði og þennan frið tökum við okkur til á aðventunni og skreytum umhverfið með marglitum ljósaseríum og bætum það sem betur má fara í híbýlum okkar vegna þess að ekki er hægt að taka á móti hátíðinni án þess að vera búin að skúra, skrúbba og bóna. Vissulega hafa ytri aðstæður breyst og viðhorfið sömuleiðis. Það er löngun til að bæta ástandið. Fólk er í æ ríkara mæli farið að njóta aðventunnar, sækja tónleika og kirkjur á aðventunni og á jólum fyllast þær af fólki, ekki aðeins á aðventuhátíðum heldur og líka almennum guðsþjónustum, sem lýsir sér í löngun í að þreifa á raunverulegu inntaki jólanna. Vandinn er að þekkja takmörk sín. Um og fyrir jólin eru mörkin milli sýndar og raunveru oftar en ekki óljós. Við eigum að vera glöð og okkur á að líða vel með „fullkomna“ fjölskyldu og „fullkomið“ heimili og „fullkomið“ jólahald. Í veröld þar sem alið er á þeirri hugmynd að hlutirnir séu einfaldir og lífið sömuleiðis.

Leita inn á við í stað út á við

Til að nálgast helgi jólanna leitum við oftar en ekki út fyrir okkur. Í staðinn fyrir í einlægni að við hlúum að „jötu“ bernsku jólanna, sem við geymum í hjarta okkar. Það kann að vera djúpt á henni. Það kann að vera fullt að einskisverðum hlutum sem yfirskyggja hana, sem við höfum dregið að okkur í gegnum árin. Eða hver kannast ekki við að standa sjálfan sig, að því að hugsa eftir að borðhald aðfangadagskvölds er afstaðið: „Það vantar eitthvað þrátt fyrir að allar hirslur heimilisins fengu meira en nægja athygli og ferskt loft látið leika um. “

Veitum okkur sjálfum athygli

Jólin, jólahátíðin er ljós í myrkri. Veitum okkur sjálfum athygli. Verum svolítið eigingjörn á okkar tíma og okkar nánustu, maka og börn. Væntingar okkar til jólanna eru misjafnar. Um jólin, frið þess og gleði gildir það sama og í mannlegum samskiptum, að byggja ekki væntingar okkar til þeirra á annarri manneskju. Þá vitum við ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga og vonin og þráin eftir að fá innsýn í veröld, kyrrláta veröld er dæmd til að misheppnast.

Jólakvíði

Hinn margumræddi jólakvíði er ekki til kominn vegna þess að við óttumst óraunhæfar kröfur um að allt eigi að vera fínt og flott á yfirborðinu. Heldur er það miklu frekar á aðventunni sem á öðrum tímum ársins að okkur finnst erfitt að horfast í augu við okkur sjálf. Með öðrum orðum – innri tiltekt á sér ekki stað, sem, ef einhverntíma ætti að gerast, þá á aðventunni.

Við hlöðum í kringum okkur hlutum sem minna okkur á hátíðina, helgina og friðinn. Á sama tíma hleypum við ekki að dýrmætum hlutum sem við eigum innra með okkur, en höfum gleymt. Allt okkar ytra brölt, allur okkar undirbúningur fyrir hátíð ljóssins mun ekki svara því. Því svarið er að finna í kyrrlátu hjarta hvers og eins. Aðeins að við öðlumst kjark til að kannast við það og leita eftir því af sönnum huga. Eða eins og ágætur kollegi minn komst að orði: „Það er von mín og trú að Guð er með aðferðir og leiðir til að fylla okkur jólagleði hvernig sem jólin koma til okkar. Við höfum ekki skilning á því. “

Ekki frekar en á þeim atburði er breytti heiminum fyrir 2000 árum. Kyrrstöðumynd jólaguðspjallsins talar til okkar og minnir okkur á þrá mannsins að öðlast frið í huga. Gleðileg jól.

Þessi grein birtist upphaflega á vefnum Doktor.is

Screen Shot 2014-11-26 at 18.53.23

SHARE