Annie Lennox gefur út guðdómlegt „cover” af Georgia on My Mind

Annie Lennox hefur snúið aftur og sýnir engin ellimerki þrátt fyrir árin sem hafa farið einstaklega mjúkum höndum um þessa glæstu söngkonu, sem gerði garðinn frægan hér um árið með tvíeykinu Eurythmics.

Brátt kemur út ný breiðskífa með Annie, sem að þessu sinni tekur þekktar gullballöður úr tónlistarsögunni og flytur á magnþrunginn máta, en Annie er fjórfaldur Grammy verðlaunahafi og öllum hnútum kunnug þegar að flutningi og framsetningu tónlistar kemur.

Breiðskífan mun bera nafnið Nostalgia og kemur út þann 21 október, en hér að neðan má sjá seiðandi flutning Annie á ljúfa laginu Georgia on My Mind sem samið var árið 1930 af þeim Hoagy Carmichael og Stuart Gorell. Lagið náði þó nýjum hæðum árið 1960 þegar Ray Charles tók það upp á sína arma og flutti á breiðskífunni The Genius Hits the Road en melódían þykir mörgum ógleymanleg.

Í kynningarstiklu sem gerð var um breiðskífuna stiklar Annie á stóru um gerð Nostalgia: 

Sjálf segir Annie að laglínan minni á fagurt sumarsíðdegi í breiðustu merkingu þeirra orða og lét eftir sér hafa um melódíuna sem er ein af mörgum stórsmellum sem platan prýðir:

Mig grunar að allir geymi eins konar Georgia djúpt í fylgsnum hjarta og huga, hvort sem um er að ræða landfræðilega staðsetningu eða ljúfsára minningu um ástvin sem þeir sakna sárt og einlæglega.

Hér að neðan má sjá útfærslu Annie á Georgia on My Mind sem er yndisleg og fyllilega verð athygli, en á iTunes er einnig að finna stórsmellina I Put a Spell on You og Summertime í óaðfinnanlegum flutningi Annie.

 

Hér fara ballöðurnar þrjár sem útgefnar hafa verið og finna má á Nostalgia sem kemur út 20 október:

 

 

SHARE