Ástæðan fyrir því að hún fer í sömu fötunum í vinnuna á hverjum degi

Mathilda Kahl skrifaði á dögunum kraftmikla grein fyrir Harper’s Bazaar þar sem hún fjallaði um ástæðuna fyrir því að hún hefur klæðst því sama í vinnunni undanfarin þrjú ár. Mathilda er listrænn stjórnandi á auglýsingastofunni Saatchi & Saatchi í New York. Áður fyrr eyddi hún miklu púðri í að klæða sig upp fyrir vinnudaginn, en einn daginn fékk hún nóg og ákvað að breyta til.

„Á týpískum mánudegi fyrir þremur árum lenti ég í því sem margar konur kannast við. Ég átti bókaðan mikilvægan fund, og fór stefnulaust að máta föt. Sem listrænn stjórnandi einnar fremstu auglýsingastofu New York, er mér gefið fullkomið frelsi yfir því hverju ég klæðist í vinnunni, en þetta frelsi varð til þess að ég fór að efast um hverja flík og samsetningu þeirra. „Er þetta of formlegt?“, „er þetta of villt“, „er þessi kjóll of stuttur?“.“

Henni tókst loks að velja eitthvað sem hún sá eftir um leið og hún steig fæti út um dyrnar.

„Það róaði mig alls ekki að mæta í vinnuna og sjá karlkyns vinnufélaga mína eiga „strákamóment“ með nýja yfirmanninum á leið inn í fundarherbergið — herbergi sem ég átti reyndar að vera löngu mætt í. Ég stóð sem lömuð, ekki bara af því að ég var sein, heldur var ég líka óundirbúin. Og peysan mín sneri öfugt. Ég var búinn að byggja upp í mér stress að óþörfu. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem það gerðist, en ég ákvað þann dag að það skyldi vera það síðasta.“

Pirringurinn sem hún fann fyrir þegar ég gekk sein inn á fundinn sat í henni.

„Á þetta í alvörunni að vera svona erfitt? Ég vissi að það var tekið mark á karlkyns vinnufélögum mínum sama hverju þeir klæddust, og ég efaðist stórlega um að þeir leggðu jafn mikinn tíma og vinnu í klæðaburð sinn eins og ég. En hvað sem því leið varð ég að finna leið til að einfalda þessa morgunrútínu.“

Fljótlega varð henni ljóst að lausnin við öllum hennar vandamálum fælist í 15 hvítum silkiskyrtum og nokkrum svörtum buxum.

„Vegna þess að móðir mín elskaði að setja í mig litlar slaufur þegar ég var krakki ákvað ég að bæta við lítilli svartri slaufu um hálsinn, til að setja smá svip á heildarmyndina. Komið. Þegar það er kalt úti bæti ég svo við svörtum blazer jakka. Ég keypti þetta allt á einum degi. Það kostaði sannarlega sitt en til lengri tíma litið sparar þetta mér meiri pening en ég get gert mér grein fyrir.“

Hún uppskar allskyns viðbrögð við þessu uppátæki, þó að hugmyndafræðin á bakvið það væri vissulega ekki ný af nálinni.

„Stór hópur mannkyns hefur sem notast við þessa hugmynd á hverjum degi í vinnunni um árabil. Þeir kalla það jakkaföt. Hjá karlmönnum er það mjög algengt, jafnvel algilt, að klæðast sama konseptinu til vinnu á hverjum degi í flestum atvinnugreinum. Samt sem áður uppskar ég mjög blendin viðbrögð við því að yfirfæra þessa hugmyndafræði yfir á sjálfa mig. Fólk byrjaði strax að spyrja mig spurninga um ástæður mínar fyrir þessu uppátæki. “Af hverju ertu að þessu? Er þetta einhverskonar veðmál?“

Aðrir vinnufélagar gengu jafnvel svo langt að spyrja Mathildu hvort hún væri meðlimur í einhverskonar sértrúarsöfnuði. Þessum athugasemdum linnti þó fljótt þegar greinin „“Why Successful Men Wear the Same Thing Every Day“ birtist á vefritinu Mashable. Hún kom út næstum tveimur árum eftir að Mathilda fór að klæðast einkennisbúningnum sínum. „Ég fann fyrir ákveðnum létti. Búningurinn minn var ekki sveipaður dulúð lengur.“

Algengasta spurningin sem hún fær á eftir „af hverju?“ – er hvort hún verði ekki leið á þessu til lengdar.

„Þessi spurning á rétt á sér og sérstaklega þar sem óformlegur klæðnaður er algengur í minni starfsstétt. Okkur er gefið tækifæri til að tjá persónuleika okkar í klæðaburði, og til að leyfa sköpunargáfu okkar að skína í gegn. Eins og allt þetta væri ekki nóg, þá getum við bætt við hinni miklu pressu um lýtalaust útlit sem sett er á konur. Hið óklífanlega fjall óuppfyllanlegra væntinga sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekki að undra að mörgum finnist sem heimurinn eigi sig, en ekki öfugt eins og það ætti að vera.“

Hún segir að tilhugsunin um að taka stjórnina og gera bara það sem maður vill getur verið yfirþyrmandi, en jafnvel hinar smæstu breytingar geti gert gæfumuninn.

„Þessi einfalda hugmynd mín hefur sparað mér ótal klukkustundir sem hefðu farið í að hugsa um hvað í fjandanum ég ætti að fara í þann daginn. Í dag eru hvíta skyrtan og svörtu buxurnar áminning um það að það er ég sem er við stjórnvölinn. Í dag líður mér ekki aðeins frábærlega með fötin sem ég klæðist í vinnunni, ég þarf ekki einu sinni að hugsa um þau.“

Sjá einnig: Tíska: Samstæð dress

SHARE