Ástæður til þess að bæta mataræðið

Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að vilja taka til í mataræðinu og taka á heilsunni. Góð næring þýðir ekki að þú þurfir að neita þér um neitt; mikilvægara er að halda góðri heilsu. Flest okkar þyldu breytingar á þessum þáttum. Hér eru nokkrar góðar ástæður fyrir að taka sig taki:

 

  • Heilsan til langtíma litið batnar. Af hverju að bíða þangað til heilsufarsbrestir koma í ljós? Við erum það sem við borðum, þannig að slæmir matarsiðir skila sér bara í slæmri heilsu, lítilli orku og þreyttri húð. Taktu lítil skref í átt að bættri heilsu til langframa.
  • Ef mataræðið samanstendur helst af sykri og ruslfæði, er hætt við að orkan sé í lágmarki. Vel samsettar máltíðir og hollt snarl heldur þér gangandi lengur og þú þarft ekki að teygja þig í smákökurnar. Passaðu að innbyrða helstu næringarþætti og reyndu að halda fæðunni „hreinni“ – eins lítið unninni og hægt er.
  • Áður en stofnað er til fjölskyldu er mikilvægt að konur undirbúi sig vel. Meðganga er þrautinni þyngri og betra að vera með líkama sem er í stakk búinn til að næra bæði sjálfan sig og barnið. Vertu viss um að fá öll næringarefni og um leið geturðu verið að auka líkurnar á getnaði.
  • Ef þú ert of þung/þungur vegna lélegs mataræðis er nauðsynlegt að taka á því. Skoðaðu vel hvað þú ert að innbyrða og hvað má betur fara. Treystirðu á tilbúinn mat af því þú ert of upptekin/n í annað? Taktu þér tíma um helgar, eldaðu í stórum skömmtum og frystu í hæfilegu magni til að eiga í vikunni.
  • Það getur verið gott (og stundum nauðsynlegt!) að fara í allsherjar yfirferð hjá lækni. Láta mæla blóðþrýsting, blóðsykur, blóðfitu (kólesteról), vítamíngildin og fleira. Fá stöðuna svart á hvítu – svona eins og þegar maður fer með bílinn í skoðun!
  • Lélegt mataræði skilar sér í slæmri húð. Það vill oft gleymast að húðin er stærsta líffærið og hún sýnir ástandið vel. Drekktu nóg af vatni – það er lífsins elexír! Hreinsar, skolar, verndar, heldur líkamanum rökum og einfaldlega heldur lífinu  í okkur. Tillaga að áramótaheiti: að drekka meira vatn.
  • Slæmir matarsiðir munu hafa verri áhrif á þig eftir því sem þú eldist. Bara á milli tvítugs og þrítugs hægist töluvert á efnaskiptunum og því er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því strax. Ekki ætla að taka á málunum „seinna“ – það er alltaf gott að vinna sér í haginn því maður býr að góðri heilsu alla tíð.
SHARE