Baguettes – Uppskrift

Þessi dásamlega uppskrift kemur frá Ragnheiði sem er með Matarlyst á Facebook.

Þetta er afar gott brauð ásamt því að auðvelt er að útbúa það en gefa þarf sér þó tíma í undirbúning.

Hráefni

500 g hveiti
1 tsk þurrger
1 tsk salt
½ tsk sykur
480 ml volgt vatn

Aðferð

Setjið þurrefnin saman í hrærivélaskálina blandið saman, bætið út í vatni hnoðið saman um u.þ.b 1-2 mín athugið að deigið er mjög blautt og klístrað.

Setjið sellófan yfir og látið deigið hefast í 3 klukkutíma við stofuhita.

Eftir þrjá tíma setjið þið vel af hveiti í bolla sáldrið helmingnum á borðið dreifið úr því hellið deiginu yfir vinnið hveitið upp í deigið með því að velta því upp bætið við hveiti eftir þörfum, deigið á að vera frekar blautt heldur en þurrt, notið eins mikið hveiti og ykkur þykir þurfa, skiptið deiginu í tvennt.

Veltið deiginu í átt að miðju og togið út þannig að stærðin á því sé rétt minni á lengd en bökunnarpappír eða ofnplatan, leggið deigið á bökunnarpappír.

Endurtakið með hitt brauðið.

Látið hefast á borðinu í 25 mín

… Kveikið strax á ofninum í 180 gráður og blástur og setjið vatn í eldfast form, setjið það í botninn á ofninum.

Brauðin toppaði ég með fetaosti og beiglukryddi en fyrst penslaði ég það með eggi sló því saman og penslið yfir miðjuna á deiginu

Fetaostur stappið saman ⅓ krukku af fetaost ásamt smá af olíunni bætið út í 1 tsk af pizzakryddi blandið saman. Penslið brauðið með pískuðu eggi, setjið fetaostinn yfir, skerið svo rákir í brauðdeigið.

Beiglukrydd

Byrjið á því að pensla brauðdeigið með eggi, setjið kryddið ofaná skerið svo rákir í brauðið með hníf.

Athugið að ekki þarf að setja neitt ofaná, ef það er valið þá skerið þið einungis rákir í brauðdeigið með beittum hníf.

…Setjið brauðin inn í heitan ofninn bakið í 25 mín, eftir þann tíma takið þið eldfasta formið með vatninu út úr ofninum, bakið brauðin áfram í 10 mín. Þetta er gert til að fá crispy skorpu.

Gott er að láta brauðin kólna í ca í 30 mín áður en þið gæðið ykkur á þeim.

SHARE