Baka með spínati og parmaskinku – Uppskrift frá Lólý.is

baka með spínati

Þessi baka er svona akkúrat eitthvað sem maður þarf á að halda eftir jólahátíðina. Það er nánast hægt að setja hvað sem er í hana sem maður á inn í ísskáp, bara láta hugmyndaflugið ráða. Það er svo mikið af afgöngum í ísskápnum eftir jólin og ég átti td algjörlega yfirdrifið nóg af ostum og öðru góðgæti. Ég notaði tilbúið bökudeig í þessa böku en þið getið auðvitað líka gert ykkar eigið deig.

1 tilbúið bökudeig
100 gr frosið eða ferskt spínat
1 rauðlaukur
nokkrar sneiðar parmaskinka
1 ferskur mozzarella skorinn í sneiðar
1 dós sýrður rjómi
2 egg
1/2 dl rjómi
150 gr af osti(bara það sem til er í ísskápnum)
5 litlir tómatar eða 2 stórir
2 tsk kapers
basilika og oregano
rifinn parmesan ofan á bökuna

Forhitið ofninn ií 180°C.
Steikið rauðlaukinn og spínatið á pönnu þangaði til að það verður mjúkt og kryddið með salti, pipar og smá múskati.
Blandið saman sýrðum rjóma, eggjum og rjóma og kryddið með salti og pipar og smá chillidufti. Setjið tilbúna deigið í kringlótt form og setjið bökunarpappír ofan og og hellið annað hvort hrísgrjónum eða bökukúlum ofan á og bakið deigið í ofninum í 10 mínútur, takið þá út og takið bökunarpappírinn ofan af. Þá er best að setja í botninn spínat- lauk blönduna, svo mozzarellaostinn, skinkuna, tómatana og hellið svo eggjablöndunni yfir. Dreifið kapers yfir kryddið með óreganó og basiliku og dreifið parmesan osti yfir.
Hækkið ofninn í 200°C og bakið bökuna í 35-40 mínútur.

Um Lólý:
Ég heiti Ólína S. Þorvaldsdóttir en er alltaf kölluð Lólý af öllum sem ég þekki.
Ég er  Hafnfirðingur eða Gaflari enda aldrei búið annars staðar en í Hafnarfirði fyrir utan smá tíma í Danmörku á unglingsárunum. Ég er með BSc í alþjóða markaðsfræði en hef nú unnið við ýmislegt í gegnum árin, enda lærir maður alltaf eitthvað nýtt á hverjum stað og kynnist nýju fólki.
Mér líður langbest í eldhúsinu og er mikill matgæðingur og ef ég hef ekkert fyrir stafni fer ég í eldhúsið og prófa eitthvað nýtt og gómsætt. Ég les mikið af matreiðslubókum og blöðum og er dugleg við að búa til nýjar uppskriftir og prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt í eldhúsinu. Fjölskyldan og vinirnir eru helstu tilraunadýrin hjá mér, en þau segjast öll hafa matarást á mér og segja aldrei nei þegar ég býð þeim að koma til mín í mat til að smakka á einhverju nýju og spennandi.
Mér finnst alltaf gaman að gleðja fólk með góðum mat og ekkert gleður mig meira en að fá fjölskyldu og vini í mat og sjá bros á vör eftir hjá þeim eftir hvern munnbita.
Ef þið viljið hafa samband við mig – spyrja mig út í eitthvað eða koma einhverju skemmtilegu á framfæri, hafið þá endilega samband við mig á loly@loly.is  Hér finnur þú heimasíðu Loly.is

SHARE