Bakaðir kleinuhringir

Þessi uppskrift kemur frá snillingunum Eldhússystrum. 

Ég bakaði þessa kleinuhringi fyrir 5 ára afmæli dóttur minnar í maí. Ég fattaði það hins vegar þegar veislan var að verða búin að ég tók nánast engar myndir af þeim. Þeir runnu út eins og heitar lummur og ég sá strax að ég var komin með klassíker í hendurnar. Þegar elsta dóttir mín varð 11 ára núna í júlí þá voru þeir ofarlega á veitinga óskalistanum. Þetta verður líklega í öllum barnaafmælum hjá mér hér eftir. Mér var meira að segja sagt frá því að einn 5 ára gesturinn hefði sagt mömmu sinni að hann vonaði að það yrði svona kleinuhringir í afmælinu núna í júlí eins og voru í maíafmælinu <3. Er hægt að biðja um eitthvað meira en svona hrós ?

Bakaðir kleinuhringir

1 bolli hveiti
1/2 bolli sykur
1.5 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
1/8 múskat
kanill á hnífsoddi

1/2 bolli haframjólk (eða venjuleg mjólk)
1/2 tsk epla edik
1/2 tsk vanilludropar eða 1/4 tsk vanillu fræ
Egg replacer fyrir 1 egg EÐA  2 msk epplamús
1/4 bolli smjörlíki/smjör/vegan smjör

Kveikið á ofninum og stillið á 180°c

Setjið þurrefnin saman í skál og hrærið þeim saman, leggið til hliðar. Blandið saman mjólkinni, edikinu, vanilludropunum, egg replacer og smjörlíkið í pott. Hitið á miðlungs hita og hrærið saman þar til smjörlíkið er bráðnað. Vökvinn á að vera volgur en ekki heitur.
Blandið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið þar til degið er alveg laust við kekki.

Setjið degið í sprautupoka og sprautið því í smurt kleinuhringjaform.

Bakið í 12-15 min, fer svolítið eftir ofnum. Kleinuhringirnir eiga að verða létt gylltir að ofan. Stingið prjón eða tannstöngli til að athuga hvort þeir séu tilbúnir. Ef þeir eru bakaðir of lengi þá verða þeir harðir og þurrir.
Losið kleinuhringina með því að snúa forminu við og slá öðrum endanum létt á bretti, sumir kleinuhringir þurfa kannski smá hjálp. Passið ykkur bara að nota ekki beitta hluti sem rispa formið.

Látið kleinuhringina kólna alveg áður en glassúr er settur á þá.

Glassúrinn er hitaður og kleinuhringjum dýft í hann.  Tilgangurinn með að hita hann er að þá rennur hann betur af og verður ekki of þykkur. Hann er fljótur að harðna og ef þú ætlar að  setja skraut þá verður að gera það strax. Ég hrærði upp í glassúrnum á milli kleinuhringja þar sem þar kom hörð himna á glassúrinn í skálinni og ég vildi hafa glassúrinn alveg sléttan á kleinhringjunum.

Ég notaði vanillufræ í glassúrinn í seinna skiptið sem ég gerði kleinuhringina og það kemur skemmtilega út að sjá vanillufræinn.

Vanilluglassúr með skrauti

30 ml haframjólk (eða venjuleg mjólk)
120 gr flórsykur
1/2 tsk vanillufræ eða 1 tsk. vanilluextract eða vanilludropar
kökuskraut

Hitið saman mjólkina, sykurinn og vanilluna á lágum hita. Hrærið saman með písk þar til glassúrinn er kekkjalaus. Takið af hitanum og byrjið að dýfa kleinuhringjum í glassúrinn. Raðið kleinuhringjunum á bökunnarpappír og stráið skrautinu yfir strax. Látið glassúrinn harðna alveg.

SHARE