Barði í Bang Gang og JB Dunckel úr hljómsveitinni Air skipa hljómsveitina Starwalker

Starwalker er ný hljómsveit sem er skipuð þeim Barða Jóhannssyni (Bang Gang & Lady & Bird) og JB Dunckel (Air, Tomorrows World). Þeir hafa verið að vinna saman tónlist og von er á fyrstu smáskífunni frá þeim í september. Þessir flottu listamenn hafa nú búið til myndband við fyrsta lagið og þeir leyfðu okkur að birta smá brot af myndbandinu og laginu, Bad weather, á Hún.is.

[youtube width=”600″ height=”325″ video_id=”6zzPNPaqsyA”]

Barði Bang Gang

Barði Jóhannsson (Barði Bang Gang) er íslendingum góðkunnur en hann er forsprakki hljómsveitarinnar Bang Gang sem gaf út sína fyrstu plötu árið 2000. Barði er einstaklega hæfileikaríkur listamaður en hann gerði samning við EMI Publishing France árið 2002 og gaf út plötuna Something Wrong í Japan, Suður-Kóreu og Ástralíu. Hljómsveitin hefur komið fram á fjöldanum öllum af tónleikum út um allan heim. Auk þess að semja og flytja tónlist hefur Barði unnið að sjónvarps og stuttmyndagerð, fatahönnun og útvarpsþáttum. Hann hefur samið tónlist fyrir þætti og kvikmyndir eins og Reykjavík Rotterdam, Silfur Egils, Heimsendi, þættina Réttur og Pressa.


Barði hefur unnið með listamönnum eins og Lady & Bird, Bubba, Ólafi Arnalds, Ourlives og fjölmörgum erlendum listamönnum. Nýjasta verkefni Barða var að semja tónlist við myndina Would You Rather sem fór á topp 5 á Itunes í Bandaríkjunum yfir vinsælustu hryllingsmyndir, vikuna sem hún kom út.

 JB Dunckel úr hljómsveitinni Air

Jean-Benoît Dunckel eða JB Dunckel eins og hann kýs að kalla sig er þekktastur fyrir það að vera annar helmingur frönsku hljómsveitarinnar AIR. Hann lærði Arkitektúr áður en hann hellti sér út í tónlist með hljómsveitinni Orange og loks AIR.

Hljómsveitin Air gaf út plötuna Moon Safari árið 1998  sem er svo sannarlega algjört meistaraverk. Platan sló í gegn um allan heim en margir kannast við lögin All I need, Sexy Boy og Kelly Watch the Stars. Platan er talin ein af bestu elektrónísku plötum fyrr og síðar. Hljómsveitin Air spilaði í Laugardalshöll árið 2007 og árið 2000 sömdu þeir tónlist fyrir kvikmynd Sofiu Coppola – Virgin Suicides.  Í kjölfarið fylgdu 5 aðrar breiðskífur sem hafa selst til samans í milljónum eintaka. JB Dunckel hefur einnig gefið út eina frábæra solo plötu undir nafninu Darkel.

Verkefninu hefur fylgt mikil dulúð

Hljómsveitin hefur ekki tjáð sig mikið um verkefnið en opinber kynning á verkefninu er ekki hafin. Þeir hafa þó aðeins leyft okkur að heyra af þessu spennandi verkefni og von er á fyrstu smáskífu frá þessum snillingum í september. Barði segist vera afar ánægður með efnið sem þeir hafa unnið saman og við hjá Hún.is bíðum spenntar eftir því að fá að heyra meira frá þessum hæfileikaríku listamönnum!

Hér getur þú nálgast Facebook síðu hljómsveitarinnar.

SHARE