Barnavörubasar Lífs haldinn í annað sinn um helgina

Líf styrktarfélag stendur annað árið í röð fyrir basar í fjáröflunarskyni. Nú ætlar félagið að gefa öllum barnavörum nýtt líf en í fyrra var eingöngu tekið á móti leikföngum.

Mótttaka á barnavörum verður laugardaginn 23. nóvember milli kl 11 og 15 að Skeifunni 19, við hliðina á Hreysti, barnavörubasarinn verður svo á sunnudeginum 24. nóvember frá kl 11 til 14 á sama stað.

Tekið verður á móti barnaleikföngum, barnafötum, spilum, bókum, húsgögnum og öllu öðru barnatengdu.

523103_445355068849966_990606507_n

Barnavörubasarinn er opinn öllum og hvetur Líf þá sem hafa hug á að gera góð kaup en í leiðinni styrkja gott málefni að kíkja við á markaðnum á sunnudaginn.

„Við héldum sambærilegan basar í fyrra en tókum þá aðeins á móti barnaleikföngum. Vegna fjölda áskorana ákváðum við að taka einnig á móti öðrum barnavörum svo sem fatnaði, húsgögnum og fleiru. Í fyrra seldum við megnið af vörunum á rúmri klukkustund og biðlum því til fólks með fullar geymslur af barnavörum að hugsa til okkar á laugardaginn,“ segir Þórunn Hilda Jónasdóttir, framkvæmdastýra Lífs. „Við hvetjum auðvitað alla til að kíkja til okkar á sjálfan basarinn á sunnudaginn og hver veit nema fólk geri reifara kaup.“

 

Megintilgangur Lífs styrktarfélags er að styrkja Kvennadeild Landspítalans. Helstu verkefni eru að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og meðan á sængurlegu stendur sem og þeirra kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Nánari upplýsingar um Líf má finna á heimasíðu félagsins á www.gefdulif.is.

Líf styrktarfélag stóð fyrir landssöfnun árið 2011 sem gaf félaginu gott veganesti. Fyrir upphæðina sem safnaðist þá voru gerðar endurbætur á sængurkvennagangi. Nú liggja fyrir endurbætur á kvenlækningadeild og hefur Líf aflað fjármagns til þess verkefnis með dótabasar, Lífstölti og göngu Vilborgar Örnu Gissurardóttur á Suðurpólinn.

SHARE