,,Barnið mitt var níu ára þá kom ég að honum með hníf þar sem hann ætlaði að drepa sig því hann vildi ekki lifa lengur.”

Við sáum átakanlega sögu móður um barnið sitt sem vildi taka eigið líf.
Sagan er ekki birt undir nafni en er tekin af Foreldrahandbókinni en síðu þeirra má finna hér.

Að byrja í skóla er eitt stærsta skrefið sem börn taka. Að yfirgefa öryggi leikskólans og eiga allt í einu að bera ábyrgð á sér sjálf (upp að vissu marki). Elsta barnið mitt tók sín fyrstu skref í litlum skóla á höfuðborgarsvæðinu.
Ég var búin að reikna það út að líkurnar á einelti væru minni í þessum litla skóla heldur enn í risastóra skólanum sem var nánast við hliðina.

Ég var í yngri kantinum þegar ég átti hann og var alltaf yngst á öllum foreldrafundum.

Því miður fylgir engin handbók með skólabarninu. Það er enginn sem segir manni hvað maður á að gera þegar eitthvað kemur fyrir, það er enginn sem segir manni að kennarinn sé stundum bara illa að sér þegar kemur að foreldrasamskiptum. Það er enginn sem segir manni að í sumum skólum þá sé flotta eineltisáætlunin jafn mikils virði og klósettpappírinn sem krakkarnir skeina sér með.

Það er engin sem segir manni að skólinn hringir ekki alltaf í foreldra hinna barnanna.

Litla fallega barnið mitt fór að sýna hegðun sem hafði ekki verið til hjá honum áður. Hann vildi helst ekkert fara og mátti varla af mér sjá. Grátköstin á morgnanna og síðan önnur eins bylgja þegar heim var komið. Á þeim punkti þá var ég orðin hrædd og mikið búin að reyna að fá hann til að tala við mig.

Í hvert sinn sem eitthvað kom upp úr honum þá sendi ég email á kennarann hans sem sagðist aldrei sjá neitt og vissi bara ekki til þess að neitt væri að.

Þegar litla yndislega barnið mitt var níu ára þá kom ég að honum með hníf þar sem hann ætlaði að drepa sig því hann vildi ekki lifa lengur. Drengurinn var sendur til sálfræðings næsta dag og þessi sálfræðingur bjargaði barninu mínu.

Barnið fór að tala við mig um hvað væri að og þá kom í ljós að hann var kominn alveg út í horn í skólanum. Bekkjarfélagar komu illa fram við hann, eldri drengir gengu í skrokk á honum og föt frá honum höfðu verið klósettþvegin.

Ég hafði samband við alla sem maður á að hafa samband við; skólann, foreldra annarra barna, hverfisstöðina og svo miklu fleiri aðila.

Því miður þá kom það ansi oft fyrir að foreldrar annarra barna sögðu mér að barnið sitt gerði ekki svona og enduðu svo símtalið. Það er rosalega erfitt að hringja í foreldri barns sem er að leggja barnið þitt í einelti en ennþá erfiðara þegar foreldrar barnsins vilja ekki einu sinni ræða þetta.

Andleg líðan elsta barnsins míns var orðin svo slæm að hún smitaði út frá sér í allar áttir. Samband okkar foreldranna var orðið mjög stirt og hinum börnunum fannst þau vera útundan.

Í kjölfarið fórum við öll saman í fjölskylduráðgjöf og elsta barnið gekk til sálfræðings.

Við tókum drenginn úr þessum skóla og hann fékk að byrja nýtt líf í öðrum skóla. Í dag á ég barn sem réttir úr sér og er stoltur af sér.

Ein af bestu ákvörðunum sem ég hef tekið í þessu lífi var þegar við skiptum um skóla…

Að gefnu tilefni vill höfundur ekki koma fram undir nafni. Myndin er blogginu óviðkomandi.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here