Barnið og sýklalyf

Sýkingar eru einn algengasti heilsufarsvandi barna og flestir foreldrar kannast við að vera með barn sem er með kvef- eða magapest. Flestar sýkingar eru af völdum tveggja aðalflokka sýkla – baktería eða veira. Veirur valda langflestum hóstapestum, hálsbólgu og öllum kvefpestum. Bakteríusýkingar er hægt að lækna með sýkalyfjum en veirusýkingar í öndunarvegi ekki. Þær batna hins vegar oftast af sjálfu sér þegar sjúkdómurinn hefur runnið sitt skeið. Algengasta ástæða sýklalyfjaávísana hjá börnum eru miðeyrnabólgur en þær eru algengar.

Sjá einnig: Barnið mitt fékk krabbamein

Sífellt fleiri stofnar baktería eru að verða ónæmir fyrir sýklalyfjum. Ónæmar bakteríur er oft ekki hægt að drepa með hefðbundnum sýkalyfjum. Flestar þeirra er unnt að meðhöndla með kröftugum lyfjum en fátítt er að ekki sé unnt að meðhöndla með neinum þekktum sýklalyfjum. Sýnt hefur verið fram á tengsl sýklalyfjaónæmis og endurtekinnar notkunar sýklalyfja og geta þessar ónæmu bakteríur breiðst til annarra í fjölskyldu, milli barna á leikskólum og um samfélagið. Þetta er óheillaþróun og getur verið ógn við heilbrigði þjóða.

Hvenær er sýklayfja þörf og hvenær ekki?

Eftir að læknir hefur skoðað og/eða rannsakað barnið metur hann hvort þörf sé á gjöf sýklalyfja. Foreldrar eru hvattir til að spyrja lækninn spurninga um veikindi barnsins og hversu mikil þörf sé á sýklalyfjagjöf.

Sjá einnig: Hvar eru mestu sýklarnir á heimilinu þínu?

Hér eru nokkur dæmi um sýkingar og meðferð:

  • Eyrnabólga – Til eru mörg stig eyrnabólgu og sum þarfnast sýklameðferðar en önnur ekki. Við væg einkennni getur verið skynsamlegt að bíða með sýklalyf enda getur sjúkdómurinn horfið sjálfkrafa á nokkrum dögum.
  • Kinnholubólga – Kinnholubólga lagast oft af sjálfu sér og því oft ekki þörf á sýklalyfjameðferð. Einstöku sinnum getur þó þurft að gefa sýklalyf, einkum ef sjúkdómurinn hefur staðið lengi eða er samfara miklum veikindum.
  • Hósti og bráð berkjubólga (bronkítis) – Einkenni um bráða berkjubólgu hjá börnum benda oft til astma og er þá ekki ástæða til sýkalyfjameðferðar. Annars er bráð berkjubólga nánast alltaf af völdum veira og því sjaldnast ástæða til sýklalyfjameðferðar.
  • Hálsbólga – Flest tilvik hálsbólgu eru af völdum veira. Ein tegund baktería, streptókokkar af gerð A, getur valdið hálsbólgu og hana þarf oft að meðhöndla með sýkalyfjum. Til að greina bakteríuhálsbólgu frá veiruhálsbólgu þarf að taka sýni frá hálsinum.
  • Kvef – Kvef er alltaf af völdum veira og getur stundum varað í 2 vikur eða lengur. Sýklalyf eru gagnslaus við kvefi en læknir eða hjúkrunarfræðingur getur bent á ýmsar meðferðir til að slá á einkennin þar til sjúkdómurinn hefur runnið sitt skeið.

Veirusýkingar geta einstöku sinnum leitt til bakteríusýkinga. Hins vegar er ljóst að meðferð veirusýkinga með sýklalyfjum til að koma í veg fyrir bakteríusýkingu hefur takmarkað gildi og getur leitt til sýkinga með ónæmum bakteríum. Látið lækninn vita ef sjúkdómur versnar eða varir lengi þannig að unnt sé að hefja rétta meðferð ef þörf krefur.

Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur, Þórólfur Guðnason barnalæknir

Frá landlæknisembættinu

 

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

SHARE