Berta skreppur í H&M ef hún fær heimþrá í Danmörku

Berta Þórhalladóttir er búsett í Danmörku ásamt unnusta sínum Hannesi Rúnari Herbertssyni og þriggja ára syni þeirra. Þau fluttu af landi brott árið 2012 þar sem Hannes er í framhaldsnámi í verkfræði við Technical University of Denmark.

Margir Íslendingar hafa verið að flytja frá Íslandi síðastliðin ár, eða allt frá því að kreppan skall á árið 2009. Okkur á Hún.is langaði að forvitnast hvernig lífið er hjá íslenskri fjölskyldu sem býr erlendis og hvort þau sakni ekki örugglega skersins góða.

7

Danirnir „introvertir“

Samkvæmt Bertu geta Danirnir verið svolítið lokaðir og hefur hún mest verið að kynnast Íslendingum úti.

„Danir eru mjög introvertir ef þú skilur hvað ég á við, en ég hef kannski ekki umgengst Dani nógu mikið enn sem komið er. En ég þekki nokkra og nágrannar mínir eru mjög viðkunnalegir. Ég spjalla alltaf reglulega við þá og líka konurnar í ræktinni og svo auðvitað bekkjafélaga Hannesar. En þeir eru kannski ekki beint að bjóða manni í kaffi að tilefnislausu.“

 

Íslendingar áhættusæknari

En hver ætli sé helsti munurinn á Danmörku og Íslandi að mati Bertu?

„Það er kannski ekki mikill menningarmunur þar sem við erum mjög svipuð varðandi hefðir og annað. Mesti munurinn er kannski að við Íslendingar erum mjög áhættusæknir. Við erum ekki að hugsa mikið um hlutina heldur gerum þá bara, „þetta reddast bara“ viðhorf er ekki til hér.

Hér snýst allt um skipulag, þú þarft að hringja og boða heimsókn þína áður en þú mætir og helst nokkrum dögum áður. Margt getur líka tekið mjög langan tíma sem getur verið erfitt fyrir Íslendinginn sem ætlast til að hlutirnir gerðust helst í gær.  Takturinn hér er líka aðeins annar, það hægara andrúmsloft og maður nýtur „mómentsins“ betur.“

Screen Shot 2014-12-23 at 13.45.28

Rekst alltaf á Íslendinga í H&M

Berta segir að Íslendingarnir leynist víða í stórborginni og að hún þurfi bara rétt að skella sér í H&M til að rekast á einhvern að heiman.

„Það eru Íslendingar alls staðar í Danmörku. Ef þú færð heimþrá þá getur verið gott að koma við í H&M þá hittir þú alltaf einhvern sem talar íslensku. Svo geturðu farið í Irma og fengið þér íslenskt nammi og vatn á okurverði en hey ef þú ert með heimþrá getur það borgað sig,“ segir Berta í léttum dúr.

 

Gott íslenskt félagslíf í Kaupmannahöfn

„Hér er mjög virkt Íslendingafélag sem heldur jólamarkað, jólaball, jólabingó og þorrablót og uppákomur um páskana líka. Ég held að þetta sé gert á mörgum stöðum í Danmörku eins og Álaborg, Sondeborg, Odsene og Árhus. Það er líka virkni fyrir nýbakaðar mæður, það eru hittingar í Jónshúsi.

Svo er ég í íþróttafélaginu Steingrímur og við hittumst og spriklum einu sinni í viku, sem er mjög skemmtilegt. Við ætlum líka að halda flott Julefrokost núna í desember,“ segir Berta sem bendir á að grúppan Íslendingar í Kaupmannahöfn á Facebook sé einnig mjög virk og gagnleg. „Þar eru landar mínir mjög hjálplegir. Hægt er að henda inn allskyns spurningum og Íslendingar eru ávallt reiðubúnir að svara og aðstoða landa sinn. Svo er íslenska sendiráðið mjög hjálplegt líka.“

 

Lyftingar og heilbrigður lífstíll

Berta segist hafa fengið áhuga á því að blogga í fæðingarorlofinu og hefur ásamt vinkonu sinni verið að skrifa annað slagið um lífið og tilveruna í Danmörku á blogginu 2icelanders.com.

„Ég og Elka vinkona mín fengum hugmynd í janúar á þessu ári og fórum þá að hugsa hvernig við gætum útfært þetta. Í sumar hentum við okkur svo í djúpu laugina og byrjuðum að blogga og hafa gaman af lífinu. Við erum með sameiginleg áhugamál á lyftingum og heilbrigðum lífstíl,“ segir Berta.

 

Afslappað og barnvænt

Á blogginu deila þær Berta og Elka bæði hugleiðingum sínum, gómsætum uppskriftum og öðru en þær segjast alltaf hafa nóg fyrir stafni í menningunni í Kaupmannahöfn, enda fjölmargt hægt að gera.

moka„Það er mikið af afþreyfingu fyrir barnafjölskyldur. Fullt af söfnum, leikvöllum og allskyns uppákomum sem er ókeypis að fara inn á. Danir eru mjög fjölskylduvænir og helgarnar þeirra fara í að eyða tíma með börnunum. Það er líka allt annar hraði hér, það er allt svo afslappað. Stundum einum of kannski fyrir Íslendinginn. En þetta er allt mjög huggulegt. Mér finnst líka mjög kostulegt að geta hjólað allt sem ég ætla mér og svo eru samgöngurnar æðislegar. Svo er stutt að fljúga á milli Íslands og Dk.“

 

Sonurinn lunkinn í dönskunni

Sonur Bertu og Hannesar er þriggja ára og er orðinn ansi sleipur í dönskunni að sögn Bertu en þau halda íslenskunni við.

Screen Shot 2014-12-23 at 13.48.08Þórhalli Leó talar bæði íslensku og Dönsku. Danskan er þó allsráðandi eins og er enda er hann í dönskum leiksskóla. En við pössum okkur á því að lesa fyrir hann íslenskar bækur á hverju kvöldi. Okkur finnst það mjög mikilvægt svo að hann haldi íslenskunni. Hann talar íslensku orðið með dönsku hreim,“ segir Berta og brosir.

Saknar íslenska vatnsins

Berta segist ætla að vera á Íslandi yfir hátíðirnar en hvað ætli sé það fyrsta sem hún gerir þegar hún kemur heim til Íslands?

„Klárlega að fara í HEITA og langa sturtu eða kannski bara bað!!! Og að fá mér ísskalt vatn!!! Eftir það er ég alveg til í að fara í sund og heitapottinn. Það er svo margt gott sem við eigum á Íslandi, þrátt fyrir allt…“

 

Getur hugsað sér að setjast að úti

Aðspurð segist Berta ekki útiloka það að búa áfram úti að námi loknu en maðurinn hennar mun útskrifast í mastersnáminu næsta vor.

„Já veistu við getum hugsað okkur að búa hérna áfram, okkur líður mjög vel hérna. Fólk er almennt mjög viðkunnanlegt og það er gott að vera hérna. En auðvitað saknar maður fjölskyldu og vina. Framtíðin verður bara að ráðast seinna,“ segir Berta í léttum dúr að lokum.

IMG_9033

Tengdar greinar:

Finnst gaman að vera á stórum bílum

Viðtal: Maðurinn á bakvið Made By Iceland

Maður segir nú ekki nei við meistara Bó er það?“

SHARE