Besta gjöfin er að gefa öðrum

Þegar ég lít til baka get ég ekki annað en glaðst við og þakkað pent fyrir mig. Ég hef haft það gott. Lengi vel bjó ég á heimili með móður minni, ömmu og langömmu. Við vorum fjórar kynslóðir kvenna undir einu þaki. Ég á tvö sett af dásamlegum foreldrum, hverju öðru ólíkara og með mismunandi áheyrslur en öll eiga þau mig sameiginlega. Ég á yndislegan mann sem ber mig á höndum sér og útbýr fyrir mig 25 gjafabréf á hina ýmsu hluti í tilefni afmælisdagsins míns. Hann leggur sig fram við að gleðja mig, færir mér blóm, skilur eftir miða hingað og þangað um íbúðina til þess að minna mig á hversu mikið hann elskar mig og hingað til hefur hann hvorki gleymt konu- né mæðradeginum.
Ég á dásamleg börn sem eru fullkomin í alla staði og heittelskuð af foreldrum sínum. Ég á gullfallegan engil á himnum sem svífur yfir mömmu og pabba og passar þau. Ég á dásamlegar vinkonur, æðislega vini og bestu tengdafjölskyldu sem hægt er að hugsa sér.

Ég er  heppin.

En þarna úti er lítil manneskja sem er ekki eins heppin. Þessi manneskja á ekki fjölskyldu. Býr jafnvel í stríðshrjáðu landi, fær ekki menntun og hefur ekki einu sinni aðgang að hreinu vatni. Hvað þá að manneskjan eigi fyrir fötum, námi né öðru sem okkur finnst sjálfsagt að allir eigi.
Það er á þessum árstíma sem mér verður virkilega hugsað til þeirra sem minna mega sín. Á þessum árstíma sem ég vildi óska að ég gæti gert eitthvað fyrir aðra og það get ég, þið meira að segja líka.

Allt sem við þurfum að gera er að muna eftir okkar minnsta bróður og gefa í söfnunarbaukana, styðja hjálparstarfið og setja jól í skókassa.

 

SHARE