Bestu ár lífs þíns? – „Menntaskólaárin mín voru hræðileg“

Daginn sem ég hætti í 10. Bekk þá kom til mín kona og sagði „nú tekur alvara lífsins við, menntaskóli, en þetta verða bestu ár lífs þíns“. Mikið sem ég vildi að þessi kona hafði haft rétt fyrir sér. Fyrir mér eru menntaskólaárin ekki bestu ár lífsins, þau voru vægast sagt hræðileg og sárin eru enn að gróa.

Flestir unglingar á þessum tímamótum eru  að kynnast lífinu og reyna að fóta sig í því, ég var engin undantekning. Ég fluttist milli bæjarfélaga sumarið eftir 10. Bekkinn, en foreldrar mínir gerðu þó hvað í þeirra valdi stóð að ég gæti stundað áhugamál mín í gamla bænum mínum, mér var skutlað á milli á æfingar og aðra afþreyingu, það entist út sumarið. Ég vann í nýja bæjarfélaginu og kynntist þar nokkrum krökkum en aldrei fann ég mig í þeim hópi. Þrátt fyrir alla þessa viðleitini foreldra minna þá var þetta mikið maus að koma öllum bílferðunum og þess háttar saman og mikill tímaþjófur svo ég flosnaði fljótt uppúr þeirri afþreyingu sem ég var í gamla bæjarfélaginu.

Þá byrjaði skólinn. Ég gleymi því aldrei að mér hefur aldrei fundist ég jafn mikið ein í gegnum lífið eins og í gegnum framhaldsskólan, þegar að ég gekk inní skólanb fyrsta daginn þá fann ég fyrir einsemdinni. Skólinn sem ég var í, er mjög stéttaskiptur skóli og frumskógarlögmálið ræður þar ríkjum. ég á frænda sem kynnti mig fyrir sínum vinum það hjálpaði aðeins, en sá hópur lenti fyrir aðkasti frá fólki sem var þeim „æðra“.

Þarna myndaðist vinahópur eða meira hópur. Hópur sem var í stöðugri valdabaráttu um sína stöðu innan hópsins, enginn var vinur eða óvinur, við vorum bara þarna. Einsemdin var að buga mig. Allir reyndu eftir sínu fremsta megni að komas hjá hverjum öðrum og við löbbuðum meðfram veggjum í skólanum, við reyndum að láta eins lítið á okkur bera en samt var tekið eftir okkur við skotin niður.

Unglingar verða skotnir, ég var bara svo óheppin að verða skotin í vitlausum dreng miðað við stöðu í samfélaginu sem ég bjó í þá og lenti ég í hærðilegu aðkasti vegna þessa og er það enn að rífa mig niður í dag, tíu árum seinna. Á þessum árum voru bloggsíður í algleymi og mikið af síðum þar sem að minn hópur var rakkaður niður, ég reyndi að berjast fyrir mér, sem breiddi þó meira úr sér og margir fleiri komust upp á móti mér. Ég varð aldrei fyrir líkamlegu ofbeldi en andlega eineltið er svo sárt og rosalega erfitt að vinna úr því. Þrátt fyrir að engin noti orð í dag þá eru augnaráð og pískur sem særir meira en orð fá lýst. Margir af þeim sem höfðu eitthvað til málanna að leggja á þessum árum hafa komið til mín og beðið mig fyrirgefninga og margir eru vinir mínir í dag á facebook til dæmis, en svo eru það aðrir sem stóðu mest fyrir eineltinu sem segja ekkert og mikið af þessu fólki uppnefnir mig enn í dag. Ég fór til dæmis á djammið í mínum gamla bæ fyrir stuttu og þar kom einn upp að mér og byrjaði að tala við mig á rólegu nótunum og endaði svo samtalið a því að uppnefna mig með því uppnefni sem sett var á mig í þá daga, ég varð verulega hneyksluð en ég sá að það blundaði fyrir stolti í augunum hans í bland við kvikindisaugnaráð, ég brotnaði niður, ég gekk út af staðnum grátandi, mér þótti svo sárt að mörgum árum síðar, að fullorðinn maður skuli hafa ákveðið að rífa upp gömul sár og notið þess. Sannfæringin mín sagði mér þó að þessi maður hefði ekkert þroskað síðan í framhaldsskóla og ég vona hans vegna að hann fari að þroskast og njóti þess að vera ekki lengur ungilinur og vera orðinn fullorðinn. Stundum þegar að ég sé ákveðna aðila þá fæ ég hnút í magan og tek stóran sveig, ég fæ enn tilfinninguna að þeir séu mér æðri og ég þurfi að bugta mig og beygja fyrir þeim og fæ þá tilfinningu að eitthvað slæmt eigi eftir að gerast ef að ég tek ekki þennan stóra sveig, þó svo að ég sé komin yfir hæðina og orðin allt önnur í dag.

Í dag er ég flutt í annað bæjarfélag og lifi hinu besta lífi, ég á æðislega vini sem koma frá sama bakrunni og ég, við höfum alltaf þurft að berjast fyrir okkar stöðu og skiljum hvort annað. Mig langar síst að öllu að eyða frítíma mínum í gamla bænum en ég fer þangað að skyldu til þess að eyða tíma með fjölskyldu minni. En ég reyni þó að berjast á móti og fer á viðburði sem ég hef áhuga á, án þess að láta þetta fólk hafa áhrif á mig. Ég tek þó alveg korter fyrir framan spegilinn áður en ég fer á þessa viðburði til þess að sannfæra mig um að fara og það verði allt í lagi.

Eineltið sem ég varð fyrir í framhaldskóla hefur bæði mótað mig á góðan og einnig slæman hátt. Ég er sterkari manneskja í dag en samt sem áður blundar verulega oft í mér kvíði sérstaklega fyrir uppákomum sem eiga sér stað í gamla bænum og ég kemst engan vegin hjá því að fara ekki.

SHARE