Blöðrubólga – Það sem virkaði fyrir mig

Fyrir nokkrum árum síðan byrjaði ég að lenda í veseni með blöðrubólgu. Þetta byrjaði allt þannig að ég fékk heldur slæma blöðrubólgu og fyrir þá sem þekkja til er það alveg skelfilega sárt. Ég sýndi þó engin einkenni um að hún væri komin upp í nýru og það hefur aldrei komið fyrir. Ég fór til læknis sem skrifaði strax upp á sýklalyf. Ég tók sýklalyfjaskammtinn minn samviskusamlega og varð skárri. Stuttu seinna fékk ég aftur blöðrubólgu og þá hófst hinn skelfilegi vítahringur. Ég fékk síendurteknar blöðrubólgur og alltaf skrifuðu læknar upp á sýklalyf. Því oftar sem ég tók sýklalyfin því oftar fékk ég blöðrubólgu. Ég var farin að taka sýklalyf tvisvar í mánuði svo það má segja að ég hafi nánast alltaf verið á sýklalyfjum með tilheyrandi aukaverkunum. Svona gekk þetta í nokkur ár, ég fór til sérfræðinga og þurfti iðulega að bíða í nokkra mánuði þar til ég komst að og þegar ég loksins komst að borgaði ég háar upphæðir fyrir nákvæmlega ekki neitt. Þeir skrifuðu upp á sýklalyf fyrir mig og sögðu að það væri nú lítið annað sem hægt væri að gera í þessum málum.

Fólk var duglegt að segja mér að drekka trönuberjasafa sem ég gerði. Ég tók bæði hylki og drakk trönuberjasafa með. En það þarf að athuga það að á meðan ég gerði það var ég enn á sýklalyfjum. Þar kom sögu að engin sýklalyf virkuðu á mig, ég var orðin ónæm fyrir þeim öllum. Ég fór á læknavaktina eitt skipti af mörgum, þá var ég búin að taka sýklalyf í einhvern tíma en var enn slæm. Læknirinn þar sagði mér nú að ég ætti bara að prófa ný lyf sem hann skrifaði uppá og taka eina pillu á hverjum degi, það myndi svínvirka! Það gekk svo sannarlega ekki eftir. Eftir að ónæmiskerfið mitt var komið í algjöran mínus og ég var alltaf veik  ákvað ég að nú þyrfti ég að gera eitthvað í málunum annað en að fara til læknis sem sagði mér aldrei neitt nema að taka sýklalyf. Ég veit ekki hversu miklum pening ég hef eytt í læknisheimsóknir og sýklalyf undanfarin ár en það hleypur líklega á nokkrum hundruðum þúsunda. Ég sá að eini sénsinn minn var að hafa opinn huga og prófa eitthvað annað en ég var vön. Ég las mér til og mér var til að byrja með bent á náttúrulyf sem heitir Váli og er úr jurt sem á að fyrirbyggja blöðrubólgu. Ég keypti mér hylkin og te sem ég tók inn samviskusamlega dag hvern. Það er svo sem ekkert auðvelt fyrir alla að taka inn stór hylki daglega með hræðilegu bragði en ég geri það vegna þess að það virkar.

Eftir nokkra daga fann ég að ég var að skána. Í fyrsta sinn í mörg ár var ég laus við blöðrubólgu. Ég náði að halda henni niðri í marga mánuði. Það kom fyrir að ég fann að einkenni voru að byrja og þá  tók ég fleiri hylki en vanalega. Ég hafði verið laus við slæma blöðrubólgu í 6 mánuði og laus við allar aukaverkanirnar af sýklalyfjunum og ónæmiskerfið var allt að koma til. Það mun þó líklega taka þó nokkurn tíma að komast alveg í lag. Ég varð svo ólétt og á meðgöngu ertu útsettari fyrir blöðrubólgu. Ég var meðvituð um það en í sólarhringsógleðinni fyrstu 5 mánuðina varð það erfitt að taka inn hylki með sterku bragði og oft á tíðum ældi ég þeim. Ég náði því ekki að taka réttan skammt alltaf og ég fann fyrir því. Ég finn mun þegar ég næ ekki að taka lyfin.

Mér var bent á hylki sem heita Bio-Cult og ég tek þau alltaf samviskusamlega inn. Ég er sem betur fer farin að ná aftur að halda þeim niðri og það er mikilvægt að halda þessu alltaf við og taka hylkin inn. Þau eru fyrirbyggjandi og styrkja ónæmiskerfið. Ég hef ekki tekið Vála undanfarið þar sem Bio-Cult eitt og sér virkar ágætlega fyrir mig eins og er. Þessi lyf eru ekki ódýr en ég tel þau svo sannarlega vera þess virði. Það að vera með blöðrubólgu alltaf er ekkert grín og líf mitt breyttist bara eftir að ég byrjaði að taka þessi lyf. Ég fæ alveg stundum einkenni en þá eyk ég skammtinn í 1-2 daga eða eftir þörf.

Þetta var farið að vera þannig að ég gat aldrei ákveðið neitt fyrirfram vegna þess að ég vissi aldrei hvort ég yrði veik og með hita vegna blöðrubólgu. Ég missti mikið úr skóla og komst ekki alltaf í tíma og man eftir einu skipti þar sem mér var sagt að fara heim, þá sáu kennararnir hversu kvalin ég var. Ég gat sem betur fer lært heima og tekið öll próf en auðvitað tekur þetta sinn toll. Auðvitað vill maður reyna allt til að vera laus við þetta helvíti.

Það er nefnilega þannig að oftast nær líkaminn að losa sig við veikindi sem þessi sjálfur. Það er erfitt og tekur lengri tíma en ef maður bíður í nokkra daga og hvílir sig og leyfir líkamanum að vinna sitt verk er það oftast þannig með kvef, blöðrubólgu og annað að líkaminn losar sig við þetta. Það eru ýmsar náttúrulegar leiðir sem geta svínvirkað fyrir suma og þar tala ég af reynslu.

Hér eru nokkur ráð sem hafa nýst mér vel í þessari baráttu. Það sama virkar ekki fyrir alla en ég er bara að segja frá því sem virkaði fyrir mig og margar aðrar konur sem eru nánar mér og hafa átt í þessari baráttu. Ég er mikið á móti of mikilli sýklalyfjanotkun og af minni reynslu er það alls ekki gott fyrir mann að taka of mikið af sýklalyfjum. Það virðist líka vera að við séum að ofnota sýklalyf hér á landi samkvæmt þessari frétt hér, hér og hér og það er ekki gott mál. Ég hef lært það að lyf sem læknar skrifa upp á fyrir mann eru ekki alltaf eina og besta leiðin. Það er oft hægt að gera ýmislegt annað til að vinna á ýmsum kvillum. Lyf eru ekki svarið við öllu. Náttúruleg bætiefni og að borða holla fæðu koma okkur langt. Ég hef þó afar sjaldan farið til læknis sem vill viðurkenna það að þetta sé rétt enda svosem eiga þeir að vinna eftir ákveðnum vinnureglum.
Hér eru nokkur atriði sem ég passa alltaf upp á til að halda mér góðri, ég ítreka það aftur að þetta virkaði fyrir mig, það sama þarf ekki að gilda um alla. 

– Aldrei að halda í sér. Fara alltaf á klósettið ef þér finnst eins og þú þurfir að pissa og passa að tæma alltaf blöðruna vel. Þó að þú sitjir og þurfir að kreista út síðustu dropana er það mikilvægt þar sem að pissið sem verður eftir ef þú tæmir blöðruna ekki nógu vel, veldur oft sýkingu.

– Pissa alltaf eftir kynlíf. Þó það komi bara nokkrir dropar þá er það þess virði að vera þolinmóður á klósettinu þar til droparnir koma!

– Þetta er kannski ekki smekklegt að segja og þetta vita nú flestir en þurrka alltaf aftur aldrei fram þegar þú ert að skeina þér.

– Láta sér ekki verða kalt á fótunum. Nota sokka.

– Bio – Cult Pro cyan. Bleikt á litinn. Þegar þú byrjar og ert með blöðrubólgueinkenni er ágætt að taka amk 5 töflur á dag. Þegar þú ert búin að ná þér tekur þú lágmark 2 fyrirbyggjandi töflur á dag. Ég finn mun ef ég tek þetta ekki og þetta er nauðsynlegt fyrir mig.

– Váli hefur virkað vel fyrir mig líka. Hann fæst í jurtaapótekinu. Ég ákvað að prófa bara allt enda er maður tilbúinn til að prófa ýmislegt þegar maður vill losna við kvilla sem háir manni í leik og starfi.

– Nota nærbuxur, ekki g-streng. Nærbuxur úr bómull ekki gerviefni. Það getur líka hentað sumum að nota innlegg frá neutral til að verða alls ekki kalt.

– Drekka mikið vatn og reyna að halda gosi í lágmarki.

Þetta er það helsta. Það er eflaust ýmislegt fleira sem virkar fyrir fólk og því tilvalið að skrifa það sem virkaði fyrir þig hér fyrir neðan.

SHARE