Bókstafur gefur út metsölubókina Rachel fer í frí – Stórfín bók fyrir sumarfríið

Bókstafur er nýtt bókaforlag á Egilsstöðum. Fyrsta bók forlagsins er metsölubókin Rachel fer í frí eftir Marian Keyes, einn söluhæsta höfund Íra. Kom hún út þann 24. apríl síðastliðinn.

Stofnandi og framkvæmdastjóri Bókstafs er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. Hún hefur lokið M.A. námi í almennri bókmenntafræði og hagnýtri ritstjórn og útgáfu en hefur undanfarið unnið að doktorsverkefni í leikhúsfræðum. Sigríður Lára þýddi bækurnar um Önnu í Grænuhlíð sem Ástríkur útgáfa gefur út og í fyrra kom út hálfsjálfsævisöguleg skáldsaga hennar, Of mörg orð, þroskasaga tiltölulega ungrar konu í góðæri, hjá Snotru.

Bókstafur hefur fengið aðstöðu hjá nýstofnuðu frumkvöðlasetri, Hugvangi, sem starfrækt er í Kaupvangi 6 á Egilsstöðum. Þar eru fyrir Austurfrétt, Augasteinar – Auglýsingastofa Austurlands og ýmis fyrirtæki í hugbúnaðarþróun og vefhönnun.

Hið nýstofnaða forlag mun annars leggja áherslu á útgáfu þýddra og íslenskra verka sem unnar eru á Austurlandi. Nokkur verk eru þegar í vinnslu, m.a. leiðsögubók um austfirsk fjöll, ferðasaga hjóna sem fóru á mótorhjólum um Mið-Asíu á liðnu ári og sögur fyrir börn úr þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar auk þýddra og íslenskra skáldsagna.

Rachel_auglysingA4_1505b

Fyrsta bók forlagsins er, eins og áður sagði, Rachel fer í frí eftir írska metsöluhöfundinn Marian Keyes.  Er það önnur skáldsaga höfundarins en þýðingu annaðist Sigurlaug Gunnarsdóttir. Í henni tekst höfundur á við sögu um fíkn, afneitun og bata með þeirri hnyttni sem hefur aflaði henni heimsfrægðar. Bókin kom fyrst út á Írlandi og í Bretlandi í janúar 1998, en hefur síðan verið þýdd á 15 tungumál. Hún er enn í dag söluhæsta bók höfundar.

Bókstafur hefur tryggt sér útgáfuréttinn á fleiri bókum eftir Marian Keyes og ráðgerir útgáfu á komandi misserum enda frábær höfundur hér á ferð.

Ég get sagt ykkur að Rachel fer í frí lofar afskaplega góðu. Ég hef að minnsta kosti þurft að neyða mig til þess að leggja bókina frá mér. Ég kem til með að segja ykkur nánar frá því síðar. Ef þið getið ómögulega beðið, má næla sér í eintak hérna. Rachel fær mín meðmæli. Og mín meðmæli eru ekkert gefins. Sver það.

Ég legg til að þú fylgist vel með á næstunni – sagan af Rachel gæti orðið þín!

Heimasíða Bókstafs

Bókstafur á Facebook

SHARE