Botox við langvinnu mígreni

Þegar við heyrum orðið Botox, dettur okkur flestum í hug, Hollywood ekki satt?  En Botox hefur einnig hjálpað og linað þrautir margra sjúklinga þar á meðal mígrenissjúklinga.

Botox er taugaeitur sem framleitt er úr bakteríunni Clostridium botulinum (bótúlíneitur). Hreinsað eða unnið bótúlíneitur er notað í ýmsum læknisfræðilegum tilgangi við fjölda líkamlegra kvilla sem vöðvaslakandi lyf.

Hvernig er Botox notað?

Langvinnt mígreni er sjúkdómur sem hefur áhrif á taugakerfið. Sjúklingar þjást af slæmum höfuðverk sem oft fylgir mikil viðkvæmni fyrir ljósi, háu hljóði eða lykt/ilmi og jafnframt ógleði og/eða uppköst. Um 2% þjóðarinnar er talinn þjást af langvinnu mígreni.

Botox er notað til að draga úr einkennum langvinns mígrenis hjá fullorðnum sem hafa verið með höfuðverk í 15 daga eða fleiri í hverjum mánuði og þar af að minnsta kosti 8 daga með mígreni og hafa ekki svarað vel öðrum fyrirbyggjandi lyfjum við mígreni

Hverjir sprauta Botox?

Einungis læknar með sérfræðiþekkingu og reynslu af notkun Botox mega gefa lyfið. Einungis má gefa Botox við langvinnu mígreni ef sjúkdómsgreiningin hefur verið gerð af taugalækni sem er sérfræðingur á þessu sviði. Botox er ekki notað við mígreni þar sem köst eru færri en 8 í mánuði, langvinnum spennuhöfuðverk eða hjá sjúklingum með höfuðverk vegna ofnotkunar lyfja.

Ekki er alveg vitað nákvæmlega hvernig Botox hefur áhrif á langvinnt mígreni. Talið er að Botox, sem blokkerar taugaboð til vöðva, geti stöðvað eða minnkað þann vítahríng sársaukaboða sem eiga sér stað í langvinnu mígreni. Að meðaltali fækkar köstum um 50%.

Hvar er sprautað?

Botoxinu er sprautað á um 30 staði undir húð víðsvegar um höfuðsvæði (enni, yfir gagnaugum, hnakka, hálsi og herðum). Þar fer Botoxið inn í taugaenda í kringum sprautustaði og hamlar taugaboð sem talin eru geta viðhaldið vítahring og minnkað hringrás neikvæðra taugaboða í mígreni.

Líða þurfa 10-12 vikur á milli meðhöndlana. Auknar líkur eru á mótefnamyndun gegn lyfinu ef það er gefið með styttra millibili. Auk þess er botúlíneitrið aðeins virkt í þrjá mánuði.

Botoxmeðferð við mígreni er langtíma meðhöndlun því árangur fæst yfirleitt ekki strax með meðferðinni. Ef árangur hefur ekki náðst á 6 mánuðum (2-3 meðferðartilfelli) er yfirleitt ekki talin ástæða að halda meðferð áfram.  Því er mælt með því að sjúklingur haldi áfram sinni venjulegu fyrirbyggjandi meðferð. Ef Botox sýnir fram á góðan árangur er hægt að íhuga minnkun fyrirbyggjandi lyfja.

Fleiri heilsutengdar greinar á

SHARE