Brauðbakstur – Loly.is

 Loly.is brauð logo

Það eru mjög margir sem eru hræddir við allan gerbakstur og ég skil það svo sem alveg. En það er nú einu sinni þannig að eins og með svo margt þá þarf maður bara að æfa sig í þessu. Það er nú með flest að maður nær ekki að fullkomna það í fyrsta sinn. Þessi uppskrift af brauði er afar einföld og í raun það eina sem maður þarf að gera er að hnoða í deigið löngu áður en það á að baka úr því. Stundum er svolítið gott að gleyma deiginu í þó nokkurn tíma því þá lyftir það sér best og bakast vel.
Þessa uppskrift er hægt að nota í venjulegan brauðbakstur, til að búa til pizzabotna eða búa til litlar bollur úr.

Það er gott að láta það hefast vel í skál með rökum klút yfir – svo er bara spurning hvort maður ætlar að nota allt deigið eða ekki. Ef ekki þá er hægt að geyma það í plasti inn í ísskáp í allt að tvær vikur og bakað úr því hvenær sem er.

1 kg hveiti
1 1/2 msk þurrger
1 1/2 msk salt
750 ml volgt vatn

Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið vel saman en deigið er frekar blautt viðkomu. Setjið rakan klút eða plastfilmu yfir og látið hefast við stofuhita í 2 klukkusutndir. Þegar deigið er búið að hefast er best að móta það með hveitistráðum höndunum í þá stærð og lögun sem maður vill hafa á því. Passið vel upp á að hnoðað það ekki mikið. Þegar þið eruð búin að móta deigið eins og þið viljið hafa það þá er gott að láta það hefast aftur í hálftíma en á meðan er gott að hita ofninn í 220°C.  Bakið brauðið í 30 mínútur c.a en auðvitað fer bökunartíminn eftir því hversu stórt brauðið er.
Spreyið vatni á brauðið til að fá harða skorpu á það, fyrst áður en það fer inn í ofninn og svo á 10 mínútna fresti.
Það er líka mjög gott að láta brauðið hefast á bökunarpappír og hita ofnplötuna áður og renna svo brauðinu upp á heita plötuna þá verður það stökkt og gott undir líka. Þetta brauð sem ég bakaði var 30 mínútur inn í ofninum. En snittubrauðið var í 20 mínútur.

brauð 1

 

Við fengum þessar leiðbeiningar og uppskrift frá henni Ólínu S.Þorvaldsdóttur eða Lólý eins og allir kalla hana.  Þegar Lólý hefur ekkert fyrir stafni fer hún í eldhúsið og prófar eitthvað nýtt og gómstætt og verður fjölskyldan og vinir helstu tilraunadýrin sem hún prófar sig áfram á.  Smelltu hérna á borðann og sjáðu hvað hún hefur uppá á bjóða, allt frá girnilegri peruköku með kanill eða roastbeef með wasapisósu!

tilraun 2

 

SHARE