Bréf til Bubba – Bréfið sem keppandi sendi eftir þátttöku

Fjölmiðlar hafa mikið fjallað um meint hótunarbréf sem Bubbi á að hafa fengið frá einum keppanda og okkur hefur nú borist afrit af bréfinu. Hvernig finnst ykkur bréfið hljóma?

———————-

Blessaður Bubbi og takk fyrir síðast. í texta sem að þú skrifaðir, “gott lag finnst mér” stendur m.a. “Það er talin heimska að opna sína sál” þessi orð og mörg önnur sem að þú hefur skrifað snerta mig og ég ber virðingu fyrir þér sem tónlistarmanni og textahöfundi.

Ég verð samt því miður að segja að það eru ekki sömu tilfinningar sem að bærast í hjarta mínu til þín sem persónu. Persónan Bubbi virðist vera maður með brotna sjálfsmynd sem að felur sig bak við valdhroka og dómhörku, já þröngsýni. Þannig komstu mér fyrir sjónir þega að þú gafst mér þinn dóm á sunnudaginn var, ýttir á bjölluna strax í fyrstu hendingu lagsins, sem að ég annars flutti með fullkomnu öryggi og mínum persónulega stíl. Á þér virtist brenna að þú vildir frekar fá sjálfan Dylan til flytja þetta lag, enginn annar ætti möguleika með flutning á þessu þjóðlagi nema hann. Og þá að sjálfsögðu með enskum texta, því ekki syngur Bob kallinn á íslensku, svo ég muni.

Ég hef sungið Blakk með þessu lagi síðan að ég var 17 ára og á löngum tíma skapað mér minn eiginn persónulega stíl á því. Hann er örugglega ekki líkur neinu sem að þú hefur heyrt áður með þetta lag, en túlkun mín er einlæg og röddinn sterk eins og landið okkar og veðrið. Ég á mér enga fyrirmynd í hvernig á að syngja þetta lag, ekki eins og þú, þ.e. Dylan. Textinn fjallar um hest sem má muna fífil sinn fegri og fer til fjalla í sína hinstu ferð til að deyja. Ekki hressilegur boðskapur, en samt fallegur og sterkur eins og lífið sjálft er, allt hefur sinn tíma.

Mitt líf hefur ekki verið þrautalaust og má segja að ég þekki höfnun frá blautu barnsbeini, er eineltis barn / unglingur, vegna offitu, óvirkur alkaholisti, hef verið edrú í 27 ár, eða frá því að ég var 25 ára. Ég er alin upp við ofbeldi og geðveiki, verið kölluð allskonar ljótum nöfnun og þekki því vel bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi.

Það sem að ég upplifði á sviðinu var andlegt ofbeldi frá ykkar hálfu og hroki, enn ég bað Drottinn sjálfan um að gefa mér anda rósemi og stillingar allt til enda þessarar dagsskrár og það gerði hann. Ég er í rauninni mjög skapmikil kona, með sterka réttlætiskennd og þoli ekkert verr en að sjá gert lítið úr öðru fólki og það á einnig við gagnvart mér.

Hvers vegna er ég að segja þér þetta? Vegna þess að þú lagðir í rauninni línuna fyrir þessum dómi sem að ég fékk, með því að ýta á bjölluna strax í upphafi. Það þýddi að þú bara nenntir ekki að hlusta á mig, ekki af því að ég væri fölsk eða syngi svona illa, nei heldur vegna þinnar þrönsýnu skoðunnar á tónlist og hvernig hún á að vera. Að því leiti erum við ólík, ég sjálf hlusta ekki á aðra á þennan hátt. Ég vil gefa hverjum einstaklingi pláss til að hafa sinn persónulega stíl og met viðkomandi eftir því.

Ég var með þá hugmynd að þið væruð að leita að hæfileikum, en ekki persónulegri skemmtun fyrir ykkur sjálf, þ.e. dómnefndina. Yfirlýsingar eins og Jón Jónson kom með minnir mig, “ég fíla þetta ekki” eða Þórunn Antonía ” þetta gerir ekkert fyrir mig” og bæði sögðu þau síðan nei, er ein furðulegasta gagnrýni sem að ég hef fengið á ævinni, ef að gagnrýni á að kalla. Og eins þú sjálfur ” Þú ert glæsleg og falleg kona, Jónast Árnason flottur, en ég þekki þetta lag með Bob Dylan, einn með gítarinn, ég segi NEI” Er þetta gagnrýnin eða brandari?
Nei, það var svo sem ekkert annað sagt við mig af ykkur þremur, enda hvað áttuð þið svo sem að segja, þar sem að hvorki heyrðist falskur tónn eða slæmur flutningur að neinu leiti, ég bara einfaldlega féll ekki að ykkar smekk.

Sjáðu ég er 52 ára og ég á fjölskyldu, eiginmann og unglinga sem að sátu úti í sal, yfir sig stolt af mömmu sinni að hafa stigið þetta skref, þrátt fyrir að vera komin af léttasta skeiði, af því að þau vita að ég er hörkusöngkona og get sungið marga og mismundandi stíla af tónlist. Ég hafði bara örstuttan tíma til að sýna hvað ég get og varð því að velja eitthvað eitt. Þau voru slegin og miður sín, eins og þau hefðu fengið rýting í hjartað. Þau voru jú búin að sitja allt kvöldið og sjá fólk fara áfram, sem að hafði ekki brot af minni getu, var jafnvel falskt og þess háttar. Mitt atriði var númer 22 í síðasta úrtaki inn í keppnina og kvótinn að verða fullur. Þið orðin uppgefin, jafnvel búið að gefa línuna fyrir því hverjir ættu að fara áfram og hverjir ekki. Fólkið mitt sagði að þið hefuð varla ýtt á bjölluna fyrir hlé og þá kom einnig yngsta fólkið fram. Það fékk allt aðra útreið. Það hvarlar að mér að þetta sé hugsunin og mælikvarðinn sem að farið var eftir. ” Enga gamlingja í þessa keppni, látum þá sitja heima, þeir gátu bara reynt að koma sér á framfæri á sínum yngri árum, fávitar. ”

Það er aldrei hægt að venjast ofbeldi og það á enginn að þurfa að sætta sig við slíkt. andlegt ofbeldi er ekki minna skaðlegt en líkamlegt. Ég get alveg fyrirgefið ykkur, en það að fyrirgefa þýðir ekki að ég leifi slíka framkomu, né sætti mig við hana. Fyrirgefning er bara ákvörðun um að hata ekki fólk, heldur elska. Ég hata ykkur ekki, ég ber ekki kala til ykkar, en mér finnst hins vegar þörf á að segja ykkur frá minni upplifun og sársauka. Þetta var bæði ljótt af ykkur og óréttlátt. Ef að ég hefði fengið rökstudda gagnrýni, uppbyggilega, eitthvað sem að gæti sannfært mig um að þið hefðuð eitthvað ykkur til stuðnings þessu NEII, faglegt álit, það væri allt annað. Er það ekki bara málið að þið höfðuð enga rökstudda gagnrýni aðra en þá “af því bara að mér líður svona”.

Ég mun einnig senda þetta bréf til fjölmiðla og inn á vefinn. Því ég stend fullkomlega undir því sem að ég er að segja varðandi minn flutning og getu, ég hef lagt mikið á mig til að ná því sem að ég hef, verið óvægin og kröfuhörð við sjálfa mig, bæði raddlega og hvað varðar listræna túlkun. Hins vegar og að sjálfsögðu er smekkur manna á tónlist mjög misjafn, allt í lagi með það, það kemur samt ekki hæfileikum neitt við eða getu, smekkur er bara smekkur og á ekki að ráða úrslitum, heldur frammistaða keppandans. Það var allavega mín túlkun á þessar keppni.

Ég sendi þér þetta bréf, ekki til að fá neinum dómum breytt, enda er minn áhugi fyrir þátttöku ekki lengur til staðar, heldur til að minna ykkur á að aðgætni og virðingu skal gæta í nærveru sálar og að Stöð 2 auglýsti eftir hæfileikum, ekki ákveðnum tólistarstíl, né að menn ættu að reyna á einhvern hátt að sníða sig að smekk dómaranna. Þá hefði átt að senda lagalista og fyrirmæli um útsentningu á þessum tilteknu lögum og hvort að karlmaður eða kona mættu syngja viðkomandi lag.

P.s. ég kveð þig með litlu ljóðum eftir sjálfa mig og hér er einnig linkur inn á vídíó “heimatilbúið” það sem að ég flyt lag eftir Dylan, bein útsending af rás 2 í gamla daga, en ég hef ekki verið mikið á sjónarsviðinu síðan þá http://www.youtube.com/watch?v=hBue7KKTiOY

Þó að ég sé nakin
þá er mér hlýtt,
en þú skelfur
í þykkum klæðum fortíðar

Hef lært leynimerkin
tungumál grímufólksins
Brosa framan við tárin
Ekki vissi ég að það væri hugrekki
að fela orð sálarinnar ..

SHARE