Bréf til dóttur minnar þegar hún verður 18 ára

Photo by David Castillo Dominici
Photo by David Castillo Dominici

Til dóttur minnar, þegar hún verður 18 ára (eftir mörg mörg ár)

Hæ hæ litla. Mannstu eftir mér? Ég er mamma þín, sem þú elskaðir einu sinni en hatar örugglega núna af öllu þínu unglings-hjarta. Ef þú ert eitthvað lík því fífli sem ég var, þegar ég var á þínum aldri, þá geturðu varla talað við mig þessa dagana. Þess þá síður ertu til í að hlusta á mín frábæru ráð.

Ef mínir útreikningar eru réttir er ég að byrja á breytingarskeiðinu um það leyti sem þú ert á kynþroskaskeiðinu, svo það má segja að við séum í djúpum skít. Þess vegna ákvað ég að skrifa þér þetta bréf áður en við myndum hætta að tala saman. Ef þessir útreikningar mínir eru ekki réttir þá erum við örugglega góðar vinkonur. Ég mun þá bara segja þér alla þessa hluti yfir skál af ís og láta þig svo þetta bréf svo þú hafir þetta skriflega.

Áður en þú flytur að heiman (og ég mun læsa mig inni á baði þar sem ég mun drekkja sorgum mínum í vodka flösku) þá vildi ég vera viss um að ég væri búin að koma þessum ráðleggingum til þín. Hér eru nokkrir hlutir sem þú ættir að gera snemma á þínum fullorðinsárum áður en lífið mun fara illa með þig:

Dettu í það annað slagið. Við vinkonurnar höfum sjaldan verið eins nánar og þegar við höfum drukkið einum (fjórum) kokteil of mikið. Þú mátt bara ekki gera neitt af þessu þegar þú erf blindfull: Labba heim full, keyra eða sofa hjá manni. Ekki einu sinni þó hann sé ótrúlega fallegur. Hann gæti svo reynst mjög ófríður þegar þú ert orðin alsgáð. Ef hann er mjög aðlaðandi og þá er margt annað sem getur laðast að honum eins og Herpes, kynfæravörtur og fleira. Að fara heim og verða þunnur er eitthvað sem er alveg gerlegt, en að fara heim með einhvern kynsjúkdóm er ekki eitthvað sem þú ættir að hætta á.

Reyndu að eignast marga góða vini þegar þú ert á þrítugsaldrinum. Hér eru nokkrir hlutir sem munu gerast þegar þú ert ung: Þú munt fara mikið út, þú munt drekka og hanga á sófum hjá fólki. Eftir því sem þú eldist muntu gera minna og minna af þessu. Ekki það, að þú getir ekki tengst fólki yfir skítugri bleyju en það kemur ekki í staðinn fyrir þá tengingu sem þið náið þegar þið farið saman í húsasund til þess að pissa. Ég hef samt aldrei gert það.

Og fyrst við erum farin að tala um að taka niður um sig buxurnar, þá skulum við tala um hvernig þú ættir að velja þér starfsframa. Já það er mikilvægt að velja eitthvað sem þú hefur yndi af, en hér eru samt hlutir sem námsráðgjafinn mun ekki segja þér: Þú hefur sagt að þig langi til að gifta þig og eignast börn, svo ég eignist barnabörn sem ég get dekrað við og elskað en rétt þér svo aftur þegar þau kúka. Ef þú getur, veldu þér þá starf þar sem þú getur verið með sveigjanlegan vinnutíma og þú getur unnið við, að heiman frá þér. Það er ekkert til sem heitir bankastjóri í hlutastarfi eða hjartalæknir í hlutastarfi og auðvitað eru bæði þessi störf frábær og ég yrði mjög stolt af þér ef þú yrðir bankastjóri eða hjartalæknir, en ég myndi þá líka vera að passa börnin þín alla daga. Ég er ekki viss um að það væri í lagi að ég kæmi inn á skurðstofuna hjá þér með barnið þitt, rétti þér það og segði: „Hérna er grislingurinn þinn, hann var að kúka og ég er ekki að fara að skipta á honum!“

Taktu eftir að hér að ofan sagði ég að þú myndir vilja gifta þig. Ég sagði ekki að þú myndir vilja finna þér eiginmann. Já ef þú ert lesbía, segðu okkur það bara. Ekki vera að fara í kringum þetta. Þú munt örugglega gera það samt sem áður, að fara í kringum þetta, en ég held að okkur líði bara betur að vita það. Sérstaklega mun pabba þínum verða létt, en hann er nú þegar tilbúinn með byssuna fyrir þann fyrsta sem mun vilja ganga að eiga þig. 

Hvort sem það eru konur eða karlmenn sem þú vilt, þá muntu pottþétt fara á stefnumót með einhverjum fíflum. Það gæti einhver sagt þér upp í gegnum sms, eða haldið framhjá þér með sínum/sinni fyrrverandi (sem var sagt upp í gegnum sms). Það mun einhver koma þér til að gráta og láta þér líða bölvanlega. Það eina sem þú þarft að vita er að þessar manneskjur eru bara tímasóun. Þær eru allar að koma inn í líf þitt til að kenna þér hvað þú vilt EKKI í maka þínum.

Einn daginn munu brjóstin þín fara að síga niður að öklum og olnbogar þínir verði harðir og þurrir. Sjónin mun verða verri og þú munt fá hökutopp sem samanstendur af EINU GRÓFU hári sem mun á endanum flækjast í hálsmeninu þínu. Þá viltu eiga maka, sem kastar EKKI upp í munninn á sér, þegar hann sér þig nakta. Þú vilt enda með maka sem finnst þú jafn glæsileg og daginn sem þið hittust fyrst.

Eitt að lokum. Jafnvel þó þú talir ekki við mig þessa dagana, máttu alltaf segja mér allt. ALLT. Ég hef örugglega sjálf verið á sama stað og þú, þó ég hafi aldrei sagt þér frá því. Mig langar kannski að taka í þig eða læsa þig inn í herbergi það sem eftir er, en ég mun aldrei gera það. Ég verð alltaf til staðar fyrir þig (með flösku af einhverju áfengu ef þú ert komin á aldur en súkkulaði ef þú ert ekki komin á aldur). Ég elska þig.

XOXOXOXOXOXOXO

Ástarkveðja, mamma

(höfundur Karen Alpert, sem skrifaði bókina I Heart My Little A-Holes)

SHARE