Upplifir einhverfuna sem litríkan ævintýraheim

Frida Adriana Martins er fædd og uppalin í Þýskalandi og kom fyrst til Íslands árið 2004. Henni líkaði dvölin svo vel að hún ákvað að setjast hér að.

Hún varð fljótt afar skapandi barn. Vegna skertrar hreyfigetu í fótum lærði hún ekki að ganga fyrr en um fjögurra ára aldur því má með réttu segja að hún hafi byrjað að mála og semja sögur áður en hún fór að ganga. Myndlistin hefur líka hjálpað henni í gegnum árin að vinna úr áreiti frá umhverfinu svo og með sínar eigin tilfinningar og núna hefur hún nýlokið við að skrifa sína fyrstu bók sem ber heitið “Landið á bak við skýin”

Bjó til sitt eigið tungumál

Á unglingsárum sínum fannst Fridu hún aldrei passa inn í skilgreiningu samfélagsins á einhverfu. Þær áttu einfaldlega ekki við rök að styðjast. Öll erum við ólík og það á líka við um þá sem eru á þessu litrófi. Á þessum árum bjó Frida sér til sitt eigið tungumál með málfræðireglum og öllu tilheyrandi út frá þeim tungumálum sem hún heyrði í kringum sig.  Þetta tungumál Fridu er afar ljóðrænt. AILEYS er orðið sem kemst næst orðinu “einhverfa” á máli Fridu.
„AILEYS mætti líka þýða sem fjölsál” segir Frida „og nær í raun yfir allar þær raskanir sem snúa að geðheilsu manneskjunnar. Undirtónn orðsins er að taka eftir því góða sem býr í hverjum og einum.“

Mikil aukning hefur verið á einhverfu á síðustu árum og samkvæmt fréttum er talið að um 1,2 % af Íslendingum sé með einhverfu í dag eða um 3.840 manns, fyrir utan hina sem ekki eru með neina greiningu upp á vasann. Líkurnar eru langtum meiri hjá drengjum eða 4 drengir á móti hverri stúlku en eitt af hverjum 88 börnum greinast í dag með einhverfu.

Skýringar á þessari fjölgun er að finna í aukinni þekkingu á mannsheilanum og betri greiningartækjum. Vitundarvakning á einhverfu er því brýn, þar sem einhverfa er málefni sem snertir samfélagið í heild sinni ekki aðeins einhverja fáa.

Finnur ennþá fyrir fordómum

Ég spurði Fridu hvað henni fyndist um þessa þróun og hún sagðist vera ánægð að vissu leyti. Umræða um einhverfu í samfélaginu er til góða og verður til þess að auka þekkingu og skilning almennings á einhverfu, en svo er aftur á móti spurning hversu langt á að ganga í greiningum. Frida vill meina að það geti haft neikvæð áhrif á einstaklinginn að vera að dreginn í dilka eins og hún orðaði það. Sjálf lítur hún ekki á einhverfuna sem fötlun miklu fremur blessun. Jafnframt þessu sagðist hún telja réttara að litið sé á manneskjuna sem eina heild og komið sé til móts við hana á hennar forsendum og án aðgreiningar frá öðrum. Aðgreining er ávísun á fordóma sem hún segist ennþá finna fyrir í samfélaginu.

Að sögn Fridu kemur innblástur að listsköpun hennar víða að eins og frá náttúrunni og tónlist er henni líka hugleikin. Hún segir tónlist og liti eiga margt sameiginlegt og skynjar tónlistina í litum. Þetta er tiltölulega algengur hæfileiki hjá fólki á einhverfurófinu og hefur með skynjun að gera. Nafna hennar Frida Kahlo er líka í miklu uppáhaldi hjá henni.

pandabeginning[2]
Ein af myndum Fridu sem á eftir að prýða bókina hennar.
Bókin hennar Fridu hefur fallegan boðskap. Hún fjallar um pöndu og leit hennar að sínu innra sjálfi. Hennar heitasta ósk er að verða að manni og sú ósk rætist þegar göldróttur dýralæknir breytir henni í mannveru. Titill sögunnar ber heitið “Landið á bak við skýin” og í því landi lifa menn og dýr í sátt og samlyndi. Í leit sinni lendir pandan í hinum margvíslegu ævintýrum og lærir nýtt tungumál. Og það er einmitt í gegnum ævintýrin sem hún lærir að þekkja sjálfa sig og styrkleika sína. Svo kemst pandan líka að því að margar mannverur geta verið alveg ágætar þrátt fyrir fordóma sumra. Þess má geta að Frida er ekki ennþá búin að finna útgefanda að bók sinni en vonar að úr því rætist í kjölfar sýningarinnar.

Ætlar að láta drauma sína rætast

Í framtíðinni langar Fridu mest til að gerast kvikmyndagerðarmaður, enda segist hún hugsa í myndum og alla liðlanga daga rúlli kvikmyndahandrit í hausnum á henni. Ég er sannfærð um að draumur hennar  eigi eftir að verða að veruleika því aðrar eins kjarnakonur eru sjaldséðar með jafn skemmtilega sýn á lífið og tilveruna og Frida.

 

SHARE