Brjóstagjöf og tannheilsa barna.

Frétt sem birtist í Fréttablaðinu 26. febrúar sl. vekur upp margar spurningar um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þar er að finna. Titillinn sjálfur er mjög villandi og sú fullyrðing sem að kemur í framhaldi af titli greinarinnar „Móðurmjólk getur skemmt tennur“ er beinlínis á skjön við ríkjandi ráðleggingar sem Landlæknisembættis sem og heilbrigðisyfirvöld annarra landa í kringum okkur miða við. „Ekki er ráðlagt að hafa börn á brjósti lengur en átta til tólf mánuði“ segir í innganginum.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) mælir með brjóstagjöf sem einu fæðu barnsins í sex mánuði og brjóstagjöf með annarri fæðu í allt að tvö ár eða lengur. Bandarísku læknasamtökin mæla með svipuðu, brjóstagjöf með annarri fæðu í tólf mánuði eða eins lengi og móðir og barn óska eftir. Þetta eru þær leiðbeiningar sem Landlæknisembættið gefur út sem leiðbeinandi fyrir foreldra og því hlýtur það að vera ruglandi fyrir foreldra ungra barna að lesa frétt sem tortryggir þessar leiðbeiningar og í raun segir þær rangar?
„sökum þess að við höfum ekki enn náð saman um endanlegar ráðleggingar miðast þær við að móðurmjólk sé alfarið skipt út á aldursbilinu átta til tólf mánaða og eftir að tennur koma í munn sé næturgjöfum mjög stillt í hóf“ segir í greininni. Hvað er verið að segja þarna? Er verið að ganga þvert á núverandi ráðleggingar um allan Vestrænan heim og ráðleggja mæðrum að hætta brjóstagjöf við átta mánaða aldur? Það verður ekki skilið öðruvísi og það sérkennilegasta er að þessar ráðleggingar komi frá starfsmanni Landlæknisembættis, þvert á þeirra eigin ráðleggingar um bestu næringu barna okkar!
Sog brjóstabarna er allt öðruvísi en sog barna á pela eða snuði. Þegar brjóstabarn sýgur brjóstið þá fer geirvartan nánast alla leið inn að mjúka gómi barnsins sem þýðir að brjóstamjólkin snertir tannfleti barnsins mjög takmarkað. Það að mjólkin kemur í gusum og barnið kyngir henni beint ofan í maga þýðir líka að tennurnar eru mjög takmarkað útsettar fyrir brjóstamjólk vegna þessara lífeðlisfræðilegu þátta. Þá komum við að samsetningu mjólkurinnar. Í rannsóknum sem gerðar hafa verið og vitnað er í er oft skoðuð áhrif laktósa eingöngu á tannskemmdir í staðinn fyrir áhrif brjóstamjólkur í heild sinni. Brjóstamjólkin inniheldur laktósa en líka önnur efni sem bókstaflega vinna á móti tannskemmdum en það er t.d. lactoferrin sem vinnur að því að drepa streptococcus mutans sem valda tannskemmdum hjá börnum. Fullorðinir hafa þetta strep.mutans í mismiklu magni í munnvatni og talið er að hægt sé að minnka líkur á tannskemmdum hjá börnum með því að deila sem minnst munnvatni með barni, t.d. með því að foreldri stingi ekki upp í sig snuði og svo barn. Hinsvegar geta glerungsgallar gert tennur barna útsettari fyrir tannskemmdum, hvernig sem þau nærast en vitað er að það ákvarðast á fósturstigi hversu sterkur glerungur barnsins verður.
Þegar skoðaðar eru nýlegar rannsóknir um tengsl brjóstagjafar og tannheilsu barna verður að hafa í huga hvað er verið að skoða. Margar rannsóknir skilgreina illa hvað átt er við með brjóstagjöf, er verið að tala um eingöngu brjóstagjöf, brjóstagjöf með þurrmjólkurábót og eftir að barnið byrjar að borða er þá verið að taka inn í myndina aðra fæðu, s.s. súra drykki og sykraða fæðu og er tannhirða tekin inn í myndina? Í nýlegri japanskri rannsókn ( Tanaka, 2012) var ekki sýnt fram á nein tengsl brjóstagjafar og tannheilsu barna fyrr en í fyrsta lagi við 18 mánaða aldur og í annarri rannsókn ( Quadri, 2012), þar sem skoðað var samhengi milli fæðugjafar og tannheilsu kom fram að tannskemmdir voru umtalsvert meiri hjá börnum sem drukku þurrmjólk úr pela heldur en hjá brjóstabörnum. Það fer því alfarið eftir því hvaða rannsóknir er verið að skoða og gæði þeirra og hvaða þættir eru teknir inn í myndina, hver útkoman verður og hvað valið er að segja foreldrum. Það sem ekki kemur heldur fram í þessari frétt eru kostir brjóstagjafar á tannheilsu en í fleiri en einni rannsókn kemur fram að vegna þess hvernig brjóstabörn sjúga brjóstið eru minni líkur á tannskekkju en hjá pelabörnum og minni líkur á krossbiti.
Í yfirlitsgrein sem birtist í tímariti bandarísku tannlæknasamtakanna núna í þessum mánuði, kemur fram að ekki sé hægt að sýna fram á tengsl milli brjóstagjafar og tannskemmda á óyggjandi hátt. Í þessari yfirlitsgrein voru skoðuð bæði kerfisbundin yfirlit og þær samanburðarrannsóknir sem gerðar hafa verið á tengslum brjóstagjafar og tannheilsu undanfarin ár. Þar kemur fram eins og áður sagði að margar rannsóknanna uppfylla ekki skilyrði um vandaðar rannsóknaraðferðir og skilgreina illa eða ekki, í hverju brjóstagjöf mæðranna felst. Vegna þess að margar þessarra rannsókna voru aðferðafræðilega ófullkomnar, voru þær útilokaðar úr samantektinni. Niðurstaðan var eins og áður sagði að ekki væri hægt að tengja saman brjóstagjöf og líkur á tannskemmdum. Ég tel þetta vera mjög áreiðanlega samantekt og hún birtist í fagblaði bandarískra tannlækna! Það var tekið fram að mikilvægt væri að kenna foreldrum góða munnhirðu ungbarna allt frá fyrstu tönn og auðvitað á það við hvernig sem barnið nærist. Hinsvegar voru heilsufræðilegir kostir brjóstagjafar tíundaðir í samantektinni: minni líkur á eyrnabólgu, minni líkur á meltingarsjúkdómum og öndunarfæðrasjúkdómum, minni líkur á asma og minni líkur á vöggudauða og barnakrabbameini auk annarra sjúkdóma sem börn geta fengið. Heilsufarslegur ávinningur fyrir móður var nefndur s.s. 4.3% minni líkur á brjóstakrabbameini fyrir hvert ár brjóstagjafar. Ávinningur fyrir heilbrigðiskerfið er óyggjandi, s.s. færri veikindadagar, minni kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið og umhverfis- og hagfræðilegur ávinningur.
Væri ekki nær að beina sjónum almennings að bættri næringu barna, minni sykurneyslu og takmörkun á súrum og sætum drykkjum ásamt bættri munnhirðu með því að skrifa greinar um tannburstun og góða munnheilsu heldur en að ráðast að núverandi ráðleggingum um bestu fæðu sem barnið á völ á – brjóstamjólk ?

Heimildir: http://jada.ada.org/content/144/2/143.full

Ingibjörg Baldursdóttir
Hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi, MS nemi í HÍ með aðaláherslu á heilsugæslu barna og sérhæfingu í brjóstagjöf, Formaður félags brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi og stuðningskona við brjóstajöf hjá íslensku brjóstagjafasamtökunum.

Hér má sjá fréttina sem birtist á visir
Móðurmjólk getur skemmt tennur

SHARE