Brúnir veggir og háværar klukkur….

Mér finnst íslenskar bíómyndir oft vera mjög skemmtilegar en þær eru margar hverjar bara ótrúlega Óskemmtilegar. Ég hef horft á þær allnokkrar og það virðist vera mikið lagt upp úr því að sýna hráan raunveruleikann í þessum myndum. En er þetta raunveruleikinn?

Þekkið þið til dæmis einhvern sem er ennþá með brúnt, grænt eða karrýgult mynstrað veggfóður á öllum veggjum heima hjá sér? Eða með brúnar flísar og lituð klósett? Nei, ég hef í það minnsta ekki séð þetta neinsstaðar síðan ég flutti úr Kínamúrnum í Kópavogi árið 1985.

Það sem mér finnst líka áberandi í þessum bíómyndum sem ég er að tala um, er andrúmsloftið. Það er alltaf eins og það sé einhver að deyja eða nýdáinn. Allir sitja til dæmis við matarborðið og enginn talar og eina hljóðið sem heyrist er í klukku…. „tikk – takk – tikk – takk“. Ótrúlega hresst eitthvað.

Ef atriði eru tekin utandyra þá er mjög oft eins og aðalsöguhetjan sé ein í heiminum, enginn á ferli og manneskjan gengur um tómar götur.

Þessar myndir, en ég ætla ekki að nefna neinar sérstakar bíómyndir því ég held að allir hafi séð svona myndir, eru  mjög oft sýndar um hátíðarnar í Ríkissjónvarpinu og ég bara SKIL ÞAÐ EKKI.

Eina sem ég veit er að þær koma mér ekki í hátíðarskap! Frekar fer ég og sit í hvítmálaða eldhúsinu mínu, með jólakaffi og jólasmákökur, spjalla við fjölskyldu og vini og heyri ekki „tikk – takk – tikk – takk“ í neinni klukku.

Gleðileg jól og ég óska þess að þið eigið yndislega jólahátíð!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here