Conjunctivitis (Augnsýking)

Adenoveirur eru algengasta orsök tárubólgu (conjunctivitis) en að auki getur þær valdið sýkingum með einkennum frá m.a. loftvegum, meltingafærum og miðtaugakerfi. Sýkingar af völdum adenoveira eru í gangi allt árið  og oft verður vart tímabundinnnar aukningar á tilfellum í samfélaginu. Einnig eru faraldrar af völdum adenoveira vel þekktir, einkum við náin samskipti margra einstaklinga. Helstu dæmi eru sumarbúðir barna ásamt her- og æfingabúðum.

Lýst hefur verið a.m.k. 51 mismunandi sermisgerðum (serotypes) adenoveiru í mönnum og er þeim skipt í 6 undirflokka frá A-F. Margar sermisgerðir eru tengdar ákveðnum sýkingum og einnig er sermisgerðin háð aldri sjúklings, ákveðnar sermisgerðir eru því algengari í börnum en fullorðnum eða öfugt. Sýking af tiltekinni sermisgerð gefur ágæta vörn gegn framtíðarsýkingum sömu sermisgerðar.

Sjá einnig: Ert þú með þurr augu?

Helstu sýkingar af völdum adenoveiru og tengsl við sermisgerðir

Hornhimnutárubólga í faröldrum (epidemic keratoconjunctivitis) tengist sermisgerðum 8, 19 og 37

Koktáruhiti (pharyngoconjunctival fever) tengist sermisgerðum 3 og 7

Efri og neðri loftvegasýkingar með kvefeinkennum, hálssærindum, hósta og hita tengist sermisgerðum 1, 2 og 4?6 hjá börnum og 3, 4 og 7 hjá fullorðnum

Iðrasýkingar með niðurgangi tengist sermisgerðum 2, 3, 5, 40 og 41

Blöðrubólga tengist sermisgerðum 7, 11 og 21

Sýkingar í miðtaugakerfi tengist sermisgerðum 2, 6, 7 og 12

Algengustu smitleiðir eru:

Manna á milli með höndum

Bein snerting við vessa úr auga úr sýktum einstakling

Óbein snerting við sýkta vessa með snertingu við mengað yfirborð, mengu áhöld eða mengaða vökva.

Oft má rekja upphaf smits hjá starfsfólki í ­­verksmiðjum til vökva sem notaðir eru til augnskolunar eftir minniháttar augnslys; smit á sér þá stað með fingrum, áhöldum eða öðrum menguðum hlutum. Svipaðir faraldrar hafa einnig komið upp á augndeildum og læknastofum og smit meðal starfsfólks getur viðhaldið faraldrinum. Algengt er að smit verði innan fjölskyldna, einkum þegar börn eru á heimilinu. Áverki á auga, jafnvel þótt lítilfjörlegur sé, eykur líkur á smitun.

Sjá einnig: Hún er með kvef í augunum

Meðgöngutími

Tíminn frá smiti þar til einkenni koma í ljós er venjulega 4 til 12 dagar en getur verið lengri.

Tímabil sem sýktur einstaklingur er smitandi

Sýktur einstaklingur getur verið smitandi frá því skömmu áður einkenna verður vart upp í 14 daga frá upphafi einkenna.

Sýkingavarnir við hugsanlegt eða staðfest smit

Sá smitaði:

Brýna skal fyrir smitberum að þvo sér oft um hendur og forðast snertingu við augað.

Nota ber einnota pappírsþurrkur. Verði því ekki viðkomið skal sá sýkti vera með eigið handklæði þar til tekist hefur að útvega pappírsþurrkur.

Smitandi einstaklingar mega ekki að deila augnlyfjum, dropagjöfum, augnsnyrti­vörum né öðru sem snertir augun með öðrum.

Meðferð felst í hreinlæti fyrst og fremst og styðjandi meðferð og hreinsa augu með soðnu vatni eða viðlíka

Í sumum tilvikum þegar kemur upp svæsnari sýking og bakteríur bætast ofan í slíka sýkingu getur verið réttlætanlegt að nota sýklalyf en þeirra er iðulega ekki þörf.

Sjá einnig: augnsýking

Smit á  heilbrigðisstofnunum/augnalæknastofum

Sjúklingum og heilbrigðisstarfsmönnum með hugsanlega sýkingu ber að forðast umgengni við aðra sjúklinga.

Starfsmenn skulu þvo sér um hendur fyrir og eftir alla snertingu við hvern sjúkling. Nota ber hanska ef minnsti grunur er um smit og þurrka hendur vandlega með einnota pappírsþurrkum að loknum handþvotti.

Margnota áhöld, sem notuð eru við augnskoðun, skal þvo vandlega og dauðhreinsa (með viðurkenndri aðferð) að notkun lokinni.

Öllum augnlyfjum eða dropum, sem komist hafa í snertingu við augnlok eða slímhimnur, skal hent eftir notkun.

Ef faraldurinn eru viðvarandi þarf að herða enn á varúðarráðstöfunum, meðal annars með því að taka á móti hugsanlega sýktum sjúklingum í sérstökum móttökuherbergjum.

Þrífa þarf vel allt umhverfi hins sýkta með vatni og sápu og sótthreinsa jafnframt með mildri klórlausn yfirborð sem mengast með vessum úr augum eða nefi.

Við faraldra þarf að rekja smitleiðir til uppruna smitsins (t.d. menguð augnlyf eða skolvökva) og gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra frekari útbreiðslu.

Heimild Embætti Landlæknis

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á

doktor.is logo

SHARE