Dagarnir eru misgóðir og misslæmir

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

—————-

Einhverntímann sá ég á netinu konu skrifa að það hafi verið sagt við hana að við sem fáum skjaldkirtilssjúkdóma ættum að vera fegin vegna þess að ef hægt væri að velja einhvern sjúkdóm væri þessi bestur…

Þessi setning hefur setið í mér alveg síðan. Jú auðvitað eru sjúkdómar allir mismunandi. Mikil umræða hefur verið um leikarann sem barðist við þunglyndi og svipti sig lífi. Það opnar fyrir umræðu og fólk opnar sig. Svona umræður eru mikilvægar. Að fólk viti að það eru fleiri þarna úti í sömu sporum og að fólk viti að það eru til sjúkdómar sem sjást ekki utan á fólki. Að vera með þunglyndi er ekki val neins. Það kýs enginn að vera með þennan hræðilega sjúkdóm. Það er ekkert annað en fordómar þegar það er sagt við manneskju með þunglyndi að koma sér bara úr rúminu, fara út að ganga og hrista þetta af sér. Þetta er nákvæmlega sama og með skjaldkirtilssjúkdóma. Það sést ekki alltaf utan á okkur. Við veljum ekki að fá þennan sjúkdóm fram yfir annan. Af hverju ætti einhver að þurfa að velja „besta“ sjúkdóminn? Það vill enginn hafa neinn sjúkdóm. Við þurfum að öll að reyna að lifa með því sem hrjáir okkur. Það sem við völdum ekki að hafa. Þessi sjúkdómur hefur tekið margt af okkur. Eins og tíma… Við höfum mörg varið allt of löngum tíma sofandi, úrvinda, með leiði.

Fólk getur verið með slæma liðverki og vöðvaverki. Einkenni af vanvirkum og ofvirkum skjaldkirtli geta líka verið þunglyndi og kvíði. Ég var með ofsakvíða stuttu áður en ég var greind með vanvirkan skjaldkirtil og var sett á skjaldkirtilslyf. Það er það er það versta sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Hugsanirnar verða hrikalegar. Ég var að gefast upp á tímabili… Kvíði og kvíðakast getur einnig fylgt skjaldkirtilssjúkdómum. Því fylgir hrikaleg ofsahræðsla. Það er ekki hægt að lýsa því hversu hræðileg sú líðan er.

Í flestum tilvikum þegar fólk fer á skjaldkirtilslyf er það ekkert búið að læknast. Það er margt sem þarf að varast. Þurfum oft að passa uppá mataræðið, passa að ofgera okkur ekki, passa svefninn og lífsstílinn. Dagarnir eru misgóðir og misslæmir. Eins ef fólk er undirmeðhöndlað eða ómeðhöndlað sem þurfa að jafnvel að lifa með fullt af slæmum einkennum skjaldkirtilssjúkdóms. Það hlustar á aðra segja við sig að hætta þessari leti. Að fara út og hreyfa sig. Það er ekki alltaf svo einfalt. Fólki líður oft of illa til að geta það og það hefur ekki kraftana.

Ég mun alltaf muna eftir því sem hjúkrunarfræðingur í skólanum kenndi mér í skólanum. Að það er engin líðan og enginn sjúkdómur betri eða verri en annar. Það er jafn slæmt og hvernig manneskjunni líður. Gleymum ekki að líðan hvers og eins er einstaklingsbundin. Við sjáum það ekki alltaf utan á fólki.

Stofnað hefur verið félag um skjaldkirtilssjúkdóma Skjöldur og er aðaltilgangur félagsins er að auka vitund almennings um skjaldkirtilssjúkdóma, auka fræðslu og gera málefni skjaldkirtilssjúklinga áberandi. Hægt er að skrá sig í félagið á netfanginu skjaldkirtill.is@gmail.com. Félagsgjald fyrir árið er 2000 kr. Allir eru velkomnir að skrá sig hvort sem það eru einstaklingar með skjaldkirtilssjúkdóma, aðstandendur eða aðrir sem áhuga hafa á málefnum félagsins.

Höfundur: Kristjana Marín Ásbjörnsdóttir, sjúkraliði og meðstjórnandi Skjaldar.

Kristjana hefur skrifað aðra færslu á Hún.is

SHARE