Dagur Rauða nefsins er í dag!

Dagur Rauða nefsins, sem er í dag, nær hámarki í beinni útsendingu á RÚV í kvöld að loknum kvöldfréttum, en óteljandi listamenn munu sjá um að skemmta áhorfendum með glensi, gríni og tónlist. Fjölmargir þjóðþekktir einstaklingar hafa sett upp rauða nefið í dag; fólk, fyrirtæki, mannvirki og jafnvel nokkrar af flugvélum WOW hafa skartað rauða nefinu í dag.

Meðal annars verður sýnt frá heimsókn leikarans Ólafs Darra Ólafssonar til Madagaskar á RÚV í kvöld, en þangað fór Ólafur Darri til að kynna sér baráttu UNICEF fyrir velferð barna, baráttu sem heimsforeldrar UNICEF taka virkan þátt í. Eru landsmenn hvattir til að ganga í lið með heimsforeldrum UNICEF og berjast fyrir réttindum barna um allan heim.

Fjöldinn allur af góðu fólki leggur UNICEF lið í kvöld – allt í sjálfboðavinnu. Aðalkynnar kvöldsins eru þau Einar Þorsteinsson og Guðrún Dís Emilsdóttir sem halda um taumana í stúdíói en í símaveri Vodafone munu Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Salka Sól Eyfeld og Benedikt Valsson standa vaktina.

Meðal fjölmargra gesta og atriða má nefna:

•   Fannar Sveinsson, Jóhann Alfreð Kristinsson og fleiri bregða sér í bæinn í þeim tilgangi að „klukka“ mann og annan

•  Bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór mæta á svæðið.

•   Lífskúnstnerinn Frímann Gunnarsson lætur sitt ekki eftir liggja.

•   Uppistand þar sem Kenneth Máni, Björn Bragi, Þorsteinn Guðmundsson og Dóri DNA fara á kostum.

•   Páll Óskar Hjálmtýsson flytur tónlistaratriði.

•   Pollapönk og Reykjavíkurdætur flytja UNICEF-lagið í ár – Tabula rasa.

•   Innslög frá heimsókn Ólafs Darra Ólafssonar leikara og heimsforeldris til eins fátækasta lands í heimi, Madagaskar, þar sem hann kynnti sér aðstæður barna og baráttu UNICEF í landinu.

•   Lína langsokkur og Glanni glæpur sprella

•   Glænýtt íslenskt grín í leikstjórn Silju Hauksdóttur þar sem Þorsteinn Bachman, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Tinna Sverrisdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, María Reyndal, Dóri DNA og Magnús Jónsson kitla hláturtaugarnar hressilega.

UNICEF hvetur landsmenn til að horfa á þáttinn og taka þátt í baráttunni fyrir velferð barna.

 

 

SHARE