Mig langar að segja ykkur frá því hvernig ég hætti að reykja, það er jú eitt af því besta sem ég hef gert í lífinu.

Fyrst þurfið þið að vita að ég var stórreykingamanneskja, jebb reykti alveg pakka á dag og jafnvel meira á góðum degi. Það þurfti alveg fjórar sígarettur með kaffibollanum á morgnana til þess að komast í gang. Já! Ég veit, ógeðslegt.

Mig var búið að langa til að hætta að reykja í nokkur ár og hafði gert nokkrar tilraunir en alltaf byrjað aftur og það meðvitað. Ég óttaðist meira en allt að fitna ef ég hætti. Jebb, hégóminn var við stjórn og líkamsdýrkunarklikkun í hausnum á mér var á háu stigi, feit kom ekki til greina. Mér hafði alltaf fundist ég of feit líka þegar ég var of mjó, klikkun ég veit.

Eins og áður sagði hafði ég reynt oft en sprakk alltaf. Svo sá ég auglýst „hættu að reykja með dáleiðslu“. Áhugavert en ég seldi mér þá hugmynd að þetta væri bara eitthvað plott og ég ætlaði ekki að láta glepjast. Dáleiðslu-rugl puff…

Ég fór að finna meira og meira fyrir óþægindum af völdum reykinga eins og hósta og mæði. Aftur sá ég þessa auglýsingu og fór svona að spá í að kannski væri eitthvað til í þessu. Ég átti eina vinkonu sem hafði hætt að reykja með hjálp lyfja og dáleiðslu. Sú sagðist aldrei hafa reykt, það fannst mér dálítið klikkað.

Ég hugsaði þetta töluvert lengi fannst þetta svolítið dýrt en samt ódýrara en að reykja í einn mánuð. Loks ákvað ég að slá til og pantaði tíma.

Ungur maður tók á móti mér og útskýrði fyrir mér dáleiðsluástand og að einstaklingur sem væri dáleiddur væri allan tímann meðvitaður um umhverfi sitt. Jafnframt sagði hann mér að ef ég ætlaði mér að rjúfa dáleiðsluna seinna og byrja að reykja þá gæti ég það, þetta væri undir mér komið.

Allt í lagi gerum þetta! Mín var dáleidd og reykti ekki í tvo mánuði á eftir en tók alveg meðvitaða ákvörðun um að reykja, rétt eins og hann hafði sagt.

Einhverjum árum seinna fór ég til einnar sem dáleiðir, en þá út af áföllum sem ég hafði orðið fyrir. Þetta var átakafullur tími í lífi mínu og sálfræðingurinn sem ég var hjá lagði til dáleiðslumeðferð við áfallastreitu.

Ég var til í að gera hvað sem er til að finna betri líðan svo ég fór í þessa dáleiðslumeðferð. Meðferðaraðilinn tók vel á móti mér og spurði mig hvað ég vildi fá út úr þessari meðferð. Ég sagðist vilja fá betri líðan og jú flott ef hún gæti skellt inn með, því að ég myndi hætta að reykja. Hún glotti nú bara og sagði að til þess að dáleiðsla virkaði yrði ég að vera virkilega tilbúin til að taka á móti henni og eins og með að hætta að reykja það væru engir töfrar ég yrði að vilja hætta í raun og veru.

Meðferð þessi voru þrjú skipti og var til þess að hjálpa mér að takast a við þau áföll sem ég var að ganga í gegnum. Ég var fús og þekkti til dáleiðslunnar og vissi hvernig þetta virkaði. Geggjað þægilegt slökunarástand á meðan meðferðaraðili talaði við undirmeðvitundina.

Ég heyrði hana segja í lokin á dáleiðslunni:

„…og þú þarft ekkert að reykja“

Þetta kvöld reykti ég síðustu sígarettuna mína og gaf barnabarninu mínu reyklausa ömmu í afmælisgjöf daginn eftir. Auðvitað fékk hann pakka líka.

Nú eru liðin tvö og hálft ár og jú ég hef fitnað en ég tók ákvörðun um að það væri í lagi ég gæfi mér fram að fimmtugu að léttast aftur. Mér líður mun betur og á miklu meiri pening, hef ferðast helling. Já það er gott að vera laus við tóbakið.

Nú er ég aftur í dáleiðslumeðferð.

Ég ákvað eftir árs umhugsun að prófa dáleiðslu sem mér fannst svo lygileg að ég trúði varla að hún virkaði.

Í þetta sinn til að hjálpa mér að léttast, sýndarmagabandsaðgerð. Ég finn töluverðan mun á mér hvað matarvenjur varðar. Já ég er hætt að gúffa í mig nammi, sem var veikleiki minn! Ég verð fyrr södd og er södd lengi, ekkert kvöldát svo ég er spennt að sjá hvort ég fari ekki að bræða einhvern mör. Ég tók mynd fyrir og hlakka til að sjá hvort það verði mikil munur á eftir mynd.

Það er samt þannig að ég verð að bera ábyrgð á mér og taka þátt ekki bara reikna með að dáleiðslan séu töfrar og ég geti ghaldið áfram að borða óhollt og misbjóða líkamanum mínum.

Ég er mjög spennt fyrir því að sjá hvað verður og lofa að leyfa ykkur að fylgjast með.

Dáleiðslumeðferð er að mínu mati mjög magnað fyrirbæri og ég er greinilega góður kandidat í þessa meðferð.

Ef þú vilt nánari upplýsingar um meðferðaraðilana sem ég hef nýtt mér sendu mér þá póst og ég skal glöð gefa upp nöfn 🙂

Reyklaus og heilbrigð er mandra mín fyrir 2018.

Sá auglýst að nám í meðferðadáleiðslu væri að fara af stað, finnst það áhugavert.

 

Gæti alveg verið gaman að skoða það að læra dáleiðslu, magnað meðferðaform!

 

 

SHARE