ATH: Þessi grein er aðsend. 

Ég las hér grein um hundinn Depil og fékk tár í augun!
Ég vil deila sögunni minni með ykkur. Tíkin mín,Kolka, var sú fyrsta hér á landi sem að greindist með ormana Strongyloides stercoralis, og var eftir það mikið talað um þetta í fréttunum. Hún er af tegundinni Cavalier king charles spaniel. Við ákváðum að fá okkur hund frá Dalsmynni aðalega vegna þess að við vissum ekki hvert annað við áttum að leita. Þetta var fyrsti hundurinn sem að við eignuðumst svona sjálf, en áttum aðra tík fyrir sem að við fengum gefins.

Ég hafði aldrei komið að Dalsmynni og bjóst við að mega labba um og fá að skoða ýmsar tegundir og fá að velja, en nei það var svo sannarlega ekki þannig.
Þegar við komum inn þá tók við okkur þessi viðbjóðslega fýla og konan spurði okkur hvaða tegund við værum að hugsa um að fá okkur.
Hún sendi svo alltaf unga stelpu inn til að sækja hunda og passaði þessi stelpa að við sæjum alls ekki inn til hundana!
Þetta fannst mér mjög skrýtið.
Þegar við fengum Kolku heim átti að vera búið að þvo hana, en hún var ennþá öll í skít og var rosalega illa lyktandi, svo að við settum hana aftur í bað en það dugði ekki til fyrr en eftir þriðja skiptið.
Hún var fjögurra mánaða þegar við fengum hana og hún var rosalega lítil og hrædd. Fyrstu nóttina svaf hún í kassa við hliðina á rúminu okkar og ef að hún sá okkur ekki þá fór hún að væla svo að kærastinn minn þurfti að sofa með hendina hangandi ofan í kassann hjá litla krúttinu.
Við tókum þá líka eftir því að hún hóstaði mikið, alltaf alveg þangað til að hún kúgaðist og stundum ældi.

Við fóru með hana til dýralæknis sem að sagði að hún væri með hósta sem að kallaðist hótelhósti og að allir hundar frá Dalsmynni væru með en þetta er bráðsmitandi hósti, Við fengum lyf til að minnka hóstann og hún vigtaði hana líka vegna þess að henni fannst hún svo lítil.
Hún var þá 1,4 kíló en átti á þessum aldri að vera þrjú, svo að hún hefur ekki verið að fá nóg að drekka frá mömmu sinni og alveg greinilegt að ekki var fylgst neitt með því.
Nokkrum dögum seinna tókum við eftir hreinu blóði sem að lak úr endaþarminum þegar hún kúkaði. Þá hringdi ég aftur í dýralækni sem að sagði mér að fara með saursýni upp í Keldur sem að ég þá gerði.
Um tveimur dögum seinna hringdi dýralæknirinn minn í mig og sagði mér að hún hefði ekki góðar fréttir því að þá hafði hún greinst með þessa orma. Þá hófst þetta ömurlega ferli um að láta báðar tíkurnar mínar á ormalyf og ég þurfti að gefa þeim það í þrjár vikur, og mamma mín þurfti að gefa tíkunum sínum lyfið vegna þess að við pössum reglulega fyrir hana og hún okkur.

Allir hundarnir nema einn vorum smitaðir. Vinkona mín keypti á sama tíma cavalier tík frá þessari konu og hún var líka alveg stútfull af þessum ormum.
Við þurftum í marga mánuði á eftir að koma reglulega með saursýni úr hundunum okkar og þurftum svo að fara sjálf með sýni úr okkur upp á spítala vegna þess að læknarnir vissu ekki hvort að ormarnir gætu smitast í fólk, en í ljós kom að þeir gera það ekki.
Þetta var hörmulegt tímabil ! Í dag er hún Kolka mín laus við þessa orma og hinar tíkurnar líka.
Ég veit að henni Ástu, eiganda Dalsmynnis var bannað að selja hunda þangað til búið væri að hreinsa þá alla og allir væru lausir við ormana.
Núna nýlega keyptu hjón sér cavalier tík þaðan og hún var smituð af þessum ormum.
Það á að loka þessu hundabúi og það strax !! Það sést á mörgum hundum sem að koma þaðan að þarna fer fram ill meðferð á hundum.
Ég var búin að reyna að senda yfirdýralækni bréf og Kastljósi Rúv en fékk engin svör.

Ég skora á eftirlitsaðila að fara að skoða starfsemina á Dalsmynni af alvöru og bið fólk um að vanda vel val á seljendum þegar kemur að því að kaupa sér hund.

SHARE