Þegar dauðsfall verður í fjölskyldunni er það fyrsta sem kemur upp í hugann hvernig eigi að skýra börnunum frá því og deila þeirri lífsreynslu með þeim.
Fyrr á tímum, þegar fólk fæddist og dó á heimilinu var þetta ekki neitt vandamál því þá var dauðinn eðlilegur þáttur daglegrar tilveru og börnin tóku þátt í þeim viðburði eins og allir aðrir.
Sjá einnig: Hefur þú tekið afstöðu til líffæragjafar?
Nú til dags þurfa foreldrar hins vegar að vera meðvitaðir um að þessi þáttur tilverunnar er ekki lengur hluti af heimsmynd barnanna. Foreldrar verða að leitast við að upplýsa börnin sín fyrir fram því að þannig má gera sorg og dauða mun léttbærari.
Hvers vegna er rétt að undirbúa barnið?
Fyrstu viðbrögð margra eru að vernda barnið með því að tala ekki um sorgina og dauðann. Þetta er vanhugsað. Fyrr eða síðar mun þessi mál bera á góma og því betur sem barnið er undirbúið, því betur er það í stakk búið til að takast á við slíkt.
Barn sem þannig hefur notið misskilinnar verndar gegn sorg og dauða kemst samt ekki undan því að bregðast við þegar það verður þess áskynja. Sorgin verður ekki umflúin þótt henni sé slegið á frest. Oft hefur það valdið barninu óþarfa ótta og óvissu, jafnvel sektarkennd.
Sjá einnig: Þar til dauðinn aðskilur okkur – Myndband
Hugsast getur að þegar sorgin eða dauðinn ber að dyrum verði foreldrar ekki færir um að ræða við barnið vegna uppnámsins. Eðlilegur undirbúningur er því til bóta fyrir alla fjölskylduna þegar til kastanna kemur.
Hvernig á að segja barninu frá dauðanum?
Með því að undirbúa barnið áður en að því kemur að tilfinningarnar taka yfirhöndina er barninu kennt að dauðinn er hluti af lífinu. Það á ekki að hlífa börnunum heldur leiðbeina þeim og veita þeim viðhlítandi svör við spurningum þeirra.
Ef undirbúningurinn er fléttaður inn í daglega tilveru verður hann hluti af lífinu. Hægt er að nota tækifærið til að tala um blóm, sem visna og deyja, eða ef gæludýr hefur dáið þá má leggja út af því. Hægt er að spjalla um gamalt fólk, sem barnið þekkir og fjalla um elli og dauða í því samhengi. Til eru margar góðar barnabækur með dauðann og sorgina sem umfjöllunarefni svo hægt er biðja um bókalista á bókasafninu. Góð leið til að opna eðlilega umræðu er að lesa bækur með barninu og ræða um þær hugsanir sem vakna á eftir.
Börn eru óheft og spyrja beinskeyttra spurninga. Þau tala ef til vill ekki eins mikið um tilfinningar og staðreyndir. Þau geta spurt hvernig líkkista líti út að innan og hvort það sé ekki óhugnanlegt og einmanalegt að liggja niðri í jörðinni, hvort það sé dimmt og kalt o.s.frv. foreldrar þurfa að vera viðbúnir þess háttar spurningum. Ef foreldri verður skelkað eða hrætt finnur barnið það strax og hættir að spyrja. Barnið sér á foreldrinu hvort það leyfir alls konar spurningar og hvernig þú bregst við.
Muna þarf að börn setja sig ekki í stellingar og ræða eitthvert málefni klukkutímum saman. Þau koma hlaupandi og spyrja um einhver erfiðustu viðfangsefni tilverunnar og þá gefst smá stund meðan þau einbeita sér að því. Tveim mínútum síðar eru þau farin út að leika sér. Það er mikilvægt að grípa tækifærið og tala um þetta meðan athygli þeirra er vakandi.
Sjá einnig: 25 mögulegar afleiðingar svefnskorts
Þegar talað er við barnið um einhvern sem hefur dáið er mjög mikilvægt að nota rétt orð, ,,dáinn„. Börn skilja ekki rósamál og til eru börn, sem hafa beðið eftir afa sínum eða ömmu árum saman vegna þess að þeim var sagt að umræddur væri ,,farinn„ eða hafi ,,sofnað„.
Ef foreldrar eru hryggir, eiga þeir að leyfa barninu að sjá sorg sína og upplifa að þeir séu verulega miður sín. Ef reynt er að dylja sorgina, fær barnið á tilfinninguna að sorgin sé bönnuð.
- Á barnið að vera við jarðarför?
Jarðarför er athöfn, sem hjálpar öllum að sætta sig við dauðann. Þar sem barnið er hluti af fjölskyldunni er eðlilegt að það taki einnig þátt í jarðarförinni.
Undirbúa þarf barnið vel og segja því nákvæmlega hvað sé að fara að gerast og hvers vegna. Það er óvitlaust að segja barninu að sumir viðstaddir geti farið að gráta og verði sorgmæddir.
Ef foreldrar of sorgmæddir til að undirbúa og ræða við barnið ættu að biðja einhvern annan um það. Leita þarf aðstoðar ef þeir treysta sér ekki til þess sjálfir.
Það á að standa barninu til boða að vera við jarðarförina en ekki að vera skylda. Ef barnið neitar á ekki að þvinga það heldur spyrja það um ástæðu.
Á alltaf að vera hreinskilinn þegar barnið spyr spurninga um dauðann?
Grundvallarspurningar um lífið og dauðann krefjast heiðarlegra svara.
Hlusta skal vel til að skilja spurninguna og síðan svara henni.
Ef barnið spyr hvort það muni deyja sjálft er til dæmis hægt að svara þannig: jú, það mun gerast, en ekki fyrr en eftir langan, langan tíma. Ef barnið spyr hvort foreldrarnir muni deyja er hægt að svara því til að allar manneskjur eigi eftir að deyja, en það sé langt þangað til.
Sjá einnig: Ég átti yndislega vinkonu
Loks getur barnið líka spurt um eitthvað, sem foreldrarnir vita ekki hvernig á að svara. Þá er heiðarlegt og alveg í lagi að segja: ,,ég veit það ekki„.
Er gott fyrir barnið að minnast?
Það er gott fyrir allar manneskjur að eiga minningar. Með því að varðveita minningu einhvers lifir sú manneskja áfram. Það er góð hugmynd að útbúa myndaalbúm sem barnið getur skoðað þegar það langar eða hefur þörf fyrir það.
Til að barnið geti geymt skemmtilegar og góðar minningar um manneskjuna er mikilvægt að því sé hjálpa því með að segja ,,manstu„ eða ,,svona vildi hann alltaf hafa það„ eða ,, þetta var uppáhaldsmaturinn hennar„. Þannig veit barnið að minningar eru leyfilegar.
Hvað gerum við þegar gæludýr deyr?
Það er best fyrir barnið að fá leyfi til að kveðja gæludýrið sitt áður en það er grafið. Það er hollt fyrir barnið að fá að halda sína athöfn þegar dýrið er grafið, til dæmis að biðja bæn eða syngja sálm og hægt er að gróðursetja blóm.
Talið við barnið um dauðann, leyfið því að syrgja dýrið, hægt er að útbúa myndaalbúm með myndum af dýrinu og leyfa barninu að tala um dýrið.