Dr. Edgar Mitchell er geimfarinn sem trúir á geimverur

Sjötti maðurinn til þess að stíga á yfirborð tunglsins heitir Dr. Edgar Mitchell en hann lenti þar árið 1971 með geimferjunni Apollo 14. Í dag er geimfarinn orðinn 84 ára og lítur yfir farinn veg í nýlegu viðtali við fréttamiðilinn The Telegraph.

Þar segir hann veru sína úti í geimnum hafa haft umturnandi áhrif á líf sitt, eða allt frá því að hann sá jörðina í heilu lagi; sem svífandi kúlu í geimnum.

Vildi rannsaka meðvitundina með vísindalegum hætti.

Dr. Edgar Mitchell hefur greint frá þessari mikilfenglegu upplifun sinni í geimnum í ótal viðtölum. Tveimur árum eftir heimkomu, árið 1973, setti hann á laggirnar stofnunina Noetic Science í þeim tilgangi að rannsaka meðvitund mannsins með vísindalegum hætti. Stofnunin hefur lifað góðu lífi síðan og lagt sitt að mörkum innan vísindasamfélagsins. Dr. Edgar Mitchell segir að mómentið sem breytti lífi hans verði seint afmáð úr minningunni.

„Að sjá jörðina utan úr geimnum, og sjá hversu einangruð hún er, var gríðarlega sterk upplifun. Á þessari stundu skildi ég að hver atóma eða sameind í líkamanum er kerfisbundinn efniviður eða massi sem kemur upphaflega frá stjörnu úti í geimnum. Þessi sterka upplifun sem ég fékk er kölluð „Samadhi“ á fornri Sanskrit, og er henni lýst sem yfirþyrmandi gleði yfir því að upplifa jörðina sem einingu, eða eina heild.“

Ólst upp í umdeilda bæjarfélaginu Roswell

Dr. Edgar Mitchell segist eiga rætur að rekja til Skotlands en að hann hafi alist upp á búgarði hjá bænum Roswell í New Mexico. Bærinn Roswell vakti athygli á heimsvísu þegar talið var að geimskip, eða fljúgandi furðuhlutur, hafði brotlent þar árið 1947. Segist Dr. Edgar Mitchell hafa gengið í skóla í bænum Roswell og þekkt vel til og seinna sem fullorðinn ákveðið að rannsaka málið sjálfur. Segist hann í dag vera þess fullviss um að geimverur hafi margsinnis lent hér á jörðinni með vitund yfirvalda og er óhræddur við að ræða það í viðtölum eins og sést í þessu myndbandi.

En hvað varð til þess að búgarðsdrengurinn ákvað að verða geimfari?

„Ég þráði að uppgötva heiminn. Ætt mín kom til Bandaríkjanna upp úr aldamótunum 1800 og settist að í New Mexico í kringum árið 1870 þar sem fólkið hóf sinn búskap. Ég ólst upp á framsæknu heimili sem naut velgengni. Ég man þegar ég heyrði forseta Kennedy halda ræðu þess efnis að til stæði að lenda á tunglinu í fyrsta sinn og ég hugsaði með mér; vá þetta væri fullkomið verkefni fyrir mig,“ segir Edgar Mitchell sem á þeim tíma var orðinn reyndur flugmaður. „Þeir leituðu að einhverjum með reynslu úr hernum, góða menntun, heilbrigða skynsemi og rökhugsun ásamt því að vera afreksmaður. Þeim fannst ég einfaldlega vera nógu skarpur og það reyndist mér ágætlega held ég.“

Óhugnaður gagntók geimfara árið 1967 þegar geimferjan Apollo 1 sprakk í flugtaki með þeim afleiðingum að þrír geimfarar sem um borð voru létu lífið. Dr. Edgar Mitchell segir atvikið hafa vakið upp óhug á sínum tíma en að það hafi ekki dregið úr honum kjarkinn. Þeir hafi undirbúið sig þeim mun betur.

„Við æfðum allt og eyddum miklum tíma í þrýstiklefa til þess að undirbúa okkur fyrir flugtakið. Þetta var eins og að vera í háhraða hringekju. Við gátum farið í allt að sextán sinnum hærra þyngdarafl jarðar til þess að venjast þunganum og það var frekar heví. En það hafði þau áhrif að við vorum orðnir vanir þessum áhrifum þegar flugtak hófst svo fyrir alvöru.“

En hvernig var tilfinningin að lenda á tunglinu?

„Við vissum að við myndum þurfa að fljúga í sporbrautinni umhverfis tunglið svona eins og við flugum meðfram sporbraut jarðar og að á ákveðnum tímapunkti myndum við geta lent þar. Við höfðum æft þetta margsinnis í hermigervi á jörðinni. Þetta átti að verða fullkomin lending en varð það að sjálfsögðu ekki. Radarskjárinn sem átti að leiðbeina okkur við lendinguna klikkaði og í staðinn þurftum við að finna aðrar lausnir með þessum nýja tækjabúnaði sem við vorum með.“

Geimfarar þurfa líka að borða sama hvar þeir eru staddir. Hvernig voru matmálstímarnir á tunglinu?

 „Við vorum með sérstakt fæði sem var sérhannað fyrir þessar aðstæður. Eitthvað sem mátti ekki vera subbulegt, vatnskennt eða þungt. Það kom á óvart hvað þetta bragðaðist þó vel. Þetta var ekki beint heimilismaturinn hennar mömmu en þetta var allt í lagi.“

En hafði geimfarinn eitthvað verið að hugleiða mál af andlegum toga áður en hann lenti á tunglinu?

„Við sem höfum lent á tunglingu höfum allir ákveðna reynslu í þessum dúr. En það var þetta sem kom mér á sporið með að vilja rannsaka meðvitundina þegar ég sneri aftur til jarðar. Vísindin höfðu ekki gefið henni nógu mikinn gaum og mig langaði til þess að staðsetja meðvitund mannsins einhversstaðar sem viðfangsefni innan vísindasamfélagsins. Aðskilnaður á milli efnis og huga hefur verið of mikill of lengi. Ef við horfum á alheiminn, og þess má geta að þeir geta allt eins verið fleiri en bara einn, þá hefur sýn okkar á hann breyst gríðarlega bara síðastliðin 50 ár. Við erum rétt nýfarin að séð og áttað okkur betur á því hvað leynist þarna úti.“

Heimild: The Telegraph

SHARE