Draugahús æskunnar – Raunveruleikinn var enn verri!

Jen og Tomer á brúðkaupsdaginn fyrir utan draugahúsið

Fyrir nokkrum árum síðan hringdi bróðir minn í mig eldsnemma á laugardagsmorgni. Ég vissi að eitthvað var að því hann hringdi aldrei fyrir fyrsta kaffibollann minn. Rob hafði nýlega keypt illa farið hús á Long Island, og þurfti að vinna mikið í því að gera það íbúðarhæft. Hann hafði nú þegar fundið asbest og var mjög pirraður þegar hann sagði mér það en nú hljómaði hann skelfingu lostinn. „Ég fann bein,“ sagði hann. „Grafið í bakgarðinum. Rétt við húsið. Reyndar svolítið undir því. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég held að þetta sé lærleggur.”

Hann sendi mér mynd. Beinið virtist þykkt með ávölum brúnum á öðrum endanum. Kannski leit þetta út eins og lærleggur en ég gat ekki metið stærðina á beininu út frá myndinni. Svo Rob sendi aðra mynd og á þessari mynd hélt hann á beininu með tveimur fingrum og það dinglaði fram og aftur. Ég sá þarna að beinið var minna en mér sýndist í fyrstu. „Ó, það er miklu minna en mér fannst það vera á hinni myndinni,“ sagði ég og hélt niðri í mér hlátrinum.

„Nákvæmlega,“ sagði Rob og hélt áfram: „Það er of lítið til vera úr fullorðinni manneskju.“

Ég reyndi aftur að finna skýringu: „Kannski hefur einhver verið að grafa gæludýrið sitt.“

„Þú skilur þetta ekki. Þetta var undir gömlum grunni, augljóslega hefur einhver reynt að fela það,“ sagði Rob.

Beinið fannst undir þessu húsi

Hann hafði eitthvað til síns máls. Bein sem fannst undir steypu virtist miklu meira ógnvekjandi en bein sem var bara grafið í mold. Húmorinn minn dó um leið og í staðinn sá ég ógeðslega hluti fyrir mér. Mann með grímu og skóflu og myndir af týndum börnum.

„Ó nei. Heldurðu að þetta sé bein úr barni?“ spurði ég.

„Það hlýtur að vera. Andskotinn! Hvað á ég að gera?“

„Ég veit það ekki,“ svaraði ég og fann hvernig kvíðinn laumaðist að. „Fannstu eitthvað annað?“

„Iðnaðarmennirnir eru enn að grafa,“ svaraði Rob.

Ég vonaði innilega að þeir myndu ekki finna höfuðkúpu. Eða það sem verra væri, heila beinagrind.

„Ég get ekki flutt son minn inn í þetta hús,“ sagði Rob. „Þetta gæti hafa verið heimili raðmorðingja!“

Hjartað barðist um í brjósti mínu: „Þú verður að hætta að tala við mig og hringja í lögregluna.“

„Nei takk. Þá fara þeir af stað með rannsókn sem getur tekið marga mánuði eða ár. Ég mun aldrei geta selt húsið ef það er glæpavettvangur. Við verðum heimilislaus.“

Það var á þessu augnabliki sem við byrjuðum að rífast, því mér fannst tímabundið heimilisleysi vera lítil fórn ef um var að ræða myrt barn. Ég hafði ekki beint tekið meðvitaða ákvörðun um að samþykkja allar kenningar bróður míns um beinið, en líkami minn virkjaði samúðina í taugakerfinu mínu. Tilfinningaleg samskipti við bróður minn koma oft af stað þessum tilfinningum. Það kom stingur í brjóstið á mér og mér leið eins og verið væri að leiða mig til aftöku og skyndilega varð ég aftur barn.

Rob og Jen

Börn sem ólust upp í 80´s höfðu það ekki alveg eins „gott“ og börn í dag. Foreldrar okkar létu okkur sofa í eigin rúmum, jafnvel eftir að hafa farið með okkur í myndina „Poltergeist“. Jólasveinninn gaf mér einu sinni borð fyrir andaglas og pabbi naut þess að elta okkur niður í (ókláraðan) kjallarann klæddur eins og Satan með grímu og horn. Þegar ég var 12 ára keyptu foreldrar okkar 50 ára gamalt hús í Tudor. Við höfðum ekki efni á að gera það upp svo við þurftum að sætta okkur við að loftið lak og pollar urðu til inni í þvottahúsi. Þegar vinir okkar sögðu að það væri reimt í húsinu okkar gerðum við bara grín að því.

Grín og húmor komu okkur mjög langt en gátu ekki sigrað hreina illsku, því jú, húsið okkar átti sögu mikla illsku. Faðir okkar staðfesti það eitt kvöldið og ég mun aldrei gleyma því. Áður en við fluttum inn, réðu foreldrar okkar málara til að mála innréttingar. Kvöld eitt, nokkrum vikum fyrir hrekkjavöku, krafðist pabbi að við tækjum bíltúr til að sjá hvernig málurunum gengi að mála. Þetta var að kvöldlagi og pabbi var með vasaljós því húsið var ennþá alveg rafmagnslaust. Við fórum inn og fundum lykt af málningu og það var búið að breiða yfir gólfið. Þegar við komum í stofuna lýsti pabbi á stærsta vegginn í herberginu og það var þá sem við sáum hvítan kross, á stærð við manneskju, sem var búið að mála á gráan flöt. Pabbi sagði eitthvað um að málararnir væru of trúaðir og við héldum áfram á milli herbergja, en það var málaður kross í öllum herbergjum.

Rob, sem var aðeins níu ára, vældi smá þegar við fórum upp stigann. Mamma, sem var sagði ekki orð alla þessa ferð, fór með hann út til að bíða í bílnum. Ég, sem elsta barnið, vildi láta líta út fyrir að ég væri hugrakkur og fylgdi pabba eftir. Þegar við fundum eitt herbergi sem var enginn kross í, sagði pabbi: „Þeir virðast hafa gleymt einu herbergi.“ Ég slakaði á því ef pabbi var að gera að gamni sínu hlaut allt að vera í lagi. „Já, furðufuglarnir hafa algjörlega klúðrað þessu,“ sagði ég reyndi að flissa.

„Ekki hlæja að þeim,“ sagði pabbi og slökkti á vasaljósinu. „Þeir máluðu þessa krossa til að vernda okkur.“

„Vernda okkur fyrir hverju?“ spurði ég.

Pabbi kveikti aftur á vasaljósinu og setti undir hökuna svo vasaljósið lýsti með furðulega rauðum ljóma.

„Ég skal segja þér það en þú mátt ekki segja Rob, hann er of lítill.“

Ég lofaði að segja ekki neitt.

Hann kinkaði kolli og sagði: „Það sem þarf að vera leyndarmál er að málararnir fundu bunka af Polaroid myndum, földum inni í skáp á ganginum. Þetta voru myndir af satanískum gjörningum og sú illska mun alltaf fylgja þessu húsi. Aðeins Jesús getur verndað okkur núna.“

Að þessu sögðu lýsti pabbi vasaljósinu að stiganum og við fórum niður. Ég lét lítið fyrir mér fara og hélt mig nálægt pabba. Daginn sem við fluttum svo inn átti ég erfitt með að anda. Sérstaklega á stigapallinum efst í stiganum.

Þrátt fyrir að hafa lifað af þetta æskuheimili okkar vorum við bróðir minn viðkvæm og „triggeruð“ þegar kom að öllu er tengdist heimilinu. Í þessu tilfelli var það þetta bein. Við héldum áfram að þrátta um hvað skildi gera. Á meðan á þessu stóð kom maðurinn minn, Tomer, aftur úr morgungöngunni sinni og fann mig gargandi í símann um hugsanlegan grafreit týndra manna. Ég setti Rob á hátalara. Við útskýrðum allt frá lærleggnum til siðferðilegrar rökræðu okkar. En Tomer brást lítið við þessu en yppti öxlum og sagði: „Þetta er líklega bein úr dýri“

„Nei, við höfum þegar útilokað það,“ sagði ég.

Rob var orðinn enn meira móðursjúkur.

„Þetta er ekki bara óhreint bein, Tomer. Það var undir gamalli steypu.”

Tomer lyfti varla augabrún.

„Kannski var beinið þarna áður en húsið var byggt. Við höfðum ekki hugleitt það. „Sendu mér myndina,“ sagði Tomer. „Ég mun senda það til nokkurra læknavina minna sem geta líklega sagt hvort það sé mannabein eða ekki.“

Innan nokkurra mínútna pípti sími Tomers margoft. Allir, þar á meðal bæklunarlæknir, komust að þeirri niðurstöðu að beinið væri ekki mannabein.

„Þá er þetta útrætt,“ sagði Tomer.

Rob hló í heila mínútu áður en hann kvaddi. Við höfðum ekki planað neitt fyrir daginn svo Tomer stakk upp á því að fara niður á strönd.

En ólíkt bróður mínum er ég ekki fljót að komast yfir svona umræðuefni.

„Engin strönd fyrir mig. Ég þarf að finna út úr þessu með þetta bein.“

Tomer kinkaði kolli. “Ég hélt að það væri það sem við vorum að gera.”

„Ekki beinið sjálft,“ sagði ég. „Ég þarf að finna út hvers vegna við brugðumst svona við því að finna þetta bein. Við erum greinilega óeðlileg.”

„Nei,“ Tomer hristi höfuðið. „Þið bjugguð í draugahúsi. Ef ég hefði alist upp í þessu húsi, myndi ég líka missa mig yfir að finna bein.“

Þetta huggaði mig því Tomer er þekktur fyrir að vera með mikið jafnaðargeð.

Ég sagði honum söguna af máluðu krossunum. Faðir minn lést áður en Tomer kom í fjölskylduna en hann hafði heyrt margar svipaðar sögur. Einhverra hluta vegna hafði ég sleppt aldrei sagt honum þessa sögu. Þegar ég hafði lokið við að rifja upp söguna sagði Tomer: „Ég velti því fyrir mér hversu mikið pabbi þinn borgaði málurunum fyrir að gera þetta.“

Ég skildi ekki.

„Sko. Þú hefur sagt mér að pabbi þinn var ekki mjög handlaginn og hann hefur örugglega borgað málurunum 20 dollara fyrir að gera grín í ykkur,“ sagði Tomer.

Faðir Rob og Jen

Ég hafði aldrei íhugað möguleikann á að þetta hafi verið grín, en kenning Tomers var jafnlíkleg og flest annað því pabbi hafði svo sannarlega haft gaman að því að hræða okkur. Við höfðum séð gúmmígrímuna losna og við vissum að hryllingsmyndirnar væru skáldaðar. Jafnvel andaglas borðið, var framleidd af sama fyrirtæki og gerði Monopoly og Clue. En þetta Tudor hús! Satanísk forsaga þess hefur fylgt mér í áratugi og enn þann dag í dag á ég erfitt með að sofa í gömlum húsum.

Mér fannst ég vera vitlaus og leið einhvern veginn ekkert betur með það. Ég hataði það, að eitt bein, gæti haft svona mikil áhrif á mig.

„Hresstu þig við,“ sagði Tomer. „Þú verður farin að hlæja að þessu á morgun.“

Hann hafði rétt fyrir sér. Ég gróf þessa minningu í hugann minn og fór að geta gert grín að þessu með tímanum. Ég hélt að ég myndi hafa gaman að þessu til æviloka en í einangrun vegna COVID tók beinið óvænta u-beygju.

Mig langaði mikið að fá einhverja upplyftingu og ég var örugglega ekki sú eina. Það var ekkert margt skemmtilegt þarna úti svo ég tók málin í mínar hendur. Ég varð bara að vera fyndin sjálf. Ég ákvað að fara á námskeið í skrifum á netinu. Beinasagan var sú fyrsta sem ég skrifaði og ég hafði svo gaman að henni. Ég fékk svo gagnrýni á söguna í gegnum Zoom.

Fyrst töldu þeir upp alla kostina sem skrifin mín höfðu og það var skemmtilegt. Svo hófst gagnýnin.

„Ég bara veit ekki hvernig á að lesa þetta,“ sagði einn gagnrýnandinn. „Ég hélt þetta væri gamansaga fyrst en svo var þetta bara dapurleg saga.“

Ég spýtti næstum út úr mér teinu sem ég var að drekka. Hver er svona ofurviðkvæmur og getur ekki séð húmorinn í sögunni minni?

Svo kom önnur manneskja með svipaða athugasemd. Ég hló í gegnum byrjunina en svo fékk ég samviskubit þegar ég las hlutann um hvað pabbi þinn gerði ykkur. Er þetta gamansaga eða harmleikur?

Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda og hringdi í bróður minn. Ég sagði honum að ég hefði verið að skrifa þessa sögu og hefði fengið furðuleg viðbrögð. Hann bað mig að senda sér hana og hann las hana. Hann sagði að sagan væri æðisleg og mjög fyndin, svo ég hringdi í hann aftur.

„Þetta er brjálæðislega fyndið!“ sagði Rob.

Ég svaraði: „Ég veit ekki hvernig ég á að segja þér þetta svo ég læt bara vaða. Það sem við höldum að sé fyndið, er það víst ekki. Sumum finnst sagan meira að segja svolítið sorgleg.“

„Hættu“

„Þetta er satt. Þetta minnir mig meira að segja á söguna um brunaslönguna,“ sagði ég.

Þegar við Rob vorum lítil, kannski svona 7 og 10 ára, vaknaði ég við öskur Robs um miðja nótt. Þegar ég kom inn í herbergið hans sá ég að pabbi stóð yfir honum og var að pissa yfir hann allan. Það skipti engu hversu mikið við öskruðum á hann, pabbi hélt bara áfram að pissa yfir andlitið hans, líkamann og rúmið hans. Um morguninn gerði pabbi bara grín. „Mig dreymdi að ég væri slökkviliðsmaður og væri með risastóra brunaslöngu.“

Hann hló, svo við hlógum líka. Þegar ég hafði svo sagt vinum mínum frá þessu sem voru með mér í framhaldsskóla stökk engum bros á vör. Ég hafði verið hjá sálfræðingi árum saman og sagði við Rob: „Ég hef leitað mér hjálpar í mörg ár en er samt ekki ennþá venjulegt.“

Rob andvarpaði og sagði: „Af hverju sagði hann okkur ekki bara sannleikann? Ef hann hefði útskýrt að hann hefði verið fullur, hefði það verið skárra en að ég hélt alla tíð að ég hefði átt það skilið að pissað væri á mig. Þetta var bókstaflega versta augnablik lífs míns.“

Sem börn vissum við aldrei hvað olli því að pabbi okkar væri svona mikill ofbeldismaður. Við vissum ekkert um áfengið og fíkniefnin. Við þekktum bara hnefana hans og beltið hans og svo vissum við um byssuna í skápnum inn í herberginu hans. Við tókum því við öllum útskýringum hans og því við vissum ekki betur.

Ég komst að því að við höfðum alist upp við ákveðna tegund ofbeldis sem gerði það að verkum að við leyfðum depurð aldrei að komast að. Ég gat fundið fyrir kvíða, ótta og reiði en depurð var eitthvað sem ég fann fyrir, fyrir aðra. Ekki fyrir mig sjálfa.

Að lokum var ráðgátan að mestu leyti ráðin. Við höfðum kannski aldrei búið í húsi sem var reimt í. Við héldum það bara.

SHARE