Dýrðlegir kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr

Nýjasta uppskriftin, á dásamlega sælkerablogginu hennar Tinnu Bjargar, er af kanilsnúðum með súkkulaðiglassúr. Myndirnar fá mann næstum til þess að sleikja tölvuskjáinn. Svona næstum.

Ég hvet ykkur eindregið til þess að fylgja blogginu á Facebook –  svona til þess að sjá ávallt nýjustu uppskriftirnar.

IMG_9733

Snúðadeig:

3 tsk þurrger
1/2 dl volgt vatn
2 1/2 dl mjólk
2 egg
2 tsk kardimommudropar
3 tsk sykur
1/2 tsk salt
75 g smjör
500 g hveiti
1 egg til penslunar
  • Leysið þurrger upp í volgu vatni og látið standa í 5 mínútur. Bætið saman við gerblönduna mjólk, eggjum, kardimommudropum, sykri og salti. Vigtið hveiti í aðra skál, myljið niður smjör með fingrunum þannig að það mýkist og blandið því svolítið saman við hveitið. Hellið hveiti og smjöri út í vökvann og hnoðið deigið á meðalhraða í um 5 mínútur. Deigið er tilbúið þegar engar smjörklessur eru sjáanlegar og það hnoðast upp í kúlu á hnoðaranum.
  • Athugið að það gæti þurft að bæta við nokkrum matskeiðum af hveiti ef deigið er of blautt. Setjið plastfilmu eða viskastykki yfir deigskálina og látið deigið hefast í um 1 klst. Gott er að setja skálina á volgan stofuofn en gætið þess þó að hann sé ekki of heitur. Útbúið kanilfyllingu á meðan deigið hefast.

Kanilfylling:

200 g mjúkt smjör
1 1/2 dl sykur
3 1/2 tsk kanill
  • Blandið saman í skál smjöri, sykri og kanil.
  • Fletjið snúðadeigið út í ferhyrning þannig að það verði innan við 1 cm að þykkt. Smyrjið kanilblöndu jafnt yfir útflatt deigið og rúllið því þétt upp í lengju. Skerið lengjuna í um 2 cm þykka snúða og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Penslið snúðana með hrærðu eggi og bakið þá í ofni við 180° í 18-20 mínútur. Kælið kanilsnúðana á meðan súkkulaðiglassúrinn er útbúinn.

Súkkulaðiglassúr:

3 1/2 – 4 dl flórsykur
100 g brætt smjör
2 – 3 msk kakó
2 msk vanilludropar
1 – 3 msk heitt kaffi
  • Hrærið saman flórsykri, smjöri, kakó og vanilludropum. Bætið kaffi við glassúrinn þar til hann verður hæfilega þunnur. Súkkulaðiglassúrinn á að vera nógu þunnur til þess að seigfljóta yfir kanilsnúðana. Ef hann er of þykkur eða ef glassúrinn skilur sig þá þynni ég hann út með meira kaffi eða smá meiri vanilludropum. Þannig verður súkkulaðiglassúrinn silkimjúkur og með fallegan gljáa.
  • Smyrjið 1/2 – 1 msk af súkkulaðiglassúr á miðju hvers kanilsnúðs og látið leka jafnt niður að hliðunum.

IMG_9720

Njótið með íííísköldu mjólkurglasi!

Tengdar greinar:

Pistasíu- marsipansnúðar með hvítu súkkulaði

Fljótlegir Kanilsnúðar – Uppskrift

Finnskir kanilsnúðar – Uppskrift frá Lólý

SHARE