Ég á líf – ég á líf – Grein um ADHD

Fyrir ári síðan hafði aldrei hvarflað að mér að ég ætti eftir að söngla þess orð hér fyrir ofan með gleði í hjarta og bros á vör.

Fyrir ári síðan grunaði mig ekki að ég væri illa haldin af ADHD og öll vanlíðan mín væri til vegna ofvirkni og athyglisbrest.
Ég kenndi einhverfu minni um alla vanlíðan og viðbjóð sem ég hafði gengið í gegnum frá fæðingu. Lífið mitt skorti alla gleði og vellíðan. Ég var fangi í eigin líkama, án þess að finna nokkra undankomuleið. Að vera kyrr, horfa á sjónvarp, lesa og slappa af var eitthvað sem mig dreymdi um en hafði ekki eyrð í. Ég keyrði um götur Reykjavíkur marga klukkutíma á dag til þess að halda mér á ferðinni því nær ómögulegt var fyrir mig að vera bara heima í afslöppun.

Hugsanirnar voru eins og hávært fuglabjarg. Ég gat ekki sorterað hugsanirnar nægilega vel til þess að klára verkefni og halda skipulagi. Ég hljóp um í algerri móðu reynandi að sinna frumþörfum mínum, barni og starfi. Ég hélt að ég væri skert andlega og gæti þess vegna ekki verslað í matinn fyrir vikuna, átt pening í enda mánaðar og sinnt þeim skyldum lífsins sem aðrir gátu svo auðveldega.

Eftir að ég fékk greiningu um ADHD hjá lækni mínum breyttist lífið mitt til muna. Ég fékk concerta lyfjagjöf, lyfjagjöf sem sonur minn hafði verið á í eitt ár. Ég var mjög treg að taka fyrstu töfluna enda gersamlega komin með viðbjóð á geðlyfjum til þess að lifa daginn af. Fordómar mínir fyrir lyfinu voru slíkir að ég hafði misst allt álit á mér sem móðir að pína lyf ofan í son minn að beðni barnalæknis og skóla hans.

Ég mun aldrei gleyma þeim degi sem ég tók concerta í fysta skipti. Allt í einu var ég til, mér leið vel og gat lifað í sátt við sjálfa mig og aðra. Ég fór að geta dundað mér tímunum saman, verslað í matinn fyrir vikuna, eldað mér kvöldmat sem ég hafði aldrei áður gert. Ég byrjaði að vera stelpan sem mig langaði alltaf að verða, róleg, skapgóð og laus við allann ofsakvíða sem hafði fylgt mér sem skuggi frá því að ég man eftir mér.

Allir geðrænir þættir sem ollu vanlíðan hurfu og ég hugsaði með mér að ég hlyti að hafa dáið – án þess að gera mér grein fyrir því. Að líða svona vel gæti ekki staðist, ég hlaut að vera komin til himnaríkis.

Í dag rúmum þremur mánuðum eftir að ég hóf lyfjagjöf með concerta hlakka ég til þess að vakna hvern dag. Mér þykir vænt um lífið mitt og nýt þess til hið fyllsta að byrja lífið upp á nýtt baðað vellíðan og streituleysi.

Þegar ég les um fordóma gegn ADHD lyfjagjöf þá verður mér íllt. Bara ef ég gæti lýst hversu mikil breyting lyfjagjöf er fyrir þá sem eru haldnir ADHD.

Ég er þakklát fyrir að hafa lifað af öll þessi ár án lyfsins því ég er ekki viss um að ég gæti endurtekið þau ár aftur án lyfjagjafar. Ég myndi frekar vilja deyja heldur en vera tekin af þessu lyfi. Lyfið er jafn mikilvægt fyrir mig og næring, loft í lungun og hjartsláttur.

Þó svo að concerta eða önnur lyf séu örvandi lyf, jafnvel skild amfetamíni þá verka þau ekki sem slík fyrir ADHD einstaklinga. Concerta virkar sem róandi á þá sem lifa með ADHD – það hægir á heilastarfsemi og eikur því lífsgæði, rökhugsun, skipulag og fleirra. Við tökum lyfið með þeim tilgangi að fá þá ró sem öðrum er sjálfsægð.

Afhverju lyfið hefur þessa öfugu verkunn á heilkennið veit ég ekki. Ég er ekki að sökkva mér ofaní lestur fræðirita sveitt yfir hönnun og samsettningu lyfjanna. Mér líður vel á lyfinu og það veitir mér þau gæði lífs sem ég óska mér og barni mínu. Að einhver skuli vera með fordóma fyrir því að aðrir sækjast eftir sjálfsagðri vellíðan með einni töflu á dag er mér ráðgáta nú þegar ég hef sjálf gengið í gegnum þessar raunir.

ADHD skerðir lífsgæði – þess vegna ættum við að vera þakklát fyrir þetta lyf sem hjálpar fólki til þess að öðlast þau gæði lífs til þess að verða fyrirmyndarborgarar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here