„Ég á það til að vera ótrúlega kaldhæðinn“

Trúbadúrinn Svavar Knútur hefur lengi glætt hjörtu landsmanna með angurværum dægurlögum. Hann þykir lunkinn textasmiður og hefur verið ófeiminn við að tjá sig um málefni líðandi stundar.

Kúkabrandarinn aukaatriði

Mörgum þótti Svavar Knútur hitta naglann á höfuðið í ræðu sinni sem hann hélt á mótmælum við Austurvöll í gær. Gagnrýndi hann þar meðal annars vopnavæðingu lögreglunnar, húsnæðismarkaðinn og dræmt heilbrigðis- og menntakerfi.

„Ég held að fólk sé bara orðið þreytt, pirrað og reitt og vanti jákvæða útrás fyrir reiði sína. Það segir líka sitt að það eina sem ákveðnir aðilar gátu tekið út úr ræðunni minni, og því sem ég sagði á líklega 30 mínútum af alls konar viðtölum og ræðu og svo framvegis, sé einn kúkabrandari. Það segir sitt um ástandið líka,“ segir Svavar Knútur og skellir upp úr í samtali við Hún.is

Segist eiga það til að vera dónalegur

Söngvarinn blótaði talsvert á meðan á ræðuhöldunum stóð og var auðsýnilega mikið niðri fyrir. Eitthvað sem fór fyrir brjóstið á nokkrum. 

„Ég er kallaður kærleiksbjörn fram og til baka. En maður er ekki bara eitthvað eitt. Kærleiksbjörninn á sér dónahliðar og ég á það til að vera ótrúlega kaldhæðinn og dónalegur, líka heima. Dætrum mínum finnst það yfirleitt æði og eldri dóttir mín er svo sannarlega ekki verri manneskja fyrir vikið að stundum breytist pabbi hennar í Kolbein Kaftein. Ég hef alltaf verið orðljótur og nett dónalegur og það kemur fólki stundum í opna skjöldu, því ég er náttúrulega kærleiksbangsi og það er svo fyndin mótsögn í því.“

Á von á þriðja barninu í desember

Svavar Knútur býr ásamt konu sinni Líneyju Úlfarsdóttur og tveimur dætrum þeirra í Reykjavík. Nú er von á aukningu í fjölskyldunni enn lítill sonur er væntanlegur í heiminn í desember.

„Ég hlakka til að bæta smá Y-litningi við í húsið svo að ég geti alið upp son sem kann að bera virðingu fyrir fólki, dýrum og náttúrunni og hegðað sér eins og siðmenntuð manneskja. Það er mikið skemmtilegt verkefni.“
.
Getur ekki hugsað sér að fara út í pólitík
.
Síðustu ár hafa verið viðburðarrík hjá Svavari Knúti en hann hefur farið reglulega í tónleikaferðir um Evrópu og er einn af skipuleggjendum Melodica Festival sem er tónlistarhátíð gítarsöngvara og var haldin í Reykjavík í ágúst síðastliðinn. En hefur söngvarinn einhver áform um að snúa sér að pólitík?
.
„Aldrei! ALDREI! Ég er tónlistarmaður og ég elska það og ætla svo sannarlega ekki að flækja líf mitt með svoleiðis bulli. Framundan er bara áframhaldandi gleði og spilerí. Ætla að klára að semja lög fyrir næstu plötu og bara vera hamingjusamur tónlistarmaður. Ég er alveg í skýjunum yfir lífinu okkar þessa dagana,“ segir trúbadúrinn í léttum dúr að lokum.
.
SHARE