„Ég ætla ekki að drepa mig!“

Pete Davidson sagði frá því á Instagram að hann hafi ekki átt sjö dagana sæla eftir að hann og Ariana Grande hættu saman.

„Ég hef haldið mér saman. Ég hef ekki nefnt neinn á nafn um nokkurn hlut. Ég er að reyna að skilja af hverju allur heimurinn þarf að tala illa um mann sem hefur lent í einhverju, án þess að hafa neinar staðreyndir um málið. Sérstaklega þar sem við lifum í samfélagi þar sem fólk elskar að vera móðgað og fúlt út í aðra,“ segir Pete í færslunni.

Pete og Ariana hættu saman í október, stuttu eftir að þau trúlofuðu sig. Eftir það fóru nettröllin af stað og héldu fram að hann hefði verið vondur við Ariana og gerðu grín að útliti hans. Pete hefur átt við geðræn vandamál í gegnum tíðina og hefur alltaf talað opinskátt um það.

„Mig langar bara að þið vitið að það skiptir engu máli hversu mikið internetið eða einhver einstaklingur reynir að fá mig til að drepa mig, ég ætla ekki að gera það. Ég tek það meira að segja nærri mér að þurfa að segja þetta. Til ykkar sem hafið haldið aftur af mér og hjálpað mér að sjá hvað er í gangi hérna – Ég sé ykkur og ég elska ykkur.“

 

SHARE