Ég ætla í magaermi í Póllandi

Ég ætla að fara til Póllands þann 14. febrúar á vegum HEI Medical Travel á Íslandi og ég ætla að snúa heilsu minni í rétta átt.

Hér er hægt að skoða heimasíðuna þeirra, en eftir að hafa skoðað og kynnt mér þessi mál leist mér best á Hei Medical Travel.

Af hverju?

Síðastliðin ár hef ég átt í þeim vanda að það hefur hlaðist utan á mig spik og nú er ég komin í verulega offitu sem er bæði erfitt og óhollt.

Ég var alltaf grönn og svo bara sprakk ég út eins og flóðhestur. Það sem ég get tengt við þessa fitusöfnun eru aðallega þrjú atriði: Áföll, ég hætti að reykja og byrjaði á breytingaskeiðinu. Því það vita þeir sem þekkja mig að ég hreyfi mig og borða hollt fæði, jú jú einstaka sinnum sukk en ekkert meira en aðrir.

Mér hefur ekki liðið vel í eigin kroppi þó ég hafi alveg reynt eins vel og ég get að elska öll mín aukakíló, þá er staðreyndin sú að öll þessi aukakíló valda manni bæði vanlíðan og erfiðleikum við daglegar athafnir. Hlutir eins og að reima skó og ganga upp í móti með alla þessa auka þyngd, geta valdið mér erfiðleikum. Ég sem elska að ganga fjöll og hef burðast með öll mín kíló upp og niður heilmörg fjöll, sé það fyrir mér að njóta þess að fara í fjallgöngu léttari og njóta þess vegna til fulls en ekki vera nær dauða en lífi á leiðinni upp.

Það er líka erfitt að fá fatnað sem maður fílar og allavega mér tekst ekki að ná innri sátt við öll þessi kíló svo ég nýt mín ekki á mannamótum og fleira í þeim dúr. Jú, ég veit þú þarft að elska þig eins og þú ert og allt það en vitið þið, það er bara alls ekki svo einfalt. Ég elska mig og finnst ég flott kona en einhvernveginn get ég engan veginn elskað aukakílóin sem valda mér erfiðleikum á svo marga vegu.

Að vera 161 cm á hæð og 107 kg er ekki að ganga. BMI 43 nei það er beinlínis óhollt.

Ákvörðun tekin

Eftir að ákvörðun var tekin hafði ég samband við Hei og fékk dásamlegar viðtökur, pantaði mér flug og er svo heppin að hafa fylgdarkonur.

Auðvitað kemur svona smá kvíði þegar ég hugsa um svæfinguna og aðgerðina en það eina sem ég hef heyrt um spítalann KCM Clinic er jákvætt. Ég þekki nokkuð af fólki sem hefur farið þangað í allskonar aðgerðir og allir tala um framúrskarandi þjónustu og hreinlæti. Auk þess sem ég heyri alla segja sömu setninguna „Ég fékk nýtt líf!“

Ein af ástæðum þess að ég ákvað að stökkva á þetta eru nýju klínísku leiðbeiningarnar frá Landlækni. Þar er magaermiaðgerð nefnd sem efnaskiptaaðgerð til að nýta sem úrræði fyrir fólk í ofþyngd til að draga úr líkum á því að það þrói með sér sjúkdóma tengda offitu. Einnig hef ég kynnt mér aðgerðina vel, horft á hana live á Youtube og lesið rannsóknir og fleira enda svolítið nörd inní mér.

Trúið mér, ég er heppin, að vera fílhraust. Ég er að vísu með of háan blóðþrýsting og vefjagigt en ekki neitt annað. Ég geri mér hinsvegar fulla grein fyrir því að ég er korter í offitusjúkdóm og NEI mig langar ekki að verða sjúklingur. Ég vil njóta efri áranna enda yngjumst við ekki. Auk þess hafa fleiri en einn og fleiri en tveir læknar hvíslað því fallega að ég þurfi að létta mig.

Ég er það vel gift að maðurinn minn, sem berst við sinn 4. stigs krabba, sagði bara „þú ferð og fjárfestir í heilsu þinni það er ekki spurning, við kljúfum þetta einhvernveginn fjárhagslega og það er helmingi ódýrara að fara út en gera þetta hér heima.“ Það er alveg nóg að hann sé að takast á við alvarleg veikindi og með því að hugsa um mína heilsu er ég betur í stakk búin til að vera til staðar fyrir hann.

Ég hef ákveðið að leyfa lesendum hun.is að fylgjast með ferlinu og mun því reglulega skella inn pistlum, setja á instagram hun.is og eflaust snappa líka á hun_snappar.

Svo „stay tuned“ eins og við segjum á enskunni eða fylgist með!

SHARE