„Ég beitti sjálfur andlegu ofbeldi“ – Vitundarvakning um andlegt ofbeldi í samböndum

Vitundarvakning um andlegt ofbeldi í samböndum

Á mínu 21 ári hef ég heyrt minnst á “andlegt ofbeldi” sjaldnar en ég get talið á fingrum annarar handar. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar einhver í vinahóp mínum á Facebook deildi hlekk á grein þar sem fjallað var um hvað andlegt ofbeldi væri í raun og veru og í hverju það felst.
Það var þá sem ég áttaði mig á því að síðastliðna 6-7 mánuði hef ég óafvitandi beitt kærustu mína (nú fyrrverandi) andlegu ofbeldi.
Það eru liðnar nokkrar vikur síðan hún bað mig um að breytast af því að henni liði ekki vel og benti mér á hvernig ég hagaði mér. Ég áttaði mig á því og við fórum saman yfir það hvað þyrfti að betrumbæta og ég fór samstundis í það af heilum hug að vinna í sjálfum mér og fyrsta skrefið var að ég áttaði mig á því hvað ég væri að gera sem var að særa hana. Elskuleg tengdamamma mín átti við mig orð og benti mér á lista sem sundurliðaði hvað hamingjusamt fólk gerði sem gerði það svona hamingjusamt. Ég fór samstundis að gera þessa liði að mínum reglum og lifði eftir þeim af heilum hug. Sem dæmi má nefna að á þessum lista var að erfa ekki hlutina og láta litlu hlutina ekki fara í taugarnar á sér. Þetta var virkilega stórt fyrir mig vegna þess að fram að þessu var þetta nánast skilgreiningin á mér. Ég lét allt þetta litla sem skipti engu máli fara óstjórnlega í taugarnar á mér og út frá því hafði ég VIRKILEGA stórt skap sem leiddi mig oft til þess að kýla steypta veggi eða gegnheilar hurðir og í rauninni bara gersamlega tapa því litli viti sem ég virtist hafa.

Þessu varð að linna og ég vissi það.

Ég vann virkilega í mínum málum og síðastliðnar þrjár vikur hef ég lagt eins hart af mér og ég get til þess eins að vera betri maður, vera maðurinn sem hún féll fyrir.
Ég les svo þessa grein fyrir 2 dögum sem var mesta vitundarvakning sem ég hef fengið á ævinni. Ég sá sjálfan mig og hegðun mína svart á hvítu. Ég sá að samskipti mín við hana voru skólabókardæmi um andlegt ofbeldi. Í þessari grein voru nefnd “7 merki um það að það sé andlegt ofbeldi í sambandinu”. 6 þeirra áttu við um mig.

1. Vill alla þína athygli, ALLTAF
2. Talar illa um vini þína
3. Lætur þig einangra þig frá þínum nánustu
4. Vill alltaf vita hvar þú ert
5. Notar þagnarmeðferðina á þig
6. Særir tilfinningar þínar og gerir lítið úr þér
7. Afbrýðisemi út í alla sem í kringum þig eru

Ég hét sjálfum mér að þetta væri komið nóg. Það var aldrei viljunin að særa hana eða beita hana andlegu ofbeldi. Þessvegna er sjötti liðurinn sá eini sem átti ekki fyllilega vel um mig. Ég myndi aldrei gera neitt viljandi til að brjóta hana niður. Hún var mér allt og ég mun alltaf elska hana.
Það var ekki fyrr en núna að ég átta mig á þessu, en því miður, þá er það of seint. Í gær kom hún til mín og sagði mér að þetta væri búið. Vinnan sem ég er búinn að vera að leggja í sjálfan mig er ekki nóg vegna þess að holan sem ég er búinn að grafa er orðin of djúp og hún treystir ekki á það að ég muni nokkurntíman ná að fylla upp í hana. Ástæðan fyrir því að þessi grein er öll í þátíð er sú að þetta eru liðnir hlutir. Ég er breyttur maður og ég er enn að breytast meira og meira með hverjum deginum til hins betra. Það er ekki fyrr en núna sem ég átta mig á því að þetta orsakaði líka enda síðasta sambands sem ég var í sem lauk fyrir tæpum 2 árum. Núna er nýtt upphaf hjá mér. Ég hef heitið sjálfum mér því að þetta er ekki manneskjan sem ég er og ekki manneskjan sem ég mun nokkurntíman verða aftur.
En ég kemst ekki hjá því að spyrja mig: af hverju er manni kennt nánast frá blautu barnsbeini um líkamlegt heimilisofbeldi og hvert á að leita þegar það gerist en aldrei, ALDREI hef ég heyrt um það að maður sé fræddur um andlegt ofbeldi í samböndum? Af hverju er þetta ekki partur af því að alast upp rétt eins og það að læra um býflugurnar og blómin? Af hverju heyrir maður stundum um líkamlegt ofbeldi en það er aldrei talað við mann um það andlega þegar það er alveg jafn slæmt ef ekki verra?

Ég get ekki vonast til þess að fá hana aftur þrátt fyrir að hafa lofað henni eins oft og ég get að ég er breyttur maður, að ég sé að breytast og að tímarnir framundan verða betri en allar þær bestu stundir sem við höfum átt fram að þessu. En það sem ég get vonað er að þetta verði til þess að fleiri þarna úti átti sig á hlutunum og grípi í taumana hjá sjálfum sér. Fleiri eins og ég var. Ef ég get fengið bara einn aðila til að lesa þetta og vinna í sínum málum, þá er ég sáttur.

Einn daginn.

 

SHARE