“Ég bið þig fyrirgefningar, fyrrverandi skjólstæðingur sem ég hjálpaði að léttast of mikið. Og ég horfði á þig bæta því öllu og meiru til á þig því það gerist þegar maður fær bara 1200 hitaeiningar daglega!”

Þessa grein rakst ég á inn á HuffingtonPost. Greinin er eftir Iris Higgins. Hún birti bréf þar sem hún bað alla fyrrum skjólstæðinga sína afsökunar. Hún hafði unnið hjá fyrirtæki sem sérhæfði sig í að leiðbeina fólki með að létta sig. Hún var því alltaf að segja fólki að fara í megrun, það var hennar starf. Hér skrifar hún einlæga afsökunarbeiðni til allra fyrrum skjólstæðinga sinna og mér fannst nauðsynlegt að leyfa lesendum okkar að lesa þetta bréf. Skilaboðin í þessum pistli eru góð en hér talar hún um megrunaráráttu nútímasamfélags og þrýstinginn sem konur eru undir að vera grannar. Þetta er að mínu mati algjör skyldulesning.

Ég vann í  þrjú ár hjá fyrirtæki þar sem fólki var leiðbeint með að létta sig. Mér líkaði þessi vinna mjög vel og þótti vænt um skjólstæðinga mína. Mér þótti dásamlegt að kynnast þeim og kenna þeim það sem ég kunni.   Ég lærði heilmikið um næringu og matarkúra og það að léttast, hvað ber árangur og hvað ekki.  Ég átti að gefa fólki ráð svo að það léttist og ég var góð í því starfi. Það er ekkert mál fyrir  mig að setja saman matarkúr með 1200 hitaeiningum á dag, ráðleggja hvaða  æfingar væru vænlegastar til að fólk léttist og hvað er mikið af kolvetnum í einum bolla af hrísgrjónum. Ég kann alveg að tala um megrun eins og kunnáttumaður því að ég er kunnáttumaður!  Borðaðu bara nóg af grænmeti. Láttu ekki líða langt á milli mála. Fáðu þér súpu. Drekkurðu nóg vatn? Æfðirðu í morgun? Æfðirðu nokkuð of mikið? Nú skulum við líta á matarlistann þinn.

Þetta er ekki pistill skrifaður á móti fyrirtækjum sem segja fólki til að grennast (þó að ég gæti alveg skrifað þannig pistil). Þetta er bréf til allra þeirra kvenna sem ég ómeðvitað beitti rangindum. Ég finn fyrir kvíða meðan ég er að skrifa þetta en ég veit að það er nauðsynlegt að segja þetta. Ég hef verið að hugsa um þetta mánuðum saman. Stundum þarf ég bara langan aðdraganda til að fá hugrekkið til að segja það sem segja þarf.

Og þetta þarf ég að segja:

Kæru fyrrverandi skjólstæðingar mínir (þið vitið hverjar þið eruð)

Fyrirgefið mér.

Ég sagði ykkur að neyta aðeins 1200 hitaeininga á dag og fullyrti að það væri hollt. Ég biðst fyrirgefningar af því að þegar þið voruð að hlaupa fimm sinnum í viku sagði ég ykkur að bæta við ykkur  300 hitaeiningum en þið hefðuð átt að borða miklu meira. Ég biðst fyrirgefningar af því að þegar þið voruð með barn á brjósti og ég sagði ykkur að neyta aðeins 1700 hitaeininga á dag var það allt of lítið fyrir þig og barnið þitt.  Ég biðst fyrirgefningar af því að ég sagði ykkur svo margt rangt og beinlínis hættulegt og hafði ekki hugmynd um þann skaða sem ég var að gera líkama ykkar. Ég hefði átt að vita betur. Ég hefði átt að mennta mig betur áður en ég fór að segja ykkur hvað væri gott og hvað ekki fyrir líkama ykkar. Ég bið ykkur að fyrirgefa mér að þegar ég var hætt að vinna þarna og vissi orðið betur þagði ég allt of lengi.

Árum saman var ég á 1200-15oo hitaeininga mataræði og hef reynt skaðann á sjáfri mér. Skaðinn var m.a. í truflun á starfsemi skjaldkirtilsins, skapsveiflum, depurð, höfuðverkjum og glutenóþoli sem byrjaði þegar ég hafði um hríð verið að borða tilbúna megrunarfæðu. Var ÞAÐ tilviljun? Ef til vill.

Og þú, gullfallega kona sem komst grátandi til mín af því þér fannst þú svo ömurleg, það gæti enginn litið á svona fituhlussu. Hinar konurnar spurðu af hverju þú værir að koma á svona stað því að þær sáu þig eins og þú varst og ert, falleg og glæsileg. Þú þurftir að fara í meðferð hjá sálfræðingi en ekki í megrun. Ég bið þig að fyrirgefa mér að ég skyldi ekki segja þér það.

Ég bið þig sem komst hingað af því að mamma þín sendi þig, svo unga og fallega en henni fannst að þú ættir að grenna þig. Og það eru allt of margar í þínum sporum, stúlkur í fínu lagi og ánægðar með sig en mæður þeirra ræna þær áhyggjuleysi  æskunnar og reka þær í megrun.  Og þegar ég loksins hafði manndóm til að ræða um þetta við mömmu þína fór hún bara með þig til annars ráðgjafa. Ég hefði átt að láta til mín taka en ég gerði það ekki. Ég bið þig að fyrirgefa því að þú varst að hefja menntaskólanám og varst í íþróttum og ég vona að þú hafir þraukað á 1500 hitaeiningunum. Fyrr má nú rota en dauðrota!  Ung stúlka kemur í stöðina til þín, er alls ekki feit og líkaminn hraustur.  Hún segist vera hlaupari og er ánægð með sig en mamma hennar segir henni að hún sé of feit og hún þurfi að grenna sig og við hjálpum henni til þess.  Og við, ég sem er kona, fyrirtækið sem ég vinn hjá, fjandinn hafi það samfélag  okkar- við styðjum ekki við bakið á þessari stúlku- þessum stúlkum- og verjum þær. Þetta er einfaldlega ekki í lagi. Bara alls ekki.

Ég bið þig fyrirgefningar af því að þegar þú borðaðir eitthvað sem þú „hefðir ekki átt að borða“ eða þegar þú borðaðir meira en en þú „hefði átt að borða“ talaði ég um að þú yrðir að fara að standa þig. Það fer hrollur um mig núna þegar ég hugsa um þessi orð. Hvenær fór það hvernig við borðum að tengjast því að standa sig?  Hvenær fór fólk eiginlega í hópum að hætta að borða og varð að faglegum megrunarhetjum?

Ef við sveltum okkur og neytum færri hitaeininga en líkaminn þarf bregst hann við. Ég hélt einu sinni að 1200 hitaeiningar væru nægilegar fyrir líkamann. Ég var ekki viljandi að ljúga að þér til að hafa þig í hópi hjá mér og ná af þér námskeiðsgjaldi.  Ég var ekkert betur upplýst en þú, ég trúði lygunum sem er haldið að okkur.

Það var ekki bara fyrirtækið sem ég vann hjá sem hélt lygunum að mér. Það gerðu líka læknar og næringarfræðingar sem störfuðu með læknateymum.  Sömu upplýsingar voru í fjölmiðlum og glanstímaritum og þær studdu við það sem ég fræddi skjólstæðinga mína um. Það var alveg nóg að borða lófastóran bita af kjúklingabringu, hálfa sæta kartöflu og salat.  Það var alveg sama þó að þig sárlangaði í meiri mat. Það benti bara til að tilfinningalíf þitt væri ekki í lagi. Það var alveg klárt!  Málið er að það getur vel verið nema þegar svo er ekki.  Nema þegar löngunin er af því að líkaminn þarf meiri næringu og fær hana ekki. Hún er af því að 1200 hitaeiningarnar eru bara kjaftæði. Þú varst nefnilega plötuð.

Og þess vegna er ég afar leið. Það var logið að mér árum saman eins og líka að þér og ég tók þátt í lygunum án þess að ætla mér það. Það eru lygar að maður geti ekki verið heilbrigður nema vera líka grannur. Það eru lygar að þú sért ekki í lagi eins og þú ert, að líkami þinn sé ekki dásamlegt listaverk heldur eitthver leirklumpur sem á að móta eftir gildismati samfélagsins þangað til hann verður að staðlaðri styttu. Og samt heldur mótunin áfram þó að þú hafir náð markinu.

Ég bið þig fyrirgefningar, fyrrverandi skjólstæðingur og núverandi vinur, sem ég hjálpaði til að léttast alltof mikið. Og ég horfði á þig bæta því öllu og meiru til á þig aftur því að það gerist þegar maður fær bara 1200 hitaeiningar daglega.   En ég vissi það ekki. Ef þú lest þetta núna bið ég þig að hlusta á mig og trúa mér að þú hefur alltaf verið falleg. Og allt þetta kjaftæði um megrunarfæði er rugl sem riðlar og ruglar brennslu líkamans og fólk ánetjast því.

Líklegast var ég mjög fínn starfsmaður því að ég hjálpaði ykkur til að léttast og þyngjast svo aftur. Þið hélduð að þig gætuð þetta ekki, væruð taparar og yrðuð að vera undir okkar handarjaðri og komuð aftur til okkar, voru fastar í gildrunni. Líklegast var ég mjög góður starfskraftur!

Ég velti því fyrir mér hvort ég hafi í sannleika unnið meiri skaða en ég gerði nokkurn tíma gott. Þegar ég hætti senduð þið mér blóm og falleg kort. Ég á kortin enn og á þeim stendur að ég hafi hjálpað ykkur og hugsað svo vel um ykkur. Og nú hef ég fésbókarsamband við sumar ykkar og skoða myndir af ykkur þar og sé að þið eruð hamingjusamar.  Og þið eruð fallegar- ekki af því að þið hafið grennst frá því ég sá ykkur síðast heldur  af því nú sé ég ykkur, ÞIG, manneskjuna. ÞIG.  Þú ert ekki skjólstæðingur á skrifstofunni hjá mér að biðja mig um hjálp svo að þú getir orðið eins og samfélagið heimtar að þú verðir. Ég sé þig, greinda og fallega konu sem hefur enga þörf fyrir tíma hjá einhverri ókunnri mannseskju sem segir henni að hún sé ekki alveg í lagi og þurfi að bæta úr því.
Þess vegna er ég leið og full eftirsjár því að þegar þú komst til mín til að fá leiðbeiningar um sveltið hefði ég átt að segja þér að þú værir falleg.  Ég hefði átt að spyrja þig hvernig þér liði. Leið þér vel? Varstu hraust? Gastu leikið við börnin þín? Svo margar ykkar sem komuð þurftuð alls ekki að léttast og nokkrar hefðu mátt þyngjast. Ef til vill sagði ég einhverjum ykkar það en ekki nógu mörgum og ekki af sannfæringu. Ég var nú einu sinni í vinnu við að sannfæra þig um það að æðsta markmið þitt væri að láta vigtina fara niður á við. Og ég var góður starfsmaður.

Ég biðst fyrirgefningar af því þið komuð margar til mín hraustar en fóruð með átröskun og laskaða sjálfsmynd því að ykkur fannst þið hafa tapað. Þið töpuðuð engar.  Aldrei. Ég brást ykkur, fyrirtækið sem ég vann hjá brást ykkur og samfélagið okkar er enn að bregðast ykkur.

Borðið þið bara. Borðið hollan mat og hreyfið ykkur og lifið lífinu. Hugsið ekki um allt þetta megrunarrugl. Það er hvort sem er ekkert annað en rugl. Tómt rugl.

Ég get ekki stöðvað það en ég get hætt að taka þátt í því. Ég leik ekki þessa megrunarrullu framar. Ég geri líkama mínum það ekki og ég aðstoða þig ekki við að fara þannig með líkama þinn. Þannig er það.

 

Hér getur þú séð pistilinn á frummálinu.

SHARE