Ég er bara ógeðslega þreytt, má það?

Eitt af því sem við aðstandendur krabbameinssjúkra, já ég er viss um að fleiri upplifa þetta en ég, eru viðbrögð fólks.

Ef ég er spurð að því hvernig ég hafi það og ég segi:

„Ég er ógeðslega þreytt bara“

Í stað þess hefbundna:

„Allt fínt“

Þá ýmist fyllist andlit viðkomandi af meðaumkunarsvip og ég fæ eitthvað svar á þá leið:

„Æi þú ert undir svo miklu álagi“

Eða viðkomandi sýnir af sér mikla hneykslun yfir því að ég skuli yfirleitt vera að kvarta, það sé ekki ég sem er með krabba heldur makinn og þetta sé nú leið til að fá meðaumkun út á það.

Staðreyndin er sú að það tekur á að vera maki krabbameinssjúklings og það tekur á að vera krabbameinssjúklingur og þessa stöðu getur fólk ekki skilið til fulls nema með því að vera í henni.

Ekki það að ég vilji vera með leiðindi en stundum vildi ég bara að fólk leyfði mér að vera sjálfstæð eining með þær tilfinningar og þá líðan sem ég upplifi.

Suma daga þá nenni ég þessu hreinlega ekki, finnst þetta bara ógeðslega fúlt, leiðinlegt og ósanngjarnt.

Stundum er ég svo þreytt að ég orka ekki að setja í þvottavél og heimilið huggulegt eftir því.

Mér hefur líka þótt rosalega gott að taka frí frá þessu hlutverki með því að heimsækja vinkonu mína sem býr í Danmörku, það er svo magnað að þá hef ég orðið vör við að fólk er að velta sér upp úr því hvort ég hafi efni á þessu fjárhagslega.

Suma daga langar mig bara ekki að vera meira með í þessari tilveru, það er einfaldlega of sárt og of vont  að horfa á manninn sem ég elska og hef elskað í 26 ár takast á við veikindinn og smám saman missa þrótt, berjast við að halda í lífslöngun og allt annað sem hann þarf að takast á við.

Það koma líka góð tímabil þar sem ég sé hvað ég hef lært af þessu og hvernig þroskin hefur gefið mér ný og dýpri gildi.

Við hjónakorn höfum lagt mikið í það að njóta samverunnar og lifa í dag, því við gerum okkur grein fyrir því að það er ekkert öruggt að það sé morgundagur.

Ég hef líka fengið að njóta þess að sjá hvað ég á frábæra samferðafélaga í þessu lífi sem hafa verið til staðar án dómhörku eða meðaumkunnar.

Fólk sem hefur rifið mig út að hlæja þegar ég er niðurlút og hvatt mig til að hafa náttfatadag þegar ég er þreytt og þar sem innihaldið er að minna mig á að njóta lífsins og setja mig í fyrsta sæti.

Já fyrsta sæti og ég er ekki krabbameinssjúklingurinn!

Alla vega ég þarf ekki neina vorkun, né dómhörku.

Lífið er bara eins og það er og líkt og hjá öllum er það stundum drulluerfitt en svo bjart og falleg líka.

Leyfi einni af minni uppáhaldsetningum að loka þessum hugleiðingum.

Lifðu og leyfðu öðrum að lifa.

 

 

SHARE