,,Ég er enn í dag að vinna úr þeirri sorg sem fylgir því að missa barn og mun líklega vera að því alla mína ævi.”

Hrannar Már Sigrúnarson birti eftirfarandi pistil á Facebooksíðu sinni á síðasta laugardag. Skrif Hrannars vöktu áhuga minn og fékk ég góðfúslegt leyfi hans til þess að birta þau hérna hjá okkur á hun.is.

,,Það er búið að vera svo mikið í umræðunni að bólusetningar geti valdið einhverfu og ég hugsaði ansi mikið um það í gær á degi einhverfunnar –  þar sem að sonur minn, Askur Óli, er einhverfur. Getur verið að hann hafi orðið einhverfur vegna þess að hann hefur fengið allar þær bólusetningar sem að talið sé að eru nauðsynlegar? Askur Óli getur stundum verið mjög krefjandi en yfirleitt er hann mjög ánægður og ljúfur drengur sem að veitir mér mikla hamingju. Það fer mjög mikil vinna í það að vinna með hann og að hjálpa honum að vinna á einhverfunni.

En hefði ég viljað skipta á því að vita að hann yrði ekki einhverfur og sleppa því að bólusetja hann? Svarið við því er mjög einfalt NEI. Að sleppa því að bólusetja barn getur verið hættulegt og boðið heim hættunni á því að barnið smitist af lífshættulegum sjúkdómum.

Ég er í þeirri stöðu að hafa einnig misst barn og get því sett mig bæði í þau spor að missa barn og eiga barn með einhverfu. Dóttir mín, Embla Rut, lést rétt fyrir tveggja ára afmælið sitt í janúar 2002. Ég er enn þann dag í dag að vinna úr þeirri sorg sem að fylgir því að missa barn og mun líklega vera að því alla mína ævi.

Ég get unnið með Ask Óla og hjálpað honum að vinna á einhverfunni og ef allt gengur að óskum mun hann kannski eiga eins eðlilegt og gott líf og kostur er á. Það eina sem að ég get unnið með Emblu Rut er að vinna á sorginni. Hana fæ ég aldrei aftur að knúsa og kyssa eða sjá eldast og eignast sína fjölskyldu.

Ráðlegging mín er því mjög einföld, bólusetjið börnin ykkar af því að ala upp barn með einhverfu er margfalt gleðilegra og einfaldara en að missa barn. Ekki tefla lífi barnsins þíns eða annarra í hættu með því að sleppa að bólusetja það.”

 

 

SHARE