Ég er þakklát

Happy girl

Ég hef stundum verið kölluð Pollýanna, vegna þess að ég get séð góðu hlutina í flest öllu. Ég veit að lífið er ekki alltaf dans á rósum, og stundum hafa rósirnar meira að segja þyrna, en vitið þið hvað, hlutirnir batna ekkert við að kvarta.

Ég er lágvaxin, mjög lágvaxin. Ég er ekki dvergur, en þetta er samt genatiskt hjá mér. En ég er þakklát. Að vera lágvaxin er mitt sérkenni, og ég er stolt af því. Ég fékk vaxtarhormón sem barn, fyrst voru það töflur en svo sprautaði ég mig í nokkur ár. Og já, ég er þakklát, þakklát fyrir að það var hægt að hjálpa mér og ég vissi alltaf að ég myndi hætta að þurfa að sprauta mig þegar vaxtarlínurnar mínar voru við það að lokast, þeir sem eru sykursjúkir þurfa kannski að sprauta sig alla æfi(nú er ég að vitna í sjálfa mig þegar ég var 12 ára).

Auðvitað  kemur hæðin á mér í veg fyrir sumt, ég verð t.d. aldrei flugfreyja („fyrirgefðu, en ég næ ekki upp í hólfið fyrir ofan sætið, væri þér sama þó að þú myndir sjálfur ganga frá töskuni?“) og að fá buxur sem passa á mig er eitthvað sem gerist aldrei en ég rokkaði í feluleik þegar ég var barn!

Ég fékk krabbamein þegar ég var 6 ára, og þó að það hljómi mjög asnalega að þá er ég þakklát. Krabbameinið kenndi mér að elska lífið, og ég lifði af, það eru ekki allir jafn heppnir. Lífið er núna, ekki bíða eftir rétta augnablikinu, heldur gerðu öll augnablik að þeim réttu.

Ég á 2 börn sem eru bæði ættleidd og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir að hafa þurft að fara þessa leið til að verða mamma. Þetta kostaði að vísu blóð, svita og mjög mörg tár, en í dag á ég þessa ljós og gæti ekki hugsað mér lífið öðruvísi. Ég er þakklát fyrir að hafa vitað það mjög ung að ég gæti ekki orðið mamma á „venjulegan“ hátt, ég gat sagt manninum mínum það strax og sambandið fór að verða alvarlegt og þannig sluppum við við sársaukan á að reyna og reyna og ekkert gerist. Ég er þakklát fyrir að hafa þurft að sækja börnin mín til tveggja stórkostlegra landa sem ég hefði annars kannski aldrei ferðast til og í gegnum ættleiðinguna hef ég kynnst hreint út sagt frábæru fólki, fólki sem ég tel í dag til minna nánustu vina í dag.  

Og hvað hefur lífið svo kennt mér? Brostu, og heimurinn brosir við þér. Ef þér finnst garðurinn hjá nágrananum vera grænni, ekki öfunda nágrannann, það er tímasóun og tíminn þinn er mikilvægari en það, hugaðu heldur að þínum garði. Ég er líka viss um að nágranninn þinn hinum megin við þig finnst garðurinn þinn vera miklu grænni en sinn garður. Dreymdu, láttu svo draumana rætast.

 

SHARE