Ég fór í fóstureyðingu – Mín saga

Lífið er fullt af ákvörðunum, sumar ákvarðanir eru þannig að þú getur ekki tekið þær til baka og þarft að lifa með þeim, alltaf. Þegar ég var unglingur stóð ég frammi fyrir þannig ákvörðun. Þegar ég segi að „ég“ hafi staðið frammi fyrir ákvörðuninni er ég hins vegar að einfalda málið til muna, það hefði nefnilega líklega verið auðveldara að lifa með ákvörðuninni ef ÉG hefði í raun tekið hana ein og sjálf.

Fyrir um tveimur árum skrifaði ég pistil um fóstureyðingar og að hluta til um mína reynslu. Þegar ég les þann pistil í dag sé ég að þegar ég skrifaði hann var ég enn meðvirk, eins sorglegt og það nú er. Í dag finnst mér mikilvægt að ræða málin eins og þau eru í raun og veru og tilgangur minn með þessari grein, og því að segja frá minni reynslu undir nafni, er sá að ungar stelpur sem lenda í þeim sporum sem ég var í lesi hugsanlega þessa grein og verði meðvitaðar um að lokaákvörðunin í svona máli er ÞEIRRA og að enginn annar getur tekið hana FYRIR þær.

Málið er nefnilega það að þú þarft að geta litið í spegilinn og verið sátt við þína ákvörðun, hvort sem hún var að eiga barnið eða fara í fóstureyðingu, valið er þitt. Það er mikilvægt að ÞÚ takir ákvörðunina og látir ekki undan þrýstingi í hvora áttina sem er.

Af hverju er það réttur konunnar að velja hvort hún fer í fóstureyðingu eða ekki?

Mér finnst ótrúlegt að fólk spyrji ennþá að þessu. Ef þú skilur ekki af hverju lokaákvörðunin um að eignast barn er konunnar, þá hlýtur svarið að vera að auðvitað snýst þetta bara um almenn mannréttindi og yfirráðarétt yfir eigin líkama. Ég ræddi við þá flottu konu Hildi Lilliendahl um þetta mál og ég ætla að vitna í hana hér vegna þess að mér finnst það sem hún sagði segja allt sem segja þarf.

„Ég held að það sé mikilvægt þegar kona verður ólétt að faðirinn hafi tækifæri til að koma skoðun sinni á framfæri við hlutlausar eða þægilegar kringumstæður og án utanaðkomandi þrýstings. En hann á aldrei rétt á að beita sjálfur þrýstingi.

Og hann á aldrei rétt á að ákveða fyrir konuna hvort hún fer í fóstureyðingu eða ekki. Það *VERÐUR* að vera hennar ákvörðun. Það er ekkert heilbrigt eða eðlilegt við að það sé tekin „sameiginleg“ ákvörðun um það hvort kona gengur í gegnum það meiriháttar ferli sem meðganga og fæðing er, og alls ekki heldur það grófa inngrip sem fóstureyðing er. Það snýst um kynfrelsi, yfirráðarétt yfir eigin líkama og kvenréttindi almennt.“

Þetta tek ég undir.

Það er ekki auðvelt fyrir mig að koma fram undir nafni til að ræða mál sem er svo persónulegt fyrir mér og enn í dag viðkvæmt. Mér finnst hins vegar mikilvægt að þessi mál séu á yfirborðinu, nái inn í almenna umræðu, og það er mikilvægt að stelpur viti að þetta getur komið fyrir alla. Þess vegna er mikilvægt að vera vakandi.

Ég var í sambandi, mjög slæmu sambandi, sem mér leið illa í. Ég ætla ekkert að fara út í nein smáatriði en það fór svo að ég varð ófrísk. Í fyrstu brá mér rosalega, það var augljóslega ekki á dagskránni að verða ófrísk og þetta var áfall. Ég var heima hjá foreldrum mínum þegar ég tók óléttuprófið og ég man ennþá allar tilfinningarnar sem komu upp þegar ég fékk jákvæða niðurstöðu. Ég var bæði spennt og kvíðin. Mér hafa alltaf fundist börn yndisleg og mig hefur lengi langað að vera mamma, ég var byrjuð að velta því fyrir mér strax á unglingsárunum. Hins vegar vissi ég að þetta væri líklega ekki vænlegasti kosturinn og því var það ekki á planinu. Ég sagði kærastanum mínum frá þessu og upp úr því fór umræða af stað. Í fyrstu var ég á báðum áttum, ég hugsaði með mér að það væri ekki sniðugt að eignast barn svona ung og með manni sem vildi ekki eignast barn, en svo komu móðurtilfinningarnar inn og mér fór að finnast að ég gæti þetta alveg þótt ég væri svona ung.

Næstu daga grét ég mikið, vegna þess að mér fannst ótrúlega erfitt að taka þessa ákvörðun, ég var alveg í mínus. Þáverandi kærastinn minn sagði við mig: „Þú talaðir um að ef þú yrðir ólétt færir þú bara í fóstureyðingu, varstu bara að ljúga að mér??“ Þannig kom hann inn samviskubiti hjá mér, því auðvitað áttaði ég mig ekki á því hvernig tilfinningin yrði ef ég raunverulega yrði ólétt.

Þáverandi kærastinn var duglegur að segja mér að líf mitt yrði ónýtt ef ég eignaðist þetta barn, allir mínir draumar yrðu úr sögunni og ég myndi ekki geta gert neitt af því sem mig langaði að gera. Hann sagði einnig að hann gæti ekki séð fyrir barni. Ég man að mér fannst erfitt að skilja það þar sem hann var mun eldri en ég og á fínum aldri til að eignast barn, í góðri vinnu með hærri laun á mánuði en meðalmaðurinn. Eftir þetta pantaði hann tíma fyrir okkur í viðtali við félagsráðgjafa, sem er fyrsta skrefið í fóstureyðingu. Í viðtalsherberginu tók á móti okkur almennileg kona. Hún sagði okkur að það væru í raun tveir valkostir í boði, annars vegar að taka pillu og hins vegar fara í aðgerð.

Ég hef spáð í það eftir á að ég var til að mynda ekkert tekin á tal ein og því finnst mér að VERÐI að breyta. Það er sjálfsagt að faðir geti pantað tíma í viðtali líka en það er afar mikilvægt að það sé enginn sem gæti mögulega verið að þrýsta á stúlkuna að taka ákveðna ákvörðun viðstaddur viðtalið. Það á ekki að skipta máli hvort það er mamma, vinkona eða barnsfaðir sem vill vera viðstaddur í viðtali sem snýst um fóstureyðingu, mér finnst að stúlkurnar verði að fá að vera einar þegar þær ræða við félagsráðgjafann. Þá eru þær að ræða við hlutlausan aðila og geta komið sínum vilja og skoðunum á framfæri án þess að einhver sitji við hliðina á þeim og hlusti. Í mínu tilfelli var ákveðið að taka pilluna og mér var lítið sagt um hvaða áhrif hún myndi hafa á mig líkamlega. Ég kem að því seinna.

Dagana á eftir leið mér mjög illa enda ekki sátt við þessa ákvörðun. Þáverandi kærastinn fékk nóg af „vælinu“ í mér og sendi mig heim til foreldra minna (hann bjó í sinni eigin íbúð) þar sem ég var næstu tvær nætur. Ég gleymi því aldrei þegar ég hringdi í þáverandi kærastann og var að ræða þetta við hann og hann segir við mig: „Þetta ER ekki svona mikið mál!! Þú ert bara eitthvað geðveik, kona vinar míns var í fóstureyðingu um daginn og þetta var ekki svona mikið mál fyrir hana.“ Ég fór virkilega að halda að ég væri bara svona skrýtin að finnast þetta svona mikið mál. Daginn eftir átti ég tíma í snemmsónar og systir mín fór með mér. Eftir það breyttist allt. Ég sá litla baun í sónarnum og fékk mynd. Ég man ennþá að konan sem var að skoða mig virtist finna hvað mér leið illa yfir þessu, hún fann og sá hvað ég var buguð og sagði við mig: „Þú þarft að vera alveg viss um þessa ákvörðun, þú veist að einungis þú getur tekið hana.“ Ég fór bara að gráta og jánkaði. Ég ætlaði að reyna að fara með myndina og sýna þáverandi kærasta hana og sjá hvort honum snérist hugur. Þegar ég reyndi það vildi hann ekki sjá myndina og varð reiður. Ég gafst upp og fannst ég algerlega sigruð. Mér fannst ég ekki eiga annarra kosta völ en að láta undan þrýstingi og láta verða af þessu.

Á þessum aldri hafði ég svo sem ekki heyrt neitt mikið um fóstureyðingar en það sem mér hafði verið sagt var í raun að þetta væri „ekkert mál“; ég hafði oftar en ekki heyrt stelpur segja: „Já, þá fer ég bara í fóstureyðingu.“ Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta er í raun mikið mál fyrr en ég þurfti að ganga í gegnum það sjálf. Ég hefði viljað fá meiri fræðslu, bæði um hvaða áhrif pillan sem er tekin í ferlinu hafi á líkamann og einnig eftirköstin.

Daginn sem ég átti að mæta upp á spítala kom ég snemma um morguninn og fékk pillu í glasi sem var sett fyrir framan mig. Ég hikaði í smá stund en tók hana svo og sá eftir því um leið og hún var komin niður. Eftir það brotnaði ég niður og fór heim þar sem ég lagðist fyrir. Ég hringdi í mömmu stuttu seinna og spurði hana hvort það væri einhver séns að ég gæti tekið þetta til baka (já, ég var „desperate“). Hún hringdi í systur sína sem er hjúkrunarfræðingur og sagði mér svo að það væri ekki í boði, þegar þú hefur tekið fyrstu pilluna er skaðinn skeður. Eftir að ég hafði fengið þær upplýsingar tók ég næstu pillu. Nóttin þar á eftir var hræðileg, ég ældi stanslaust og sat á klósettinu þar sem allt kom niður. Ég sat á klósettinu með fötu fyrir framan mig og sá þegar fósturleifarnar komu niður í klósettið.

Morguninn eftir fékk ég svo rosalega verki, ég veit ekki hvernig hríðar eru en gæti trúað að þetta hafi verið eitthvað svipað, miðað við lýsingarnar sem ég hef heyrt. Ég fór upp á spítala þar sem ég fékk morfín. Eftir það leið mér betur og fékk að fara heim eftir um það bil átta tíma. Dagana eftir var ég í raun í móki – ég var uppfull af hormónum og leið virkilega illa. Það hjálpaði heldur ekki í allri þessari vanlíðan að þremur dögum eftir fóstureyðinguna sagði þáverandi kærastinn minn mér upp, en það var, án þess þó að ég vissi það þá, auðvitað það allra besta í stöðunni fyrir mig. Mér leið auðvitað eins og það hefði verið freklega brotið á mér. Þarna var ég búin að fara í fóstureyðingu gegn minni sannfæringu og leið svo eins og mér hefði verið nauðgað þegar mér var hent eins og rusli eftir að hafa gengið í gegnum þetta allt saman. En þó að ég hafi ekki áttað mig á því þá, var það besta sem gat komið fyrir mig að losna úr þessu sambandi og fá að vinna úr þessari reynslu sjálf.

Eftir þetta allt saman fékk ég taugaáfall, ég gat ekki sofið og leið alveg hræðilega. Ég fékk lyf sem hjálpuðu mér að sofa og einhvern veginn komst ég í gegnum þetta hræðilega tímabil. Ég fæ ennþá hroll þegar ég hugsa um þennan tíma en ég tel mig vera sterkari manneskju í dag fyrir vikið, þó svo að ég vildi enn þann dag í dag að ég hefði staðið öðruvísi að málunum. Ég hugsa með mér: Fyrst ég gat gengið í gegnum þetta helvíti get ég gengið í gegnum margt. Ég talaði lítið um þetta á sínum tíma og í rauninni voru þeir einu sem vissu af þessu þeir sem vissu hvað var í gangi og voru á staðnum til að reyna að hjálpa mér að púsla mér saman aftur, vinir mínir og fjölskylda, en þau sáu og heyrðu hvað var í gangi og því vita mínir nánustu nákvæmlega hvað ég gekk í gegnum og geta staðfest þessa grein mína. Það tók mig vissulega tíma, en ég kom sterkari til baka eftir þessa reynslu og ég get svo sannarlega sagt það að ég er svo innilega þakklát fyrir formæður mínar og einnig hvunndagshetjurnar sem berjast fyrir kvenréttindum og fá oft að launum miklar svívirðingar, því ef ekki væri fyrir það fólk hefðum við konur líklega ekki þessi réttindi yfir líkama okkar.

Eins og ég sagði hér áður þá finnst mér mjög erfitt að deila með ykkur minni persónulegu reynslu sem er virkilega viðkvæm og snýst um viðkvæmt málefni, en þessi mál þarf að ræða og ég er svo heppin að eiga besta unnusta sem hugsast getur sem styður mig 100% í að koma fram og segja mína sögu og það er sko alveg á hreinu að það eru ekki bara konur sem skilja mikilvægi þess að við ráðum yfir okkar líkama. Karlmenn almennt held ég að átti sig vel á því og finnst það eðlilegast í stöðunni, þar sem við göngum með fóstrið í okkar líkama og fæðum það svo þegar það er orðið að barni, þá er ekkert eðlilegra en að við tökum endanlega ákvörðun um hvað við viljum gera. Fóstureyðing er mikið inngrip í líkama okkar og það er meðganga og fæðing líka.

Mikilvægast af öllu er að þú sért sátt við þína ákvörðun, hvort sem hún er að fara í fóstureyðingu eða eiga barnið. Valið er þitt. Ég er enn að glíma við afleiðingarnar af því að hafa gert hlut sem mér fannst ég ekki eiga að gera. Þetta kemur stundum upp ennþá, til að mynda missti ég fóstur í sumar og í sárindunum læddist sú hugsun að mér að ég hefði kannski bara átt það skilið. Nei, ég átti það ekki skilið, það á það enginn skilið og það er engum hollt að velta sér svona upp úr hlutunum.

Mikilvægasti punkturinn er þessi: ófrískar konur sem ætla í fóstureyðingu eiga að ræða við félagsráðgjafa í einrúmi fyrst. Það er mikilvægt að tryggja að svo sé. Eftir viðtalið getur vinur, maki eða stuðningsaðili þess vegna komið inn eða pantað sér viðtalstíma EN það ER mikilvægt að félagsráðgjafi fái fyrst að tala við stúlkurnar einar.

Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður bað mig að koma fram í Málinu og segja frá minni reynslu. Þátturinn verður sýndur næsta mánudag og við munum birta klippu úr þættinum um helgina.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here