„Ég held að maðurinn minn sé að halda framhjá mér, með öðrum manni“

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Ég er 47 ára gömul kona og bý á höfuðborgarsvæðinu. Ég og maðurinn minn kynntumst í framhaldsskóla rétt fyrir tvítugt og höfum verið saman æ síðan. Við giftum okkur fyrir mörgum árum og eigum tvö börn og allt eins og það á að vera. Eða svona næstum því.

Við hjónin höfum alltaf verið mikið saman og miklir vinir. Eiginlega of miklir vinir, því við gerum allt saman, njótum þess að stunda áhugamálin okkar saman og eftir að drengirnir okkar urðu sjálfbjarga höfum við haft mikinn tíma fyrir okkur tvö og höfum mikið ferðast og svoleiðis. Vináttan er mjög ríkjandi hjá okkur og það var ekki fyrr en nýlega að ég áttaði mig á því að við erum eiginlega BARA vinir. Það má eiginlega segja að við séum varla búin að sofa saman í 2 ár núna. Ég átta mig ekki á því hvernig þetta fór í þetta horf, eða hvenær en við erum komi í þetta far og það er ekkert að fara að breytast.

Fyrir rúmu ári síðan fór maðurinn minn að vinna á nýjum vinnustað og eins og oft vill verða eignaðist hann nýja vini og kunningja í þessari nýju vinnu. En það er einn maður sem mér finnst óvenju mikið að sækjast í félagsskap mannsins míns og ég hef orðið svolítið útundan þegar kemur að áhugamálinu okkar hjóna að undanförnu því nýji vinurinn hefur eiginlega tekið við af mér.

Annað sem ég hef tekið eftir líka er að alltaf þegar maðurinn minn er í tölvunni sinni þá, oftar en ekki er hann að tala við þennan vin sinn á Fasbókinni og það er alltaf blikkandi skilaboðagluggi með hans nafni á. Mér finnst hann líka farinn að vera svolítið stressaður oft í kringum mig þegar hann er með opna tölvuna og eins og ég megi ekki sjá hvað hann er að gera.

Þeir fara mjög gjarnan og fá sér einn drykk eftir vinnu og mér finnst alveg nóg um stundum. Stundum hafa þeir farið á pöbbarölt og þá er maðurinn minn yfirleitt mjög lengi úti og kemur ekki fyrr en seint og um síðir heim.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta er að ég er að verða vitlaus. Ég er farin að gruna að þeir séu farnir að gera eitthvað saman og ég er með sífellt samviskubit yfir því að hugsa þetta. Ég fékk bara þessa tilfinningu fyrir einhverjum mánuðum síðan og ég losna ekki við hana og svo virðist sem allir atburði styðji við þessar grunsemdir mínar.

Það hefur hvarflað að mér að opna Fasbókina hans en ég hef ekki gert það ennþá. Er ég að verða eitthvað ga ga? Ég veit það ekki en mér finnst líka alltof erfitt að tala um þetta við vinkonurnar, hef ætlað að gera það en hef alltaf guggnað á því. Kannski er ég bara að ímynda mér þetta allt en kannski ekki og ég hef ekki í mér að brydda upp á þessum samræðum við manninn minn, svo ég geng bara með þetta ein….. alla daga. Og veit ekki hvað ég á að gera…..

SHARE