Ég misnotaði engan

Þuríður skrifar þennan pistil á heimasíðunni: freyjur.wordpress.com og segir hér frá reynslu sinni af því að vera fórnarlamb kynferðisofbeldi:

——————–

Fyrr í sumar gerðist ég svo hugrökk að birta grein þar sem ég viðurkenndi það fyrir alþjóð að ég væri fórnarlamb kynferðisofbeldis.

Ég lenti í minni fyrstu misnotkun þegar ég var átta ára, af hálfu frænda míns. Þegar ég var fimmtán ára var mér nauðgað og ári síðar, þegar ég var sextán ára, lenti ég í hrottalegu kynferðisofbeldi.
Með því að opinbera þessa atburði get ég sýnt fólki að þó svo ég hafi lent í þessu þá held ég áfram að vera sterk og lifa lífinu sem mér var gefið. Það kemur alveg fyrir að ég hugsi að með öllu þessu sé nú alltof mikið lagt á eina manneskju en ég trúi að það hafi einhvern tilgang og ég ætla svo sannarlega ekki að leggjast niður og vorkenna sjálfri mér fyrir að hafa mátt þola þetta.

Því miður er ég langt því frá að vera einsdæmi og er þessari grein ætlað að vekja á því athygli.

Þegar ég var fimmtán ára og nýbyrjuð í menntaskóla var ég kölluð drusla, lauslát, hóra og margt fleira. Fólkið sem kallaði mig þetta vissi ekki að nýlega hafði mér verið nauðgað af fyrrverandi kærasta góðrar vinkonu minnar og að ég hafði sett upp svo stóra grímu að ég var löngu búin að týna sjálfri mér.

Það sem fólk vissi ekki að á bakvið þessa grímu sem ég var búin að setja upp var svo mölbrotin manneskja, manneskja sem vissi ekki hvernig hún ætti að höndla hlutina. Vanlíðanin braust út í því að hún byrjaði að drekka í óhófi og sofa hjá til þess að byggja upp sjálfstraustið. Ég tala um þessa manneskju í þriðju persónu því þessi manneskja var partur af mér en ég hef sagt skilið við hana í dag og vill aldrei þurfa að verða hún aftur.

Ég get ekki lýst því með orðum hversu illa mér leið á fyrsta árinu mínu í menntaskóla með allar þessar sögusagnir og slúður í gangi. Í byrjun sumars 2008 lenti ég í því að bolta var komið fyrir í leggöngnum á mér að mér óafvitandi og ég gekk um með hann grunlaus í þrjár vikur. Ég fékk að sjálfsögðu bullandi sýkingu og bjó um tíma við það að vera ófrjó. Boltinn var fjarlægður með skurðaðgerð en það sem mér fannst samt verst var niðurlægingin sem ég fann fyrir þegar kvensjúkdómalæknirinn sagði við mig “Þú ert með bolta upp í leggöngnum og verður að fara í aðgerð – helst núna”. Þá fyrst leið mér eins og þessari ógeðslegu druslu sem fólk hafði kallað mig síðasta árið. Ég fór að sjálfsögðu í aðgerðina og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom útaf sjúkrahúsinu var að kæra drenginn sem framkvæmdi þennan verknað. Ég grét ekkert fyrr en á lögreglustöðinni, þegar áfallið var farið að dvína og ég fann aftur hversu niðurlægð ég var. Mér leið eins og lögreglan liti á mig og hugsaði það sama og allir aðrir – hversu ógeðsleg er þessi stelpa?

Mér var skipaður lögfræðingur og ég þurfti að mæta í yfirheyrslu upp í héraðsdóm þar sem ég var tekin upp á myndband. Ég fékk skýrsluna mína í hendurnar núna í vetur og ég get ekki lýst því hversu reið ég var þegar ég las þetta yfir aftur. Vert er að taka fram að þessir strákar sem báðir beittu mig kynferðislegu ofbeldi og grófri misnotkun, voru á þessum tíma bestu vinir.
Í skýrslunni kom meðal annars fram:
– “Þú fílar þetta alveg, þetta er eins og að afmeyjast aftur” sagði sá sami og var fyrsti strákurinn sem ég svaf hjá en með þessu átti hann við að ég væri að afmeyjast aftur – bara með 6 cm bolta upp í leggöngunum.
– “Ég ræð, ég hef stjórnina núna, þú gerir bara það sem ég segi” segir hann við mig á meðan hann er að nauðga mér.
– “Já ég myndi borga 5000 kr. í þessu mér finnst þetta svo drullufyndið” sagði besti vinur afbrotamannsins, sá sem hafði nauðgað mér hálfu ári áður, þegar ég spurði hann hvort hann hefði vitað af boltanum og ekki sagt mér frá því.
– “Hann virkilega snéri mér á alla kanta eins og ég væri lítil barbídúkka og þú veist ég ligg með hausinn svona fram við rúmgafl og hann er að reyna að ríða mér í munninn sem mér finnst sjúkt” sagði ég í skýrslutökunni um atburðarrásina.

Boltinn sem var settur upp í leggöngin á mér var tæpir 6 cm í þvermál. Eftir að hann hafði verið fjarlægður fékk ég að sjá hann. Það var búið að rífa hann allan í sundur og hann var grænn af myglu, lyktin var svo ógeðsleg að ég kúgaðist þegar ég sá hann.

Á þessum tíma byrgði ég inni allar tilfinningar mínar gagnvart þessu, ég gat ekki tekist á við þessa atburði og ég grét kannski tvisvar sinnum á fimm árum yfir þessum atburðum. Þegar ég fékk skýrsluna aftur í hendurnar fór ég að hágráta því ég varð svo reið. Svo reið yfir því að svona sjúkt fólk væri til, svo reið yfir því að fólk gæti misnotað hvort annað á svo hrottalegan hátt – bálreið yfir því að svona hafði verið farið með líkamann minn.

Málið var tekið fyrir 16 desember 2008. Ég fékk að lesa skýrsluna og vitnisburð gerandans. Ég varð aftur fjúkandi reið því gerandinn heldur því fram að ég hafi vitað af þessu öllu saman, hann hafi m.a. sýnt mér boltann og ég átti að hafa sagt honum að „láta það flakka“.

Á þessum tíma var ég skiptinemi á Ítalíu og það var mjög gott að vera ekki stödd á Akureyri á meðan, og eftir, að dómurinn var kveðinn. Ég vann þó málið, mér voru dæmdar miskabætur og málið komst í fjölmiðla. Allir virtust vera að tala um þetta, flestir á léttum nótum. Fólk óskaði mér til hamingju með sigurinn en flestir virtust samgleðjast mér mest yfir miskabótunum. Þó ég hafi unnið málið fannst mér ég samt hafa tapað. Ég þarf að lifa með þessu alla mína ævi og engin peningaupphæð mun breyta því. Ég átti mjög langt í land í átt að góðu lífi og hafði ekki hugmynd hvernig ég átti að byggja mig aftur upp eftir atburði sem höfðu gjörsamlega mölbrotið mig.
Ég fékk oft að heyra „Jæja Þuríður, þú býður mér í glas núna! Þú vannst náttúrulega pening!“
Ha?…Í alvöru? Ég var að enda við að vinna ákærumál þar sem ég hefði getað orðið varanlega ófrjó eða dáið og fólk lét eins og ég hefði unnið í lottó! Þó það séu liðin fimm ár frá atburðunum man ég þessi orð nákvæmlega. Orð særa, þó það sé að sjálfsögðu ekki alltaf ætlunin.

Akureyri er ekki stór staður og ég með stóran munn. Ég vissi ekki betur en að segja fólki frá þessu og að sjálfsögðu var þetta fljótt að fréttast. Þegar ég talaði um atburðinn var mér svo sannarlega ekki hlátur í huga og var að leita eftir samúð en kemst svo að því að góð vinkona mín segir kærastanum sínum frá þessu þegar hún vildi segja honum eitthvað fyndið.
Sögurnar uxu og uxu, einn bolti, tveir boltar, tennisbolti, skopparabolti – nefndu það. Ég var þekkt sem boltagellan og var reglulega minnt á það.
Allt í einu var ég orðin umtalaðasta manneskjan á Íslandi. Þetta kom í útvarpinu, fólk bloggaði um þetta og oft lenti skuldin og skömmin á mér. Oft var talað um hvað ég hefði verið vitlaus eða heimsk, að láta svona eða hinsegin. Mér var kennt um – ekki honum fyrir að troða bolta upp í leggöngin á stelpu og skilja hann eftir þar. Finnst ykkur það sanngjarnt?
Fólki fannst þetta fyndið, brandari, einhver djók-saga sem þulir FM957 lesa í „furðufréttum“. En þetta er bara alls ekkert fyndið.
Ég hefði getað fengið blóðeitrun og dáið, er það fyndið?
Ég hefði getað orðið ófrjó, er það fyndið?
Ég gat ekki sofið hjá edrú í mörg ár því mér leið svo illa yfir þessu, er það fyndið?
Ég drakk mig fulla hverja einustu helgi til þess að deyfa mínar eigin tilfinningar, er það fyndið?
Ég er búin að eyða fimm árum í að reyna að byggja mig upp og var með minnimáttarkennd í öll þessi ár, er það fyndið?
Ég hef aldrei getað umgengist karlmenn eftir þetta án þess að vera óörugg og líða illa, er það fyndið?

Ef eitthvað af þessu virkar fyndið, láttu þá athuga siðferðiskenndina í þér.

Hvernig varð ég aðhlátursefni? Af hverju var það ég sem var ógeðsleg, af hverju var ég niðurlægð á opinberum vettvangi – þegar ég gerði ekkert af mér? Af hverju var aldrei rætt hversu illa gert þetta var? Hversu ógeðslegur hann var að gera mér þetta? Hvernig honum hefði getað dottið þetta í hug?
Það var brotið á mér. Ég er fórnarlamb nauðgana og ofbeldis – ekki heimsk, ógeðsleg drusla sem „var bara að biðja um þetta“.

Ég er búin að þjást mjög lengi af áfallastreituröskun, ég er búin að eyða stórfé sálfræðinga og ég hef aldrei getað átt almennileg samskipti við karlmenn. Ég kom út úr skápnum fyrir tveimur árum og ég er nokkuð viss um að þessar upplifanir mínar á karlkyninu hafi haft eitthvað um það að segja að mér líður mun betri í kringum konur og treysti þeim – eitthvað sem ég hef aldrei gert við karlmenn.
En það er mjög erfitt að læra að treysta aftur. Ég var í sambandi í tvö ár og það tók mjög mikinn toll af sambandinu að ég gat ekki treyst kærustunni minni og ímyndaði mér alltaf að hún myndi særa mig, því mér fannst ég eiga það skilið.
Ég hata samt ekki alla karlmenn og held því ekki fram að allir karlmenn séu vondir því ég veit mun betur. Það er til fullt af góðum karlmönnum. Ég hef smátt og smátt kynnst betur karlmönnum sem ég treysti, sem hafa hjálpað mér mjög mikið með því að vera þeir sjálfir.

Ég hef verið með mjög mikla minnimáttarkennd og finnst ég aldrei nógu góð, mér finnst ég alltaf ógeðsleg, ég er haldin mjög mikilli kvíðaröskun og það versta var að mér fannst ég ekki fá þessi „hefðbundu“ viðbrögð sem ég hélt að allir upplifðu eftir nauðgun. Ég hélt að allir sem hefðu lent í „alvöru“ nauðgun myndu gráta allan daginn og aldrei vilja stunda kynlíf. Ég taldi mér lengi trú að ég væri löngu búin að vinna í hlutunum því ég hefði bara aldrei upplifað þessi „hefðbundu“ viðbrögð.
Það eru engin viðbrögð rétt eða röng þegar svona gerist. Fólk tekst á við hlutina á mismunandi hátt og þetta þurfa allir að vita.
Þó nú sé allur þessi tími liðinn, er ég fyrst að takast á við þetta núna.

Eftirfarandi er bútur úr dagbók sem ég hélt fyrir sálfræðinginn minn. Hún bað mig að skrifa um líðan mína eftir atburðina 2007. Þetta skrifaði ég núna í október 2013.
„Ég skammast mín svo mikið gagnvart því að hafa ekki náð að stoppa þetta. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki hlaupið strax í burtu, ég skammast mín fyrir að hafa ekki öskrað á hjálp, ég skammast mín fyrir að hafa talað við hann eftir þetta, ég skammast mín fyrir að hafa ekki staðið upp fyrir sjálfri mér, ég skammast mín fyrir að þetta var fyrrverandi kærasti góðrar vinkonu minnar, ég skammast mín fyrir að vera byrði á öllum í kringum mig, ég skammast mín fyrir að hafa ekki sýnt viðbrögð strax, ég skammast mín fyrir að hafa grafið þetta niður, ég skammast mín og þoli ekki að geta ekki treyst, ég skammast mín fyrir að hafa ekki sýnt önnur viðbrögð. Mér finnst eins og þetta sé allt mér að kenna – mér finnst þetta vera eitthvað sem ég átti að stoppa.“

Hér eru nokkrir punktar sem ég hef skrifað fyrir sálfræðinginn minn um líðan mína eftir þessa atburði:
– Þegar ég var yngri þá var ég mikið ein og fannst það gott en núna HATA ég að vera ein. Því ef ég er ein þá þýðir það að ég þarf að hugsa. Ef ég hugsa þá líður mér alltaf illa. Ég vil alltaf vera að gera eitthvað. Ég stoppa aldrei, um leið og ég finn einhverjar hugsanir sækja á mig þá líður mér alltaf ömurlega.
– Ég treysti mér ekki lengur. Ég vil alltaf fá skoðanir hjá öðrum og heyra hvað öðrum finnst. Ég veit ekki einu sinni hvað mér finnst lengur, ég er alltaf að reyna að fá staðfestingu hjá öðrum að ég sé nógu góð því mér finnst ég aldrei nógu góð.
– Stundum fæ ég köst þar sem mér finnst ég ógeðsleg og ég virkilega hata sjálfa mig.
– Ég er CONTROL FREAK, ég hef alltaf viljað hafa hlutina á hreinu en núna þá getur þetta gengið svo langt að ég píni sjálfa mig næstum í að æla til að hafa stjórn á einhverju.

Þegar ég kom út úr skápnum leið mér aldrei nándar nærri jafn berskjaldaðri og mér líður núna. Mér líður eins og ég standi nakin frammi fyrir alþjóð og opinberi öll mín ör og lýti. En ef einhver getur horft á mig allsbera og séð sömu örin og áttað sig á því að það að vera fórnarlamb nauðgunnar og kynferðisofbeldis er ekki dauðadómur, er tilgangi mínum náð.

Orðum mínum er líka beint að samfélaginu sem brennimerkti mig sem heimska druslu, ofdrukkna ungingsstelpu og vitleysing. Þetta er ekki mín sök. Ég misnotaði engan. Ég neyddi engan til samræðis og ég tróð ekki bolta inn um líkamsop annarrar manneskju.

Við verðum að hætta þessari drusluskömmun og hætta að fylgjast með hverju einasta skrefi sem næsta manneskja tekur – fylgjumst frekar með okkar eigin skrefum.

Ég er núna loksins hætt að skammast mín því ég gerði EKKERT rangt, ég bað ekki um að lenda í þessum hlutum það eina sem ég gerði mögulega rangt var að skammast mín svona lengi fyrir þessa atburði.
Ég hef losnað við hatrið á þessum strákum. Ég græði ekkert á að hata, það lætur mér ekki líða betur bara miklu verr, þessir strákar finna ekki fyrir því. Ég trúi á karma og þeir munu fá refsingu fyrir það sem þeir gerðu á einn eða annan hátt.
Ég ætla hér með að kveðja reiðina mína og hatrið mitt, þið hafið verið mjög leiðinlegir ferðafélagar seinustu árin og ég ætla hér með að segja skilið við ykkur og halda áfram ferðalaginu mínu með nýju ferðafélögunum mínum, ást og umhyggju.

Ég vil enda þessa grein mína á að þakka öllu fallega, yndislega og frábæra fólki mínu í kringum mig sem hefur stutt mig í gegnum alla þessa erfiðleika og alltaf verið til staðar þegar ég þurfti sem mest á þeim að halda. Fólki finnst ég eflaust skrýtin manneskja en mér er alveg sama, ég er bara ég. Ég er hvatvís með fullt af tilfinningum og græt oft yfir skrýtnustu hlutunum eins og þegar brauðið sem mig langar í klárast. En ég er bara manneksja með öllum mínum kostum og göllum.

Elsku fólk getum við hætt að reyna að vera fullkomin og verið bara ófullkomin eins og við vorum sköpuð. Það er svo meira en í lagi að gráta, líða illa, vera með kvíðaröskun, þunglyndi – hvað sem er. Svo lengi sem maður viðurkennir það fyrir sjálfum sér og gerir eitthvað í því.

Það á enginn að þurfa að lifa í skömm fyrir að vera hann sjálfur.

SHARE